Rit Mógilsár - 01.03.2004, Page 39
39
Dæmi um hvernig verkefnið brúar bilið fyrir bændur kemur frá Indriða:
Það eru semsagt tveir mánuðir þarna [í slátrun og smölun],
svo er ég að vinna hjá Héraðsskógum, hef verið að vinna
hjá þeim undanfarin ár í skógarhöggi, á veturna,... verið þrjá
mánuði kannski þar. Svo hef ég verið í girðingaviðhaldi fyrir
þá á vorin, ... fyrir það fékk ég um 300 þúsund krónur. Ég er
að fá fyrir þrjá mánuði í skógarhöggi sexhundruð þúsund
krónur, þá eru komin 900 þúsund, ég er að fá 400 þúsund í
sláturhúsinu, þetta er það sem ég lifi á.
7 UMRÆÐUR OG LOKAORÐ
SAUÐFJÁRRÆKT OG HNATTVÆÐING
Hnattrænar breytingar eru í sjálfu sér ekki nýjar af nálinni.
Ýmiskonar samskipti hafa lengi átt sér stað á milli fjarlægra staða á
jarðarkringlunni. Flæði ímynda, fólks, fjármagns og upplýsinga hafa
hins vegar orðið mun hraðvirkari á síðustu árum samfara
tækninýjungum. Friedman (1995, 2000) bendir á að hnattvæðing eigi
sér ekki stað á tilviljunarkenndan hátt þó hún virðist að mörgu leyti vera
stjórnlaus. Áhrif og afleiðingar hnattvæðingar mótast af ákveðinni
formgerð sem hefur orðið til í sögulegu og pólitísku samhengi.
Á vissan hátt er þróun sauðfjárræktar táknmynd fyrir hnattrænar
breytingar. Mótun og skipulag reglukerfis sauðfjárræktar átti sér stað
samhliða nútímavæðingu íslensks samfélags. Á fyrri hluta aldarinnar
var lögð áhersla á að auka framleiðni landbúnaðarins og um leið hófst
uppbygging reglukerfis utan um hefðbundinn landbúnað, nautgriparækt
og sauðfjárrækt. Leitast var við að auka framleiðslumagn, vél- og
tæknivæðingu. Stjórnkerfið sem var smíðað utan um sauðfjárrækt og
hugsað sem stuðningstæki við atvinnugreinina landsmönnum til
hagsbóta var hins vegar að lokum keyrt í strand. Mikil verðbólga hér á
landi ásamt versnandi markaðsaðstæðum erlendis hafði sitt að segja
en einnig er ljóst að þau sem stjórnuðu kerfinu náðu ekki að sveigja
það að breyttum aðstæðum.
Allt frá áttunda áratug 20. aldar hefur sauðfjárrækt sem
atvinnugrein og fólkið sem stundar hana háð varnarbaráttu og leitast
við að aðlagast breyttum aðstæðum. Það hefur verið hægara sagt en
gert þar sem sauðfjárrækt hefur verið nýtt sem byggðameðal í dreifbýli
landsins. Sauðfjárrækt sem atvinnugrein hefur þannig verið hagnýtt til
svæðisbundinnar styrkingar eða viðhalds byggðar. Þetta hefur heft
bændafólk við að þróa atvinnugreinina sem slíka og það má einnig
færa rök fyrir því að þessi tenging dreifbýlis við eina atvinnugrein hafi