Rit Mógilsár - 01.03.2004, Side 38

Rit Mógilsár - 01.03.2004, Side 38
38 Vinnan við skógræktina hefur verið að breytast og tímabilið sem hægt hefur verið að fá vinnu hefur lengst með vaxandi skógi. Það birtist aðallega í skógarhöggi sem fer fram yfir vetrartímann. Í febrúar til apríl 2001, unnu 15 manns (allt karlmenn) við skógarhögg í Víðivallaskógi. Um haustið unnu 10 manns í einn og hálfan mánuð við grisjun og slóðagerð (Héraðsskógar, 2001a). Það virðist ljóst að Héraðsskógaverkefnið er orðið afgerandi hluti af lífi flestra á svæðinu og er samofið daglegu lífsmynstri fólks. Það hefur veitt fólki tekjur en það er misjafnt hvernig fólk hefur hagnýtt sér það. Þrátt fyrir að allir viðmælendur mínir væru sammála um að Héraðsskógaverkefnið hefði veitt fólki mikilvægar aukatekjur og mörgum möguleika á atvinnu var misjafnt hversu mikla áherslu fólk lagði á þýðingu verkefnisins. Héraðsskógaverkefnið veitir aðilum sínum fastar aukatekjur, mismiklar eftir framkvæmdum fólks á jörðum sínum. Sumir drógu í efa að skógræktin sé eitthvað sem skipti sköpum, en flestir lögðu þó meiri áherslu á þýðingu verkefnisins fyrir fólk á svæðinu. Ragnar og Anna hafa verið öflugir aðilar að verkefninu nokkuð lengi og fullyrti Ragnar að verkefnið hefði haft mikið að segja fyrir marga. Sigurður segir að skógræktin verði að vinna með öðru því það lifi enginn af skógrækt án skógarhöggs af fullum krafti. Enn sem komið er þá er skógarhögg ekki nema tímabundin vinna fyrir takmarkaðan fjölda fólks. Guðrún tekur fram að á þeim tíma sem skógræktarverkefnið var að fara af stað hafi verið mjög lítið um vinnu á svæðinu og sérstaklega voru takmarkaðir atvinnumöguleikar fyrir konur, en með Héraðsskógaverkefninu hafi fólk í sveit haft möguleika á að nálgast tvítekjufjölskyldur tekjulega séð og konur hafi ekki síður verið virkar í verkefninu en karlar. Þeir bændur sem ég talaði við voru sammála um að ennþá yrði að líta á skógræktina sem aukavinnu eða aukabúgrein. Þau voru einnig sammála að verkefnið hentaði mjög vel sem aukavinna. Hjá þeim aðilum sem stunda ferðaþjónustu kom það fram að skógrækt hentar vel til að fylla upp í eyðurnar. Fólk er ekki fastbundið dagsdaglega við skógræktina og hægt er að sinna henni með ferðaþjónustunni. Plöntun er eins og áður segir ekki síst tekjuuppspretta fyrir unglinga á sumrin en skógarhöggið á veturna er mikilvægur þáttur fyrir þó nokkra bændur. Skógarhöggið kemur inn á þeim tíma sem minnst er að gera í sauðfjárræktinni, frá áramótum og fram að sauðburði. Sigurður leggur áherslu á hversu vel bændafólk hefur fellt verkefnið að hefðbundnum búskap: Þannig að kannski eftir sauðburð, þá byrja þeir að gróðursetja og eftir sláturtíð byrja þeir að höggva, þannig að það er búið að smella þessu alveg inn í, þannig að þeir hafa fyllt upp, þetta hefur ekki sko skarast.

x

Rit Mógilsár

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Rit Mógilsár
https://timarit.is/publication/1563

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.