Börn og menning - 2015, Qupperneq 29

Börn og menning - 2015, Qupperneq 29
29Stúlkan sem opnaði öskjuna leið í klefann í lok dags. Sama gildir um bekkjarsystkini Melanie, sem búa hvert í sínum klefa á sama gangi. Melanie finnst gaman í skólanum, sérstaklega þegar hún í tímum hjá fröken Justineau. Svona hefur tilveran verið síðan Melanie man eftir sér; hún þekkir ekki annað og skilur ekkert í því að hermennirnir virðast óttast hana og hata. En brátt dregur til tíðinda og Melanie kynnist ýmsum misfögrum hliðum á veröldinni utan veggjanna. Mörk hins mögulega Við könnumst flest við bókmenntir, kvikmyndir eða sjónvarpsþætti þar sem samfélagi manna stafar ógn af „zombíum“ eða uppvakningum sem eru sólgnir í heila og innyfli manna og geta smitað þá með biti sínu. Í Stúlkunni með náðargjafirnar hefur höfundur kosið að sniðganga z-orðið og kallar hin lifandi dauðu „ætur“, sem fyrr segir. Þetta skapar ákveðna fjarlægð frá hefðbundnum zombí-bókmenntum, enda er Stúlkan með náðargjafirnar ekki allskostar dæmigerð fyrir greinina. Ætti undirrituð að flokka bókina til tiltekinnar bókmenntagreinar kynni spáskáldskapur (e. speculative fiction) að verða fyrir valinu, en sú skilgreining hefur verið eignuð bandaríska rithöfundinum Robert Heinlein. Hin kanadíska Margaret Atwood hefur tekið hugtakið upp á sína arma og notað það yfir sumar af skáldsögum sínum, sem henni finnst ekki geta kallast vísindaskáldsögur þó svo að þær segi frá ýmsum furðum framtíðarinnar. Að mati Atwood (sjá m.a. esseyjusafnið In Other Worlds: SF and the Human Imagination, 2011) fjallar vísindaskáldskapur um geimverur, tímaflakk, skrímsli eða annað sem ekki er talið sannanlega mögulegt að geti átt sér stað, en spáskáldskapur segir hins vegar frá atburðum sem eru mögulegir – þó að þeir hafi kannski ekki enn átt sér stað. Það er svo skilgreiningaratriði hverju sinni hvað fólk telur „mögulegt“ og á hvaða forsendum. Hamfarir og framfarir Líkt og viðbúið er þegar bækur slá eins rækilega í gegn og Stúlkan með náðargjafirnar þurfa lesendur ekki að bíða lengi eftir kvikmyndaaðlögun bókarinnar, en hún er væntanleg á næsta ári. Myndin verður að vísu ekki alveg samnefnd bókinni heldur mun hún heita She Who Brings Gifts. Líkt og í titli bókarinnar er um að ræða vísun í goðsöguna af Pandóru en samkvæmt henni var Pandóra fyrsta kona jarðarinnar, sem hlaut allar gáfur guðanna í vöggugjöf, og nafn hennar merkir jafnframt „allar gjafir“. Í viðtali við höfundinn á vefnum The Bookseller kemur fram að kvikmyndin sé ekki byggð á bókinni, heldur hafi bókin og kvikmyndahandritið verið skrifuð samhliða. Þess sér að einhverju leyti stað í textanum; atburðarásin er spennandi, hröð og myndræn. Jafnframt er sagan einlæg, jafnvel falleg á köflum, þrátt fyrir þá örvæntingu og grimmd sem kringumstæður kalla fram í persónunum, en þungamiðja frásagnarinnar er samband Melanie við samferðafólk sitt. Viðleitni mannfólksins til að ná stjórn á aðstæðum og beisla framrás náttúrunnar með þekkingu og vísindahyggju verður átakanleg í tilgangsleysi sínu. Í sumum dystópíum og spáskáldsögum hafa mennirnir sjálfir gert út um möguleika sína á afkomu með ósjálfbærum lifnaðarháttum en hér er frekar um duttlungafullan gang náttúrunnar að ræða, jafnvel nokkurs konar náttúruval á hraðferð: þegar allt kemur til alls er engan veginn gefið að mannfólkið sé öllum öðrum verum hæfara til að lifa af. Að vissu leyti má segja að þessi framsetning storki rótgrónum hugmyndum um stöðugar línulegar framfarir – oft í nafni vísindanna – sem einhvers konar lögmál mannlegrar tilveru. Þó að breytingar séu óhjákvæmilegar í náttúrunni þurfa þær síst að vera af því tagi sem við teljum til framfara. Í Stúlkunni með náðargjafirnar stendur vísindafólkið fyrir kaldlyndi og grimmd og aðferðir þess, tæki og tól mega sín á endanum lítils. Mennskan og vonin Persónusköpun í sögunni er nokkuð sterk og persónur eru heillegar og mannlegar. Zombí-minninu í bókmenntum fylgja ýktar aðstæður með sjálfsbjargarhvötina í yfirgír og því er það hentug umgjörð til að varpa ljósi á persónulega þróun fólks. Sjaldgæfara er að zombíin sjálf hafi persónuleika eða atbeina, umfram það sem búast mætti við af villidýrum eða skrímslum, en eitt af því frumlega við Stúlkuna með náðargjafirnar er einmitt sú óhefðbundna sýn sem veitt er á æturnar. Mennskan – það sem gerir okkur að mönnum – verður til í samspili fjölmargra þátta og kannski er það aðeins rökrétt að ekki slokkni á þeim öllum í einu, svo lengi sem lífsneisti bærist enn með viðkomandi.

x

Börn og menning

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.