Börn og menning - 2015, Blaðsíða 30

Börn og menning - 2015, Blaðsíða 30
Börn og menning30 Tvær af sterkustu persónunum eru Melanie og fröken Justineau. Sú síðarnefnda er einnig kærkomin fyrir þær sakir að vera hörundsdökk persóna í aðalhlutverki án þess að kynþættir séu nokkurn tíma gerðir að umtalsefni í sögunni, engu líkara en að skipting mannfólks í þá sé ekki lengur til. Það eina sem kemur upp um húðlit fröken Justineau er tilbeiðslukennd aðdáun Melanie, sem finnst kennslukonan það fallegasta sem hún hefur séð: Að vísu ber alltaf mikið á andliti fröken Justineau, því það er svo dásamlegt á litinn. Það er dökkbrúnt eins og viðurinn í trjánum á regnskógamynd Melanie, þessum sem fjölga sér með fræjum sem spíra hvergi nema í öskunni af skógareldum, eða eins og kaffið sem fröken Justineau hellir í bolla úr hitakönnunni sinni í frímínútum. Húðin er bara dekkri og fagurlitari en þetta tvennt, með fjölmörgum öðrum litbrigðum, og þess vegna er eiginlega ekki hægt að líkja henni við neitt. Það er bara hægt að segja að hún sé jafn dökk og húðin á Melanie er ljós. (16) Goðsögunni af Pandóru, sem er að ýmsu leyti hliðstæð sögu Biblíunnar af Evu, lýkur á því að Pandóra opnar öskju sem Seifur hefur gefið henni með því skilyrði að hún opni hana alls ekki. Úr öskjunni streyma allar plágur og sorgir heimsins, en eitt verður eftir á botninum: vonin. Í Stúlkunni með náðargjafirnar sleppir Melanie lausum öflum sem flestir hefðu ráðið henni frá að koma nálægt, en einnig þar situr einhvers konar von eftir í lokin þó að heimurinn verði aldrei samur. Stúlkan með náðargjafirnar er spennandi, hröð og vægðarlaus saga sem geymir jafnframt ýmsar vangaveltur um mannlega tilveru, siðferði og siðmenningu og Melanie er mögnuð og óvenjuleg persóna sem lesandinn gleymir varla í bráð. Það er sannur fengur fyrir aðdáendur hvers kyns fantasíu- og framtíðarsagna að fá bækur eins og þessa þýddar á íslensku. Höfundur er þýðandi

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.