Börn og menning - 2015, Blaðsíða 33

Börn og menning - 2015, Blaðsíða 33
33Mér finnst ... Það er búið að tala mikið um læsi undanfarið, að börn geti ekki lesið sér til gagns, að unglingar lesi ekki neitt eða bara á ensku og svo framvegis. Ég ætla ekki að tjá mig um lestrarkennsluaðferðir, ég veit ekki nóg um málið til að hafa skoðun á því. En ef börn geta ekki lengur lesið sér til gagns er það alvarlegt mál. Það er mikið talað um hreyfingu og mataræði, heilbrigða sál í hraustum líkama og það allt en ef heilinn fær hvorki örvun né næringu, andlega og líkamlega, þroskumst við ekki og verðum sljó, heimsk og hugmyndasnauð. Líkaminn er bíllinn okkar, flugvélin … geimskipið. En það er heilinn sem stýrir þessu farartæki og ef hann er vannærður og óþroskaður förum við ekki langt því við höfum ekki hugmyndaflug til að fara eitt né neitt. Ég er að tala um andleg ferðalög, nota bene. Um víðáttur hugans. Við förum ekki til Afríku eða ljúkum háskólanámi ef okkur dettur það ekki einu sinni í hug. En ég var víst að tala um barnalegar unglingabækur, afsakið! Það er stundum kvartað yfir því að unglingar lesi ekki. Það er ekki þeim að kenna – það er höfundunum að kenna. (Og foreldrunum ef þeir eru ekki góðar lestrarfyrirmyndir – eru það ekki einmitt foreldrarnir, fullorðna fólkið, sem eru hættir að lesa og horfnir inn í sjónvarpið og/eða símann sinn?) Ef höfundar skrifa áhugaverðar og spennandi bækur er alltaf til fólk sem vill lesa þessar sömu bækur. Samanber seríur á borð við Harry Potter, Hringadróttinssögu og Hungurleikana, að ógleymdum metsölubókum eins og Eleanor og Park, Skrifað í stjörnurnar ; ALLT erlendar bækur! Ef unglingar eiga að hafa áhuga á að lesa bók verður hún að höfða til þeirra á einhvern hátt. Unglingar lesa ekki barnabækur. Þetta verða íslenskir höfundar, útgefendur og verðlaunanefndir að hafa í huga. Stundum verðlauna hinir fullorðnu bækur sem þeim finnst að unglingar ættu að lesa, í stað þess að hlusta eftir því hvað markhópnum sjálfum finnst. Vandamálið hér á Íslandi er að fullorðnir virðast ala með sér þá óskhyggju að unglingar séu börn fram eftir öllum aldri. Bækur ætlaðar þeim eru annað hvort alltof barnalegar eða of gamaldags og/eða fullorðinslegar – þá er eins og höfundurinn haldi að unglingur nútímans hafi áhuga á unglingsárum foreldrakynslóðarinnar, sem ég held að sé önnur óskhyggja. Það vilja allir lesa bækur sem vísa til þeirra eigin kynslóðar, reynslu- eða hugarheims; nú eða bara fantasíu sem er gjörólík öllu sem lesandinn þekkir. Það er nú ein bókmenntategund sem er ekki hátt skrifuð á Íslandi: Fantasían. Hún þykir ekki par fín, nema kannski hún sé skrifuð fyrir börn. Fantasíur fyrir unglinga og fullorðna þykja enn voða skrýtnar og ekki alvöru bókmenntir. Það er þetta með ALVÖRUNA, hið mjög svo leiðinlega bókmenntasnobb sem er gjörsamlega að drepa íslenskar bókmenntir (og kvikmyndir): Því óskiljanlegra og leiðinlegra sem verkið er, því merkilegra og „betra“ er það. Helst á bók að vera svo þung og flókin að nánast enginn komist í gegnum hana, svo kinka allir kolli og þykjast hafa lesið/skilið svo enginn haldi að þeir séu heimskir, að þeir fatti ekki stílgaldurinn. Ég er kannski að ýkja, ég veit það ekki. Stundum finnst mér þetta samt vera dálítið svona. Það sem er vinsælt þykir sjálfkrafa ekki nógu fínt en um leið og almenningur hættir að hafa áhuga á bókum, um leið og fjöldinn hættir að lesa, þá fara bókaútgáfurnar á hausinn og eftir það koma engar bækur út – punktur. Það er nefnilega hinn almenni lesandi sem heldur bókaútgáfunni uppi. Rithöfundur eins og William Saroyan, sá mikli meistari, skrifaðir einfaldan stíl, hann sagði sögur á tungumáli sem allir gátu lesið og skilið. Þannig er það alla jafna með virkilega góða höfunda; stíllinn er aðferð til að segja sögu, ekki reykur til að villa lesandanum sýn. Um hvað var ég að tala? Já, unglinga og bækur. Ég las mikið á ensku sem unglingur, enda hafði ég ekkert val. Enginn íslenskur höfundur jafnaðist á við Stephen King í þá daga. Það er ekkert að því að lesa á ensku eða dönsku eða frönsku. Það að lesa skiptir mestu máli. Ef íslenskir höfundar vilja að þið lesið á íslensku verða þeir einfaldlega að skrifa áhugaverðari bækur og útgefendur þurfa þá að bakka þá upp. Eða halda þeir kannski að unglingar séu bara bólugrafin börn sem hafa ekki áhuga á neinu nema fótbolta og tísku? Ég veit alla vega betur. Höfundur er rithöfundur mér finnst . . . „Mér finnst ...“ lýsir skoðunum höfunda fremur en ritstjórnar eða stjórnar IBBY samtakanna. Stefán Máni ... íslenskar unglingabækur vera of barnalegar

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.