Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Blaðsíða 269
sterk fylgni við einhvern tiltekinn hóp, þar sem verið er að vísa til frumstiga
málbreytinga á meðan nýjung hefur enn tiltölulega litla útbreiðslu. Tilhneigingin
getur samt sem áður verið til staðar og bent hefur verið á að nýjungar sýni aldrei
fylgni við efri lög samfélagins, valdastéttina eða elítuna, nema þær sem fengnar
eru að láni og einhver sérstök upphefð er í, þ.e. breytingar „að ofan“ (e. from
above) eða „miðaðar“ breytingar (e. targeted change) sem annað gildir um (sjá ritg.
bls. 18, 25–26, 119). Það er því einkum í öðrum hópum en valdastéttinni sem
nýjungar koma helst fram.
Fyrri ummælin vísa fyrst og fremst til ferils málbreytingar þar sem félagsleg
tilbrigði spretta af breytingu sem er í gangi: þau geta þá fyrst birst tiltölulega
óháð félagslegum þáttum en tengjast þeim sífellt nánari böndum, þar til breyt-
ingin hefur að lokum breiðst út til það stórs hluta samfélagsins að vægi félags-
legra þátta veikist og hverfur. Þetta táknar hins vegar ekki að þótt tilbrigði sýni
merki um félagsleg tengsl sé endilega um breytingu að ræða sem sé í gangi, því
það ástand getur verið viðvarandi og því stöðugt. Eins getur breyting gengið til
baka. Það kann samt að vera að sú staðhæfing að nýjungar sýni í fyrstu ekki
(sterka) fylgni við félagslega þætti sé full glannalega orðuð en hún er byggð á eins
konar líkani eða skema af ætluðum ferli málbreytinga og felur auðvitað í sér
mikla einföldun (sjá Tagliamonte 2012:61 og tilv. þar).
Svar við spurningu 3: Konum er skipað í efsta flokkinn ef þær t.d. giftast ein -
hverjum úr stétt embættismanna eða ef feður þeirra tilheyrðu þeim hópi. Þetta
hélst yfirleitt í hendur, þ.e. dætur manna úr hópi embættismanna eða úr presta-
stétt giftust venjulega inn í þessa sömu hópa. Á þessu kunna auðvitað að vera
undan tekningar en fólk á þessum tíma var almennt ekki mjög hreyfanlegt upp á
við (e. upwardly mobile), þ.e. af lægri stigum og upp þjóðfélagsstigann. Ég þurfti
t.d. ekki oft að taka afstöðu til þess hvort fátæk vinnukona færi í efsta flokkinn
ef hún giftist presti eða sýslumanni eða vinnumaður ef hann tæki saman við
prests dóttur eða biskupsekkju enda hefðu það verið óvenjuleg mynstur á þessum
tíma. Eins og sjá má í yfirlitstöflunum getur flokkun eftir þjóðfélagsstöðu þó
verið óljós, t.d. þegar Ingibjörg Jónsdóttir, upprunalega með fjölskyldutengsl við
prestastétt, giftist inn í 3. þjóðfélagsflokk skv. flokkun Gísla Ágústs Gunnlaugs -
sonar (1988), þ.e. stétt kaupmanna og handverksmanna. Eins tilheyrir Guðný
Jónsdóttir („Borgfirðings“ Jónssonar, alþýðufræðimanns) samkvæmt uppruna
hinni vaxandi borgarastétt en giftist svo inn í embættismannastétt og flokkast
því í samræmi við það, ólíkt systur sinni, Guðrúnu Jónsdóttur, sem giftist aldrei.
Einnig er rétt að nefna að margt er óljóst varðandi bakgrunnsbreyturnar þeg-
ar kemur að stöðu bréfritara, ekki síst þeim sem tilheyra bændastétt. Í þeirri stétt
getur efnahagsleg staða auðvitað skipt miklu máli en upplýsingar um umfang og
eðli búskapar liggja oft ekki fyrir, auk þess sem sumir bændur gengu í skóla,
þ.m.t. í Lærða skólann (sbr. umræðu í ritgerðinni bls. 40, 101).
Svör við andmælum Höskuldar Þráinssonar 269