Börn og menning - 2015, Blaðsíða 19

Börn og menning - 2015, Blaðsíða 19
19Svipmyndir úr íslenskum unglingabókum, 1977–2007 þá syngja baráttusöngva um hvernig verkafólkið í landinu væri kúgað og arðrænt. Þau ætluðu að stofna samtök með krökkunum en skólastjórinn greip í taumana eftir að nokkrir foreldrar höfðu talað við hann. Þess vegna varð ekkert úr því. [...] En Tínu líkaði illa þegar Kolla nefndi ákveðna stjórnmálamenn og gerði grín að þeim eða blótaði þeim fyrir framan bekkinn. Hvernig talaði hún um föður hennar þegar hún heyrði ekki til? Henni fannst hún stundum miskunnarlaus og grimm – eins og hún væri bitur út í lífið og aðrir ættu sök á því. Hún var líka einstrengingsleg þegar hún valdi bækur til lestrar. Flestar þeirra voru eftir höfunda sem kenndu sig við kommúnisma og vildu að alþýðan tæki völdin í sínar hendur. Kristin trú var skotspónn þeirra sumra. (74–75) Líkt og Ilmur glíma Pétur og vinir hans við vaxtarverki unglingsáranna, foreldra sem drekka of mikið, fjölskyldur sem eiga í fjárhagserfiðleikum, vini sem skyndilega fara að skipta okkur miklu meira máli en áður. En ólíkt Ilmi, þá tekst Pétri að greiða úr sínum flækjum. Á meðan Ilmur var í uppreisn gegn samfélagi sínu og fjölskyldu, þá leggur Pétur mikla áherslu á að hjálpa fjölskyldu sinni og vinum eins mikið og hann getur. Undir lok bókarinnar dregur Pétur úr vasa sínum ljósmynd af Þóreyju, nýju kærustunni, og blístrar glaður í skapi. 1997 – Galdrastafir og græn augu Árið 1997 kom út bók sem olli mikilli skelfingu meðal foreldra og spennu meðal unglinga, Falskur fugl eftir Mikael Torfason. Í bókinni birtist ný sýn á unglingamenningu: menningin var stjórnlaus, hömlulaus, glæpsamleg og afbrigðileg. Sama ár kom út Galdrastafir og græn augu eftir Önnu Heiðu Pálsdóttur sem átti þó eftir að marka dýpri spor í sögu unglingabókmennta, en sú bók var fyrirrennari furðusagnabylgjunnar sem reið yfir Ísland og heimsbyggðina alla á 21. öldinni. Galdrastafir og græn augu segir frá Sveini, fjórtán ára strák úr Kópavoginum, sem fer í bíltúr með fjölskyldu sinni suður á Selvog. Þar snertir hann stein sem á er ristur galdrastafur og er hrifinn aftur til fortíðarinnar, til ársins 1713 þegar séra Eiríkur í Vogsósum, illræmdur galdramaður í þjóðsögum landans, þjónaði sem prestur í Strandakirkju á Selvogi. Í bókinni fer lítið fyrir vaxtarverkjunum sem einkenndu unglingabækur 9. og 10. áratugarins. Sveinn er ekki í uppreisn gegn fjölskyldu og vinum. Þvert á móti saknar hann þeirra afskaplega mikið og gerir allt sem hann getur til að komast aftur heim til þeirra. Sagan er ekki þroskasaga hetjunnar og undir lok bókarinnar er Sveinn jafn grunnhygginn og skeytingarlaus um tilfinningar annarra og við upphaf hennar. Galdrastafir og græn augu er afar fyndin á köflum, en Anna Heiða leikur sér með samskiptaörðugleika 20. aldar unglingsins við jafnaldra sína á 18. öldinni. Það er þó ekki söguhetjan sem leikur aðalhlutverkið í skáldsögunni, heldur galdurinn og fjölkynngin, furðuheimurinn sem hefur hrifið söguhetjuna. Þessi einkennilega stund markaði upphafið að furðulegri atburðarás. Nákvæmlega á þessari stundu breyttist allt. Skömmu áður var logn, en nú færðist vindurinn smám saman í aukana. Ég opnaði augun aftur og leit upp í himininn. Skýin virtust miklu stærri og grárri og sigldu leifturhratt yfir himinhvolfið. Samtímis dimmdi yfir öllu. Ég þorði varla að horfa lengur á ógnvænleg skýin og leit niður á jörðina. Vindurinn varð þess valdandi að örsmá korn og lítil laufblöð þyrluðust upp og fóru að dansa í hringi allt í kringum mig. Skyndilega var eins og jörðinni væri kippt undan mér og ég hékk í lausu lofti. Eitthvað togaði mig upp á við með miklum krafti og ég sogaðist inn í hringiðu. Mér til mikillar skelfingar fann ég hvernig ég snérist hratt í hringi innan í hvirfilvindi sem feykti mér lengra og lengra upp í loftið. Ég hringsnérist á ofsahraða innan í hvirflinum. Umhverfis mig var kolniðamyrkur. Svo mikill kraftur var í vindinum að það þýddi ekkert fyrir mig að streitast á móti. Ég átti fullt í fangi með það eitt að reyna að ná andanum. (18) Galdrastafir og græn augu er fyrsta skáldsaga höfundar og sú næsta, verðlaunabókin Mitt eigið Harmagedón, kom ekki út fyrr en 2012. Eftir útgáfu fyrstu bókarinnar kastaði Anna Heiða sér inn í heim bókmenntaunnandans, inn í heim aðdáenda. Árið 1999 stofnaði hún Harry Potter-vefinn (www.ritlist.is/harry) og hélt honum við til ársins 2004. Á síðunni voru birtar upplýsingar um bækurnar sem sögðu frá ævintýrum galdrastráksins Harry Potter, nýjustu fréttir af höfundinum Joanne Rowling, vangaveltur um kvikmyndirnar sem gerðar voru eftir bókunum, og innslög frá aðdáendum. Það sem gerði vefinn einstakan í íslenskri bókmenntasögu var einmitt þetta rými sem Anna Heiða gaf aðdáendum til að tjá sig. Á vefnum gátu þeir spjallað saman og skipst á spunasögum sem gerðust í heimi Harry Potter og teikningum af söguhetjunum. Þessi aðdáendamenning átti eftir að ryðja sér rúms á 21. öldinni, menning sem oftar en ekki hverfist í kringum furðusögur, bækur og kvikmyndir sem segja frá yfirnáttúrulegum atburðum. Galdrastafir og græn augu var

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.