Rit Mógilsár - 01.03.2004, Side 5
5
3 INNGANGUR
Tuttugasta öld hefur verið tími hraðra breytinga í íslensku samfélagi.
Segja má að þjóðfélagið hafi tekið stökk inn í nútímann í kjölfar seinni
heimstyrjaldarinnar þegar iðn- og vélvæðing hér á landi hófst fyrir
alvöru. Síðustu áratugi 20. aldar og fyrstu ár þeirrar 21. er margt sem
bendir til þess að ný þjóðfélagsgerð sé að renna upp, sem hefur aðrar
áherslur í för með sér en áður. Lykilatriði í efnahagslífinu í dag eru
tækni, miðlun upplýsinga og nýsköpun. Sífellt hærra hlutfall fólks vinnur
við þjónustugreinar en vægi frumvinnslugreina fer minnkandi (Hagstofa
Íslands, 2002). Hér er ætlunin að fjalla um samfélagslegar breytingar
sem þessu fylgja í byggðarlögum sem byggja á frumvinnslu og
bjargráð sem íbúar þeirra hafa beitt.
Ritgerðin byggir á vettvangsrannsókn í tiltekinni sveit á Íslandi,
þ.e. Fljótsdal. Hún fjallar um breytingar sem fólk þar hefur upplifað og
þau bjargráð sem það hefur beitt til að takast á við þær. Í Fljótsdal
hefur verið stundaður hefðbundinn landbúnaðar og er aðalatvinna íbúa
þar sauðfjárrækt. Hefðbundinn landbúnaður á Íslandi hefur síðan á
áttunda áratug 20. aldar gengið í gegnum ýmiskonar þrengingar.
Sauðfjárbændur hafa staðið frammi fyrir aukinni samkeppni á
matvörumarkaði og breyttum neysluvenjum sem hafa haft í för með sér
minnkandi markað fyrir kindakjöt. Sauðfjárrækt hefur átt í vök að
verjast og sauðfjárafurðir hafa ekki náð að halda markaðsshlutdeild
sinni. Þrátt fyrir minni neyslu kindakjöts hefur framleiðendum ekki
fækkað að sama skapi, sem hefur þýtt tekjusamdrátt hjá
sauðfjárræktarfólki. Það hefur því þurft að taka til við ólík bjargráð til að
geta haldið áfram búskap og þeirri búsetu sem það hefur valið sér.
Ritgerðin grundvallast á þremur rannsóknarspurningum. Þær
eru: Hvaða breytingar hafa orðið í umhverfi sauðfjárræktarfólks? Hvers
konar bjargráð hefur það tekið til við? Hvernig mótar fólk bjargráð sín?
Eftirfarandi umfjöllun er því þríþætt og vísar til breytinga, bjargráða og
síðast en ekki síst framkvæmdar bjargráða.
Að loknum inngangi verður fræðilegur rammi rannsóknarinnar
skýrður ásamt þeim rannsóknaraðferðum sem hún byggir á. Því næst
hefst umfjöllun um breytingar á umhverfi sauðfjárræktar og bjargráð
fólks í Fljótsdal. Breytingar á reglukerfi og ytra umhverfi sauðfjárræktar
á landinu eru raktar og jafnframt er fjallað um tengsl hefðbundins
landbúnaðar við byggðastefnu stjórnvalda. Því næst er fjallað
sérstaklega um breytingar sem hafa orðið í Fljótsdal og margvísleg
bjargráð fólks á svæðinu. Til að varpa ljósi á hvernig fólk mótar
bjargráð er gerð grein fyrir Héraðsskógaverkefninu. Héraðsskógar hafa
sterka skírskotun til byggðastefnu og tengir ólíka aðila einu bjargráði á
svæðinu. Upphaf þess, þróun og áhrif á svæðinu eru rakin ásamt því