Rit Mógilsár - 01.03.2004, Qupperneq 36
36
Heyra má raddir um að synd sé að planta trjám í tún og góðar
bújarðir. Irma og Finnur, ung hjón sem stunda sauðfjárbúskap í
nágrannasveitarfélagi Fljótsdals eru ekki ánægð með áhersluna á
skógrækt. Þeim finnst að sér sótt en þau eru ekki aðilar að
Héraðsskógaverkefninu. Þau segja að það sé ekki skilningur á stöðu
þeirra á svæðinu, fólk sjái bara tré og vilji fá að planta allsstaðar.
Umhverfisáhrif Héraðsskógaverkefnisins eru einnig táknræn.
Tveir viðmælendur lögðu áherslu á ímynd svæðisins og hlutverk
bændaskóganna í uppbyggingu hennar. Hjá þeim kom fram að einn
meginstyrkur svæðisins alls væri hin græna ímynd þess og
Héraðsskógaverkefnið styrkti þá ímynd. Ímynd svæðisins út á við
byggir að verulegu leyti á skógræktinni og tengir það við vinsæla
umhverfismálaorðræðu í samfélaginu. Sumir telja að þetta gæti verið
kostur til markaðssetningar á svæðinu fyrir ferðafólk. Það getur þó
einnig reynst tvíbent og byggir á því hvernig upplifun fólks af
umhverfisáhrifum verkefnisins mun koma til með að þróast.
Umhverfisáhrif skógræktarverkefnisins eru þar af leiðandi mikil
og margvísleg. Í upphafi virðist sem fólk hafi ekki hugsað dæmið alveg
til enda og ef til vill ekki gert sér grein fyrir því hvernig útlit svæðisins
gæti tekið stakkaskiptum. Stjórn verkefnisins hefur þó ávallt unnið
samkvæmt gildandi reglum að skógræktinni, á þann hátt að votlendi og
náttúru- og fornminjar eru verndaðar. Fólk virðist sammála um að
meira muni bera á neikvæðum og/eða efasemdaröddum um verkefnið
þegar að trén vaxa upp, en enn sem komið er telja flestir viðmælendur
mínir að jákvæð áhrif verkefnisins vegi upp þau neikvæðu.
Héraðsskógar hafa einnig táknræn umhverfisáhrif sem hægt er að
hagnýta til markaðssetningar á grunni ímyndar svæðisins.
Héraðsskógaverkefnið afmarkar Fljótsdalshérað á mjög sterkan hátt á
landsvísu þar sem það verður langstærsta skóglendi landsins.
Samfélag og menning
Héraðsskógaverkefnið hefur jafnframt félagslega- og menningarlega
þýðingu á svæðinu. Svo virðist sem að Héraðsskógaverkefnið hleypi
lífi í svæðið og hvetji fólk til að virkja tengsl sín við það. Páll og Guðrún,
starfsfólk Héraðsskóga, töluðu bæði um að ekki síst hjá fólki sem væri
flutt burt en ætti ennþá land, þá veitti skógrækt möguleika á að virkja
tengslin við heimahaganna. Páll sagði að sumt af þessu fólki tæki ekki
síður þátt í samfélaginu en aðrir íbúar sveitarfélaganna, og það væri
mjög mikilvægt þar sem að það sé kannski frekar spurning um hvað sé
gert í samfélaginu en endilega að fólk hafi þar fasta búsetu. Verkefnið
hefur þannig óbein áhrif þar sem það hvetur landeigendur til að vinna á
jörðum sínum.
Guðrún segir að bændafólk á svæðinu sé orðið miklu opnara