Börn og menning - 2015, Side 20

Börn og menning - 2015, Side 20
Börn og menning20 með fyrstu unglingabókum á Íslandi sem léku sér með furðusagnaformið. 2007 – Ef þú bara vissir… Ef það er eitthvað eitt orð sem hægt er að beita til að lýsa Ef þú bara vissir… eftir Mörtu Maríu Jónasdóttur og Þóru Sigurðardóttir sem kom út árið 2007, þá er það orðið „tvöþúsundogsjö“. Þessi bók er afskaplega tvöþúsundogsjö. Í bókinni segir frá Klöru Thoroddsen og samskiptum hennar við bestu vinkonurnar, Rebekku og Rut, og við foreldra sem leika sér á fjármálamörkuðum, kaupa allan húsbúnað í glænýjum hönnunar- og lífsstílsbúðum, og borða ekki hvítt hveiti heldur bara spelt. Ef þú bara vissir… sver sig í ætt við skvísubókmenntirnar sem spruttu upp á 10. áratug síðustu aldar. Kápa bókarinnar er skærbleik og sagan gerist í heimi kvenna, segir frá samskiptum vinkvenna, ástarævintýrum og tilfinningaflækjum. Og hún sver sig líka í ætt við skvísubókmenntirnar að því leyti að léttleikinn er í fyrirrúmi, ástarsorg varir aldrei lengi og tilfinningaflækjur eru auðleystar. Klara, aðalsöguhetja bókarinnar, kemst óvænt að fjölskylduleyndarmálinu við upphaf sögunnar: blóðfaðir hennar er ekki pabbi, heldur gamall kærasti mömmu, glæsimenni sem mikið hefur borið á í samfélaginu, samkynhneigð sjónvarpsstjarna sem nú rekur lífsstílsbúð. Ef Ilmur og Pétur, aðalsöguhetjurnar sem við kynntumst fyrr í þessari grein, hefðu þurft að glíma við þvílíka uppljóstrun, hefðu sögur þeirra snúist um leyndarmálið og afleiðingar afhjúpunarinnar. En í heimi Klöru Thoroddsen virðist þetta leyndarmál skipta litlu máli. Hún trúir vinkonum sínum fyrir leyndarmálinu, heimsækir búðina sem blóðfaðir hennar rekur til þess að berja hann augum og veltir fyrir sér hvort hún eigi að þora að segja foreldrum sínum að hún viti rétt faðerni sitt. En þessar vangaveltur hverfa þó oftar en ekki í skuggann af enn erfiðari pælingum: áhyggjum Klöru af sambandi sínu við strákinn sem hún er skotin í. Þegar hún ræðir loks við foreldra sína í lok bókarinnar, leysist allt einhvern veginn afskaplega farsællega. Enginn er reiður, enginn er sár, allir eru afskaplega skilningsríkir. Í lokaorðum skáldsögunnar lítur Klara bjart fram á veginn. – Líttu síðan á björtu hliðarnar, sagði hann og hún heyrði að hann var brosandi. – Þú færð allavega fleiri pakka á jólunum. Klara fór að hlæja og sá að hann hafði rétt fyrir sér. Hún varð að líta á björtu hliðarnar og það var aldrei að vita nema að hann væri bara ágætis kall og það kæmi ekkert nema gott út úr þessu öllu saman. Hún ákvað því að hætta að kvíða fyrir símtalinu og hlakka frekar til. Hvernig sem allt færi átti hún frábæra fjölskyldu fyrir, æðislegar vinkonur og fullkominn kærasta. Lífið gat því ekki orðið mikið betra en hvað framtíðin bæri í skauti sér yrði tíminn að leiða í ljós – það var víst nægur tími til að hafa áhyggjur af því seinna. (241–242) Eins og ég sagði áður – þessi bók er afskaplega tvöþúsundogsjö. Bjartsýni, áhyggjuleysi og grandaleysi einkenna hana. Þetta er bók sem er rituð fyrir syndafallið, fyrir hrunið, þegar allt var mögulegt og allir voru vinir. 2017 – ? Ljóst er að sárlega skortir umfjöllun um og rannsóknir á íslenskum unglinga- bókmenntum. Þó eru teikn á lofti um að bókmenntafræðingar og almenningur séu farnir að taka barna- og unglingabókmenningu alvarlega. Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi hafa veitt barna- og unglingabókum verðlaun allt frá stofnun þeirra 2007. Árið 2013 voru fyrst veitt Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og sama ár voru Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrst veitt í flokki barna- og unglingabóka. Unglingabækur njóta sífellt meiri vinsælda og lesendahópur þeirra hefur stækkað. Það eru ekki aðeins unglingar sem lesa unglingabækur í dag, heldur fullorðnir líka. Í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda árið 2014 var í fyrsta skipti boðið upp á nýjan flokk bókmenntanna, ungmennabækur, bækur sem höfða til þessa nýja lesendahóps. Framtíð unglingabókmenntanna er því björt. Höfundur er bókmenntafræðingur Heimildir Anna Heiða Pálsdóttir. Galdrastafir og græn augu: unglingasaga. Reykjavík: Mál og menning, 1997. Eðvarð Ingólfsson. Pottþéttur vinur: skáldsaga. Reykjavík: Æskan, 1987. Marta María Jónasdóttir og Þóra Sigurðardóttir. Ef þú bara vissir… Reykjavík: Salka, 2007. Olga Guðrún Árnadóttir. Búrið: saga handa únglíngum og öðru fólki. Reykjavík: Mál og menning, 1977.

x

Börn og menning

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.