Börn og menning - 2015, Qupperneq 22

Börn og menning - 2015, Qupperneq 22
Börn og menning22 reynslu annarra. En ef við látum sem svo að aldurshóparnir séu það ólíkir að þeir skipti höfuðmáli – þá kemur líka upp þetta eilífa vandamál, hvort fullorðin manneskja geti þá yfir höfðuð höfðað til unglinga í gegnum húmor og út frá sinni eigin reynslu? Hildur: Já, en fullorðnir geta einmitt alveg tekið þátt í barnahúmor. Ég segi þriggja ára dóttur minni oft kúkabrandara og henni finnst þeir ógeðslega fyndnir. Bryndís: Einhvers staðar las ég að lestur bóka auki samkennd á meðal fólks. Þjálfi upp getuna til að setja sig í spor annarra. Í þeim sporum förum við auðvitað að segja þriggja ára krökkum kúkabrandara – en ekki brandara um sjúkdóma, slys eða kynlíf. Varðandi unglingana þá eru höfundar unglingabóka mikið að velta fyrir sér kynþroskanum og að dramatísera áhyggjur sem eru gjarnan tengdar honum, oft til að geta hlegið að þeim líka: ástarvandræði, útlitsvandræði, vinavandræði og svo framvegis. En flestum unglingum finnst örugglega gaman að sjá að fjallað sé um eitthvað sem þeim liggur á hjarta. Og það er ábyggilega ekki verra að það sé fjallað um það á áhugaverðan hátt og jafnvel skondinn, því það veldur spennulosun og sýnir að aðrir hafa gengið í gegnum svipaða hluti. Lesandinn uppgötvar að hann er ekki einn um að upplifa eitthvað sem er samt svo einmanalegt að upplifa. Hildur: En svo þurfa bækur um unglinga, eða bækur með unglinga í aðalhlutverki, sem er kannski ein af kríteríunum fyrir unglingabækur, ekkert endilega að vera fókuseraðar á það að vera unglingur. Unglingar geta auðvitað lent í hlutum sem eru ekki endilega einkennandi fyrir aldur þeirra. Þeir geta lent í stríði, kreppu, góðæri og allskonar. En auðvitað er þetta spurning um sjónarhorn. Og það sem þeir sem skrifa fyrir unglinga búa að er náttúrulega að hafa verið unglingar sjálfir – og svo eru það oft börn sem lesa unglingabækur, sem er kannski ástæðan fyrir bókmenntagreininni , sem er tiltölulega ný bandarísk uppfinning. Þess vegna þarf kannski öðruvísi bækur þær myndu ekki endilega ná til fullorðinna lesenda ef þær kæmu út núna. Alla vega ekki karlkyns lesenda, konur lesa sumar barna- og unglingabækur, en fáir karlar gera það. Bryndís: Einu rökin sem ég hef heyrt fyrir þessum flokkunum eru þau að þetta auðveldi að ömmum og öfum að kaupa jólapakka. Það er auðvitað allt í lagi að leiðbeina þeim sem óska þess í búðum – en mér finnst ekki að þessi flokkun eigi að lita bókmenntaumræðuna eins sterklega og hún gerir. Afleiðingarnar eru til dæmis þær að nú fyrir síðustu jól var ekki ein einasta barna- eða unglingabók tekin til skoðunar í Kiljunni. Það er allt annað að flokka bækur á söluborðunum í Hagkaupum en að flokka þær á sama hátt á borðum bókmenntafræðinga eða bókagagnrýnenda á fjölmiðlum. Erum við í alvörunni að láta söluborðin stjórna umræðunni? Er ritlistin ekki merkilegri en svo? Mér liggur við að líkja þessu við það þegar Jesús kom í musteri föður síns og velti söluborðunum um koll um leið og hann sagði að bænahúsinu hafi verið breytt í ræningjabæli. Alvöru listamaður eða bókmenntaunnandi hlýtur að hafa fyrst og fremst áhuga á samhengi sagna á milli, samtali þeirra við önnur verk, lesendur og samfélag. Hafnfirðingabrandarinn er til að mynda innblásin af fullorðinsbókmenntum, til dæmis er þar að finna margar tilvísanir í Sláturhús fimm, Biblíuna, Dagbækur Berts og popp-kúltúr tíunda áratugarins. Maður myndi halda að þær tengingar væru áhugaverðari fyrir bókmenntaumræðuna en hvar bókin sé staðsett á söluborðum í búðum. Þegar bókmenntaumræðan lítur fram hjá barna- og unglingabókum er verið að segja að þessar bækur séu verri pappír – en á sama tíma segjum við að þetta séu mikilvægustu verkin því þau skapa lesendur framtíðarinnar. Hildur: Ég var heldur ekki mikið að pæla í fyrir hverja nýja bókin mín, Vetrarfrí, var þegar ég skrifaði hana. Það var ekki fyrr en ég var búin með fyrsta uppkastið að henni sem mér var bent á að hún væri fyrir unglinga – young adult – sem ég held að séu þýddar sem ungmennabækur á íslensku. Ég hef reyndar lesið lærðar greinar um að það séu svo aðallega konur á þrítugs- og fertugsaldri sem lesa þessar ungmennabækur, sem sýnir okkur kannski hvað þessi aldursskipting getur verið yfirborðskennd. Og ætli ég falli ekki sjálf í þennan hóp, ég er kona á fertugsaldri og ef ég ætti að giska þá myndi ég segja að kannski svona um það bil 67% bóka sem ég lesi myndu flokkast sem ungmennabækur. Þær eru líka margar alveg frábærar, þétt plott og áhugaverðar hugmyndir, en engar óþarfa málalengingar og ekkert verið að eyða púðri í langar lýsingar eða einhver orðasalöt. Þær eru svona berstrípaðar fullorðinsbókmenntir. Og sumar eru mjög heví og erfiðar, og það hefur oft komið fyrir að ég hef lesið mjög ógeðslegar bækur um erfið málefni og verið alveg steinhissa á því að einhverjum detti í hug að markaðssetja þær fyrir börn. Chaos Walking-trílógían er kannski besta dæmið um þetta. Þetta eru alveg frábærar bækur sem hafa fengið virt barnabókaverðlaun, en ég var á algjörum bömmer á meðan ég las þær, því þær eru svo erfiðar og niðurdrepandi, enda fjalla þær m.a. um stríð, grimmd, útskúfun, afmennskun og útrýmingu. En segðu mér, Bryndís, skrifaðirðu Hafnfirðingabrandarann með unglinga í huga? Bryndís: Ekkert endilega – en með unglingsárin í huga. En vegna þess að hún fjallar um unglinga er hún flokkuð sem unglingabók eða ungmennabók. Mér finnst það alls ekki sjálfsagt, að bækur sem fjalla um unglinga þurfi endilega að vera aðeins fyrir unglinga – það er í raun mjög útilokandi hugsun. Í sögunni er frekar verið að taka til skoðunar ákveðið ástand en einhvern einn hóp – enda hljóta unglingar að upplifa unglingsárin á heldur misjafnan hátt. Hildur: Það er einmitt fullt af klassískum bókum sem myndu vera flokkaðar sem unglingabækur eða ungmennabækur núna. Til dæmis To Kill a Mockingbird og Bjargvætturinn í grasinu. Ég held að

x

Börn og menning

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.