Rit Mógilsár - 01.03.2004, Síða 8
8
treysta á sig sjálf til að takast á við breytingar.
BJARGRÁÐ
Bjargráð (e. coping strategies)2 er hugtak sem nær til staðbundinna
aðferða fólks til að takast á við breyttar (samfélagslegar) aðstæður á
sjálfrýninn/meðvitaðan hátt (Bærenholdt og Aarsaether, 1998, 2001).
Sjálfsrýni vísar til þess að einstaklingar verða að íhuga stöðu sína og
samhengi aðgerða sinna hverju sinni. Fólk verður með öðrum orðum að
finna sér og aðgerðum sínum merkingarbært samhengi (Bærenholdt og
Aarsaether, 2001).
Bærenholdt og Aarsæther skilgreina bjargráð sem:
Pólitík hversdagslífsins; það er merkingarbær notkun á sögulegum
möguleikum… Hvernig fólk tekur upp aðferðir sem eru að þeirra mati
skynsamlegar (1998, bls. 30, skáletrun þeirra).
Hugtakið bjargráð vísar bæði til þess að takast á við eitthvað og til
meðvitaðra ráða fólks. Bjargráð draga fram einstaklinga sem gerendur í
sínu eigin lífi. Það er mikilvægt að undirstrika að bjargráð eru
margbreytileg og háð félagslegu og staðbundnu samhengi. Skýra má
mismunandi bjargráð útfrá þremur víddum, þ.e. nýsköpunarvídd, vídd
tengslaneta og sjálfsmyndarvídd (Bærenholdt og Aarsaether, 1998, 2001).
Nýsköpunarvídd vísar til breytinga í hagrænni formgerð
samfélagsins. Það felur m.a. í sér nýjar lausnir á staðbundnum
vandamálum sem geta verið andsvar við hnattrænum breytingum og
vaxandi áherslu á þekkingarsamfélagið. Fólk er þó ekki endilega að
berjast á móti breytingum heldur getur nýsköpun ekki síður vísað til
notkunar á nýjum möguleikum sem eru til komnir vegna breyttra
aðstæðna. Í þessu samhengi er mikilvægt að taka með í reikninginn að
nýsköpun er einnig menningarlegt og félagslegt fyrirbæri. Nýsköpun þarf
ekki endilega að snúast um sköpun fjármagns. Menningarviðburðir og
óformleg eða formleg félagsstörf geta verið nýsköpun.
Vídd tengslaneta vísar til félagslegra tengsla sem fela í sér traust
og þjóna sem grunnur að sameiginlegum aðgerðum fólks. Í gegnum
félagsleg tengslanet kemst á samband á milli mismunandi hópa, „veik
tengsl“ (sbr. Granovetter, 1973) verða til og í þessari vídd liggur forsenda
félagslegs auðs (sjá aftar). Tengslanet tengja fólk, náttúru og hluti saman
á pólitískan og merkingarbæran hátt. Það eru ávallt einhverjir gerendur í
netunum sem beita beinu eða óbeinu valdi til að móta og endurskapa
2 Í Íslenskri orðabók er bjargráð skýrt sem „ráð til bjargar“ eða „hollráð“. Einnig er talað um Bjargráðasjóð
sem varasjóð til að grípa til í vondum árum (Mörður Árnason, 2002). Sá skilningur sem lagður er í
hugtakið hér er svipaður. Hér er lögð áhersla á bjargráð í merkingunni aðferðir fólks til að takast á við
aðstæður sínar sem gerendur eða bjarga sér. Ég vil undirstrika að bjargráð í þessum skilningi geta verið
fyrirbyggjandi, þ.e. þau þurfa ekki að vera viðbrögð við erfiðleikum heldur allskyns aðferðir sem fólk nýtir
sér dagsdaglega.