Rit Mógilsár - 01.03.2004, Page 42
42
geti haldið áfram annaðhvort búskap eða búsetu á jörðum sínum. Þau
bjargráð sem „virka“ fyrir íbúana eru flest hver sveigjanleg að
búsetuskilyrðum þeirra. Sauðfjárbúskapur er enn kjölfesta samfélagsins í
Fljótsdal og fólk nýtir sér hann sem grunn að öðrum bjargráðum. Þó
verður að taka tillit til þess að reglukerfi sauðfjárræktar hefur heft
hreyfanleika fólks. Sumir segjast ekki hafa efni á að selja og flytja burt
jafnvel þó þau vildu. Það er óvíst hvort miðlægt hlutverk sauðfjárræktar
muni breytast eftir að framsal greiðslumarks verður gefið frjálst í upphafi
árs 2004 en það verður að teljast líklegt að sauðfjárbúum í Fljótsdal fækki
en þau sem eftir verða muni stækka.
HÉRAÐSSKÓGAR SEM BJARGRÁÐ
Saga skógræktar á svæðinu, skipulagning Héraðsskógaverkefnisins og
sveigjanleiki þess sem bjargráðs eru þrjár megin ástæður fyrir árangri
Héraðsskóga í Fljótsdal. Þegar kemur að því að setja nýsköpunarverkefni
á laggirnar, hverju nafni sem það nefnist, skiptir máli að það sé
merkingarbært fyrir hugsanlega þátttakendur, þ.e. að fólk geti séð sig í
því að vinna það. Fljótsdalsáætlun ruddi brautina fyrir skógræktarverkefni
í Fljótsdal. Íbúar dalsins vissu að skógrækt var raunhæfur kostur á
svæðinu og eins höfðu margir persónulega reynslu af skógrækt, bæði á
jörðum sínum og í gegnum vinnu á Hallormsstað. Það má því segja að
skógrækt hafi verið hluti af menningarlegum auði íbúa Fljótsdals, hún
stóð nær þeim sem bjargráð en margt annað.
Skipulagning og framkvæmd Héraðsskóga eru lykilþættir í þessu
samhengi. Frumkvæði að verkefninu kom bæði frá félögum í
skógræktarfélögum og bændum. Stjórnmálamenn höfðu mikið að segja
með því að tengja heimafólk og stjórnkerfið í Reykjavík og vinna
verkefninu pólitískt fylgi. Verkefnið er skipulagt til langs tíma og það hefur
tryggt fjármagn. Héraðsskógar eru því öruggt haldreipi, fólk sér það sem
öruggan tekjugjafa og það getur fært þátttakendum umtalsverðar tekjur.
Heimafólk hefur verið virkir þátttakendur í skipulagningu og framkvæmd
verkefnisins frá upphafi. Verkefnið er skipulagt sem verkefni þátttakenda,
landeigendur vinna sjálfir á jörðum sínum og bera ábyrgð á efndum
samnings við stofnunina Héraðsskóga. Fastráðnir starfsmenn
Héraðsskóga eru því frekar starfsmenn landeigenda heldur en öfugt.
Héraðsskógaverkefnið er í grundvallaratriðum skipulagt þannig að það
miðar að því að styrkja fólk í starfi á jörðum sínum og ýtir þannig undir
það að fólk sé gerendur í lífi sínu.
Áhrif Héraðsskóga dyljast engum. Verkefnið hefur augljós hagræn
áhrif og fólk er sammála um að það hefur styrkt byggðina. Umhverfisáhrif
verkefnisins eru mikil og nokkuð umdeild. Verkefnið hefur samt sem áður
sótt á sem bjargráð meðal bændafólks. Bændur, sem sumir voru í vafa