Rit Mógilsár - 01.03.2004, Síða 20
20
atvinnu sína ef sauðfjárrækt yrði markaðsvædd að fullu.
Ljóst er að það að nota sauðfjárrækt sem byggðameðal hefur ekki
reynst vel fyrir atvinnugreinina sem slíka og jafnframt má spyrja hvort
þessi tenging hafi reynst byggðunum vel. Að mati Eiríks
(Landbúnaðarháskólanum) nægir sá byggðastuðningur sem hefur falist í
beingreiðslunum ekki til að viðhalda veikustu byggðunum. Meira verður
að koma til því að fólk mun ekki sætta sig við sambærileg kjör við þau
sem beingreiðslur hafa þó tryggt bændum hingað til. Sauðfjárrækt þarf
styrki ef vilji er fyrir hendi að halda framleiðslunni í svipuðu horfi og hún
hefur verið undanfarin ár en byggðirnar þurfa einnig styrki til að verða
lífvænlegri. Stjórnvöld standa frammi fyrir því að þurfa að ákveða hvort
stunda eigi sauðfárrækt sem atvinnugrein sem lýtur lögmálum
markaðarins eða hvort styrkja eigi þá sem hana stunda til að halda
dreifbýli í byggð. Það pólitíska hálfkák sem einkennir stöðuna í dag getur
ekki verið til góðs, þar sem sauðfjárrækt á í öðru orðinu að keppa á
markaði og í hinu að þjóna sem megin stoð byggðar í sveitum. Það er
auglýst eftir raunverulegri byggðastefnu af hálfu stjórnvalda, sem birtist
ekki aðeins í orði heldur einnig á borði „…því að hin raunverulega
byggðastefna í dag af hálfu stjórnvalda, hún er bara skipulegt undanhald
því miður“ (Eiríkur, Landbúnaðarháskólanum).
AÐSTÆÐUR FÓLKS Í FLJÓTSDAL
Í þessum kafla byrja ég að fjalla um þær breytingar sem átt hafa sér stað
í samfélagslegu umhverfi íbúa í Fljótsdal. Því næst er gerð grein fyrir
upplifun bændafólks á stöðu sinni og fjallað bæði um hagrænar aðstæður
í tengslum við sauðfjárbúskap og aðra samfélagslega þætti. Að lokum er
fjallað um hvernig fólk hefur tekist á við þessar breytingar, hvernig það
hefur skapað sér búsetugrundvöll á svæðinu og hvaða bjargráð fólk hefur
nýtt sér. Viðmælendur mínir eru allir núverandi eða fyrrverandi bændur
nema annað sé tekið fram.
Breyttar aðstæður
Þær breytingar sem hafa orðið á umhverfi íbúa í Fljótsdal eru samofnar
almennum erfiðleikum í hefðbundnum landbúnaði. Hefðbundinn
landbúnaður hefur verið megin atvinnugrein Fljótsdælinga. Árið 2000
lagði síðasta nautgripabúið upp laupana og er nú fyrst og fremst búið
með sauðfé á svæðinu. Nokkuð er þó um aukabúgreinar.
Hrossabúskapur er stundaður á nokkrum bæjum, eitt minkabú er í
dalnum og á einum bæ er verið að gera tilraun með býflugnaræktun.
Í kringum 1980 þegar framleiðslustýring í sauðfjárrækt var að
hefjast var búið á nánast hverjum bæ í sveitinni og fjöldi fjár var mun