Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Blaðsíða 280
unar setningu án sýnilegs frumlags og þannig ruglað saman stílfærslu og sögn í
þriðja sæti (Adv−Vfin) — líkt og sumir hafa gert í gegnum tíðina, t.d. Jakob Jóh.
Smári í setningafræði sinni og presturinn sem fannst vera „eitthvert danskt óbragð
að […] ellegar klaufabragð“ (sjá ritg. bls. 84 og tilv. þar). Ég tel líklegra að kennar-
arnir hafi litið til dönsku og annarra skyldra mála þar sem ákveðinn greinir er
notaður í dæmum af þessu tagi, einnig í afmarkandi merkingu (sá/hinn fyrri,
sá/hinn síðari) og þótt tilvísunarsetning fylgi á eftir, og viljað setja hinn á alla þá
staði. Það er þá einfaldlega tilraun til málstýringar frekar en einhver vankunnátta
eða uppgjöf varðandi merkingarlega eða notkunarlega þætti. Þó að mér finnist
samanburðurinn við vandræði við að kenna um nýju setningagerðina (Það var
hrint mér/lamið mig … andspænis Það var stolið bíl …) mjög áhugaverður held ég
að það sé ekki alveg sambærilegt. Halldór Kr. Friðriksson (1861:30) gefur reynd-
ar í skyn í málfræði sinni að það sé erfitt að lýsa því nákvæmlega hvar nota eigi
hinn og segir það „komið undir tilfinningu og vilja þess, sem ritar“ þótt þarna sé
hann að vísu að bera hinn saman við viðskeytta greininn, ekki við sá.
Dreifingin í tímaritunum (sjá kafla 4.3.5, bls. 162–165) sýnir líka að anafór-
ísk notkun á hinn er mjög mikil allan síðari hluta 19. aldar og í raun fjarar frekar
hægt undan henni. Á sjöunda áratug 20. aldar er hinn enn haft í um eða yfir
helmingi tilfella með hinn fyrrnefndi/síðarnefndi, þótt það sé náttúrulega fjarri
90–95% hlutfalli hinn í því umhverfi um öld áður. Kennararnir vissu að mínu
mati með öðrum orðum alveg hvað þeir voru að gera en þetta skref virðist aftur á
móti hafa reynst of stórt til þess að bera árangur þegar til lengri tíma er litið.
Eins finnst mér ólíklegt að þessi notkun hinn í kjörumhverfi sá, þar sem tilvísun-
arsetning fer strax á eftir, hafi borið mikinn árangur en þetta var ekki kannað að
öðru leyti en því að tíðni hinn í dagblaða- og tímaritstextum eykst yfir allt tíma-
bilið 1800–1925 bæði þar sem nafnliðnum fylgir tilvísunarsetning og með ein-
földum/óbreyttum liðum (sbr. mynd 4.22, bls. 151). Svipað mynstur sést í bréf-
unum nema hvað þar er tíðni sá miklum mun hærri yfir allt tímabilið og munur-
inn eftir umhverfi minni (sbr. mynd 4.23, bls. 152).
Svar við spurningu 11: Þótt stundum sé litið á formin en og ens sem aukafalls-
myndir af óákveðna fornafninu man í dönsku er það ekki einhlítt. Sýn mín á fn.
man í dönsku byggðist að verulegu leyti á ágætri umfjöllun Jensens (2009) en þó
ekki síst á Fenger (2018). Ég byrja á hinni síðarnefndu. Fenger (2018) fjallar ítar-
lega um ópersónuleg „man-fornöfn“ innan germönsku málaættarinnar. Þar talar
hún um en og man sem fornöfn, ekki sem eitt fornafn líkt og HÞ lýsir, þar sem
greint er eftir merkingu eða notkun: en sem „imp-φ“ og man sem „imp-N“
(Fenger 2018:295, tafla 2). Fjallað er um þetta sem „two pronoun types“ (Fenger
2018:298), þar sem seinni gerðin getur aðeins staðið í nefnifalli en sú fyrri getur
staðið í hvaða falli sem er. Merkingarlega eru þessi fornöfn líka ólík. Fenger
heldur því fram að hafi tungumál „imp-N“ fornafn, sem er notkunarlega svolítið
takmarkað, þá hafi það jafnframt eitthvert „imp-φ“ fornafn á móti.
Heimir Freyr van der Feest Viðarsson280