Börn og menning - 2015, Side 5

Börn og menning - 2015, Side 5
Frá ritstjóra frá ritstjóra Lestrarstundir barnæskunnar eru greyptar í minni mitt: eldhúsborðið hjá ömmu, kakómalt, ristað brauð með osti og Dularfulli húsbruninn. Minningar um lestrarstundir unglingsáranna eru loðnari, ég man í raun frekar eftir ráðvilltu rápi milli bókaskápa heimilisins í leit að einhverju sem fangað gæti hugann. Mig langaði að lesa, ég vissi bara ekki hvað. Barnabækurnar í minni eigin hillu hafði ég flestar lesið margoft auk þess sem mér þóttu ævintýri Finns, Dísu og félaga allt í einu orðin frekar bjánaleg – hvernig í ósköpunum ættu einhverjir krakkar að geta þefað uppi glæpamál í hverju einasta sumarfríi? En fullorðinsbækurnar í stofuskápnum voru ekki heldur sérlega árennilegar – ég gat staðið við skápinn og lesið aftan á kápur í klukkutíma án þess að finna neitt sem mér fannst hljóma spennandi. Ég vissi svo sem alveg af því að til væru bækur sem ættu að leysa þennan vanda – unglingabækur – en ég hafði satt best að segja aldrei fundið mig í þeim. Þær fjölluðu eiginlega ekki um neitt annað en krakka sem vildu byrja hvert með öðru og undirstrikuðu allar mikilvægi þess að byrja aldrei að reykja, drekka eða taka inn eiturlyf. Fyrst þóttu mér þessar bækur of fullorðinslegar og svo skyndilega allt of smábarnalegar. Hafi verið eitthvert tímabil 5 þarna á milli efast ég um að það hafi verið mikið lengra en svona tvær mínútur. Í þessu hausthefti Barna og menningar skoðum við í bókaskápana sem ætlaðir eru ráðvilltum unglingum í leit að lesefni. Mér til mikillar ánægju virðist fjölbreytnin mun meiri en á mínum unglingsárum og ég á bágt með að trúa öðru en að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég er líka ekki frá því að vegur unglingabókarinnar sé að aukast. Hinn nýi flokkur ungmennabóka í Bókatíðindum ársins 2014 bendir í það minnsta til þess, sem og stóraukinn áhugi fullorðinna á að lesa bækurnar sem hann fylla (undirrituð meðtalin!). Í blaðinu er fjallað um bæði nýjar og gamlar unglingabækur. Dagný Kristjánsdóttir skrifar um Manninn sem hataði börn og aðrar hryllilegar bækur eftir Þórarinn Leifsson; Helga Birgisdóttir leiðir okkur inn í heim raunsæju ungmennabókanna og fjallar um aðdráttarafl unglingabóka fyrir fullorðna; Sólveig Ásta Sigurðardóttir veltir fyrir sér hvernig fari fyrir hinni uppreisnagjörnu Önnu í Grænuhlíð þegar hún eldist og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir skoðar rúmlega fjörutíu ára sögu íslensku unglingabókarinnar í smásjá. Venju samkvæmt rýnum við líka í ýmsar nýlegar bækur og skellum okkur í leikhús. Auk þess fjalla þrír valinkunnir rithöfundar um unglingabækur frá eigin sjónarhorni. Stefán Máni segir okkur sína skoðun á bókmenntum fyrir unglinga umbúðalaust og þær Hildur Knútsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir spjalla saman um allt frá aldursskiptingu til áhrifavalda um leið og þær benda á að unglingabækur skapi lesendur framtíðar. Ég tek heils hugar undir með Hildi og Bryndísi. Unglingsárin eru óskaplega stutt tímabil svona hlutfallslega séð og stundum kann það að virðast galið að skrifa og gefa út bækur sem hafa kannski ekki nema tveggja mínútna tækifæri til að hitta í mark hjá hverjum og einum lesanda. En ef við tryggjum að þeir sem vaxnir eru upp úr Finni og Dísu, Fíu Sól og fótboltasögum, hafi eitthvað við sitt hæfi að lesa þá tryggjum við um leið að þeir muni þegar fram líða stundir rölta yfir að bókaskáp mömmu og pabba og átta sig á að þar má, eftir allt saman, finna alls konar spennandi heima að gleyma sér í. Guðrún Lára Pétursdóttir

x

Börn og menning

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.