Börn og menning - 2015, Síða 12

Börn og menning - 2015, Síða 12
Börn og menning12 Fyrirsögn greinar Höfundur Undirfyrirsögn Af hverju les fullorðið fólk unglingabækur? Unglingabækur (e. young adult literature, YA-lit) virðast höfða hvort sem er til barna, unglinga og fullorðinna. Því hefur verið haldið fram að meira en helmingur lesenda þeirra sé fullorðið fólk á aldrinum 30–44 ára og útgáfufyrirtækið Scholastic hefur staðið fyrir útgáfuherferð sem kallaðist “I Read YA” campaign þar sem allir á öllum aldri, óháð stétt, stöðu og kyni, voru hvattir til að lesa ungmennabækur. Rithöfundurinn Hildur Knútsdóttir velti því fyrir sér á Fésbók hvers vegna fullorðið fólk les svona mikið af unglingabókum, ef til vill á kostnað fullorðinsbóka, og segir: „Ég myndi giska á að sirka 60% af þeim bókum sem ég les mér til skemmtunar séu barna- og unglingabækur. Og ég er reyndar með kenningu um hversvegna YA-bækur höfða svona vel til fullorðinna: Þar er oft fjallað um flókin og erfið „alvöru“ málefni án mikilla málalenginga svo það er lítið um óþarfa lýsingar og orðflúr.“ Ef til vill er þetta rétt og ungmennabókin er skáldsaga hins upptekna nútímamanns. Sé leitað að myllumerkinu #whyadultsredYA á netinu koma upp ýmis áhugaverð svör: „Vegna þess að þótt maður sé þrítugur vill maður samt giftusamlegan endi og YA-bækur færa manni það.“ „Ég elska ákefðina í sögunum og þá tilfinningu að vera stödd við upphaf þess sem þú seinna verður.“ „Ég elska það að reyna allt í fyrsta skipti, tilraunirnar og þroskann sem stöðvast eða minnkar þegar við eldumst.“ „Í fullorðinsbókum ER þetta bara svona, í YA-bókum eru alltaf möguleikar“. „Af því ég veit enn og man hvernig mér leið sem unglingi – þótt ég sé það ekki lengur.“ Ekki eru allir ánægðir með unglingabókalestur fullorðinna. Þeirra á meðal er Ruth Graham, höfundur greinarinnar „Gegn unglingabókinni: Lestu það sem þú vilt en þú ættir að skammast þín þegar þú lest það sem skrifað er fyrir börn“. Unglingabækur eru að hennar mati ekki boðlegar fullorðnu fólki. Hún kveðst ekki nenna að eyða orðum í „augljóst rusl“ á borð Afbrigðabækurnar eða Ljósaskiptabækurnar og beinir sjónum sínum að bókum á borð við Skrifað í stjörnurnar og Eleanor og Park og segir: „Þetta eru bækur sem eru sagðar mögulega geta komið í stað skáldskapar meðal fullorðinna. Og það er synd og skömm.” Fullorðið fólk eigi að vaxa upp úr lestri svona bóka en að sögn Graham eru skáldsögur fyrir fullorðna einfaldlega betri en unglingabækur, þær eru flóknari, betur skrifaðar og krefjast meira af lesandanum. Þegar fullorðið fólk lesi ungmennabækur þurfi það að auki að láta sem það hafi ekki þá reynslu og innsæi sem það hefur aflað sér í áranna rás; þ.e. að láta eins og það sé vitlausara en það raunverulega er. Unglingabækur bjóði upp á ákveðna fantasíu fyrir fullorðna: Raunveruleikaflótta, skyndiunað (e. instant gratification) og nostalgíu. Og það þykir Graham ekki nógu gott, sérstaklega ekki ef fullorðið fólk les unglingabækur í staðinn fyrir fullorðinsbækur. Það lýsir þó óneitanlega vissri fáfræði og fordómum að halda því fram að unglingabækur séu verr skrifaðar, hugsaðar og fléttaðar en bækur fyrir fullorðna. Ekki þarf fullorðið fólk að skammast sín fyrir að lesa unglingabækur og hvað þá að gefa upp á bátinn þá visku eða reynslu sem það hefur aflað sér í áranna rás en ætli hinir fullorðinu lesi unglingabækur ekki öðruvísi en sjálfir unglingarnir. Og það er í góðu lagi. Fantasía unglinganna snýst ef til vill um drauma um spennandi ævintýri og yfirgengilega ást. Fantasía fullorðna lesandans snýst ef til vill um að flýja – um stundarsakir – til baka í unglingaheim en vera svo himinlifandi og guðs lifandi feginn þegar hann lokar bókinni og fær að vera fullorðinn aftur.

x

Börn og menning

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.