Rit Mógilsár - 01.03.2004, Blaðsíða 14

Rit Mógilsár - 01.03.2004, Blaðsíða 14
14 öldinni þar sem innflutningshöft og miðstýrð verðlagning urðu áberandi þættir í umhverfi hefðbundins landbúnaðar. Með setningu laga um framleiðsluráð landbúnaðarins komst skipulag verðlagsmála á búvörum í fast horf. Framleiðsluráð var skipað fulltrúum bænda og afurðasölufyrirtækja. Verkefni þess voru m.a. að fylgjast með framleiðslu, sölu og vinnslu landbúnaðarvara, að stuðla að aukinni landbúnaðarframleiðslu og að auka framleiðni landbúnaðarins8. Meginforsenda verðlagningar framleiðsluráðs var að tryggja bændum svipaðar tekjur og aðrar stéttir höfðu auk þess að tryggja nægt framboð9 (Björn S. Stefánsson, 1986; Vigdís Jónsdóttir, 1992). Í lok ársins 1959 var tekið upp kerfi útflutningsbóta. Í stuttu máli gekk útflutningsbótakerfið út á það að landbúnaðarframleiðsla umfram þarfir landsmanna sjálfra var flutt úr landi og naut bóta sem máttu nema allt að 10% af heildarverðmæti landbúnaðarafurða. Á áttunda og níunda áratugnum reyndi mjög á þetta kerfi. Framleiðsla kindakjöts minnkaði ekki í takt við minni neyslu innanlands10. Á sama tíma var mikil verðbólga hér á landi og markaðsaðstæður erlendis breyttust. Þar með lækkaði verðið sem fékkst fyrir framleiðsluna erlendis, og undir lok níunda áratugarins „…skilaði það að meðaltali ekki einu sinni slátur- og heildsölukostnaði.“ (Örn, Bændasamtökunum). Að mati viðmælenda minna var útflutningsbótakerfið vendipunktur í þróun reglukerfis sauðfjárræktar og upphaf ómældra vandræða fyrir greinina og þau sem hana stunduðu. Allir viðmælenda minna eru harðorðir í garð þessa kerfis sem átti að virka sem stuðningstæki en snerist í höndum þeirra sem stjórnuðu því upp í andhverfu sína: Þetta voru náttúrlega alveg fáránlegar reglur sem giltu, það var enginn hvati fyrir útflytjandann að afla arðbærra markaða… þeir fluttu út, þeir fengu tiltekið verð, það sem bar í milli borgaði ríkið (Örn, Bændasamtökunum). Arnar, Landssamtökum sauðfjárbænda, talaði um að útflutningsbæturnar hefðu verið það neikvæðasta sem hefði gerst í sauðfjárrækt á landinu. Það væri erfitt að kyngja því að búið væri að „…eyða 30 milljörðum í útflutningsbætur á kjöti og það stóð ekki eftir markaður fyrir eitt einasta kíló þegar því var hætt“. Á árunum 1978 - 1979 var orðið ljóst að forsendur útflutningsbóta voru brostnar og ákvæði um 8 Framleiðsluráð ákvað heildsöluverð nautgripa- og sauðfjárafurða á grundvelli ákvarðanna svonefndrar sexmannanefndar. Í henni áttu sæti þrír fulltrúar bænda ásamt fulltrúum Alþýðusambands Íslands, Sjómannafélags Reykjavíkur og Landssambands iðnaðarmanna. 9 Þetta ákvæði leiddi til þess að sauðfjárbændur gátu framleitt eins mikið og þeir gátu og fengu öruggt verð fyrir framleiðsluna óháð því hvort hægt væri að selja hana eða ekki. 10 Árið 1978 var framleiðsla á kindakjöti til að mynda 50% umfram sölu innanlands (Vigdís Jónsdóttir, 1992).

x

Rit Mógilsár

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rit Mógilsár
https://timarit.is/publication/1563

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.