Bændablaðið - 29.04.2021, Side 54
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. apríl 202154
Í rúm tíu ár hef ég mest verið að
prófa bíla og skrifa um, en stöku
sinnum hef ég tekið mótorhjól
og önnur skemmtileg tæki til að
prófa. Fyrir rúmri viku kom ég við
í Ellingsen og fékk þrjú rafknúin
reiðhjól og hlaupahjól til að prófa.
Það passaði mátulega að þegar ég
var lagður af stað í átt að Kleifarvatni,
þar sem ég hugðist prófa hjólin
á ýmsum mismunandi vegum og
slóðum, gerði ausandi rigningu
og ekkert nema pollar og drulla á
malarslóðunum. Úr varð að ég notaði
aksturssvæði Kvartmíluklúbbsins til
að prófa hjólin, tiltölulega flatt sem
hentaði vel mínum fúnu fótum sem
knýja áttu mig áfram á hjólunum með
hjálp frá rafmagnsmótorum.
Fyrsta hjólið var MATE
Mate-hjólið er rafmagns/fótstigið
hjól sem bæði er fyrir malbik og
torfærar slóðir, kostar 399.995 kr.
Meðfærilegt hjól (29 kg) sem hægt
er að brjóta saman með því að losa
bara eina skrúfu, lækka stýrið og
sætið og fyrirferðin er lítið meiri en
varadekk í bíl. 250 watta BAFANG
afturnafs-rafmótor með 5 hraðastig.
Rafhlaðan er öflug17.5 Amph og
dregur allt að 120 km við bestu
aðstæður. Byrjaði að hjóla Mate-
hjólinu á Kvartmílubrautinni sjálfri
og fannst fínt að hjóla á malbikinu,
en þegar ég fór á malarveg við
hlið brautarinnar var of mikið loft
í dekkjunum. Setti loftmagnið í 7
psi. að framan og 5 psi. að aftan og
þá fannst mér fjöðrunin vera betri.
Sandspyrnubraut Kvartmíluklúbbsins
svipar til hefðbundinna malarvega
(vantar samt holurnar), en þar var fínt
að hjóla á hjólinu og meira að segja
gat ég hjólað í lausum sandi við hlið
brautarinnar.
Þegar ég kom heim prófaði
ég hjólið á grasi í nágrenni
Réttarholtsskóla, en þar er hægt að
finna mishæðir og stuttar brattar
brekkur, var ekki mikið mál að hjóla
þar á meðan maður hélt ferð, en
var stundum erfitt að fara af stað í
byrjun (fannst rafmótorinn koma of
seint inn fyrir mína fúnu fætur sem
áttu erfitt að koma mér af stað fyrstu
metrana), en samkvæmt upplýsingum
frá sölumanni hjólanna í Ellingsen er
hægt að fá sem aukabúnað inngjöf
á rafmagnsmótorinn sem auðveldar
manni að fara af stað (sérstaklega
þegar undirlag er torfært).
Zero 10 X hlaupahjólið
gífurlega öflugt
Næst var það Zero-hlaupahjólið, létt
(35 kg) og meðfærilegt sem hægt er
að leggja saman, búið 2 x 1000W
rafmótorum í fram- og afturhjóli og
19 Ah rafhlöðu sem dregur allt að
60 km. Kostar 219.995, hjólið sem
ég prófaði var á grófum dekkjum
sem ætluð eru fyrir grasakstur og
malarundirlag.
Virkaði fínt á malbiki og
malarvegum, en þegar ég keyrði
inn á öryggissvæðið við hlið
Kvartmílubrautarinnar, sem er laus
sandur, stakkst hjólið í sandinn og
ég splundraðist á hausinn í mjúkan
sandinn.
Hjólið er innsiglað á 25 km hraða
(en ég fór samt upp í 29, að vísu niður
brekku).
Þegar ég prófaði hjólið á grasi var
ég aðeins of grófur á inngjöfinni og
spólaði framdekkið fullmikið á blautu
grasinu, en hjólið mokaðist áfram á
grasinu og náði strax hámarkshraða,
gróf dekkin voru að svara vel í
beygjum og fjöðrunin var ótrúlega
góð þarna á ósléttu grasinu (örugglega
fínt hjól til að smala kindum á túni og
reka upp óæskilegar gæsir úr túnum).
Sniðugt hjól með farangurspalli
Síðasta hjólið var Riese & Muller
Load 75, sérstakt hjól sem hægt
er að nota á ýmsa vegu vegna
farangursrýmisins fyrir framan
„hjólarann“, kostar 1.099.995.
Að hjóla á þessu hjóli er afar
auðvelt, það er vissulega langt
og tekur smá stund að átta sig
á lengdinni gagnvart beygjum,
en þyngdarpunkturinn er mjög
lágur, stillanlegt sæti og stýri,
heildarhleðslugeta er 200 kg.
Diskabremsur framan og aftan,
fjöðrun bæði á framdekk og
afturdekk, framljós með háum og
lágum geisla og afturljós.
Þó að hjólið sé ætlað sem
malbikshjól fannst mér ekkert mál
að hjóla á því á möl, tók aðeins
meira á sjálfum mér á þessu hjóli
miðað við hin og náði 35 km hraða
í ausandi rigningu þegar ég keppti
við sjálfan mig kvartmíluna.
Daginn eftir var veðrið betra,
hjólaði um hverfið með alsælan
hundinn sem farþega (hægt
að vera með allt að þrjú börn í
farangurspallinum í einu).
Það er um 2 km í Bónus
heiman frá mér eftir gangbrautum
og þangað fór ég. Með fjóra
innkaupapoka á farangurspallinum
var ekkert mál að hjóla enda eru
gírarnir margir og eins og áður
sagði auðvelt að hjóla heim. Fannst
þetta hjól vera eigulegasta hjólið
af þessum þrem sem ég prófaði og
notkunarmöguleikarnir mestir, en
fyrir þá sem vilja fræðast meira
um rafmagnshjólin frá Ellingsen
er mikill fróðleikur um hjólin á
vefslóðinni www.ellingsen.is.
VÉLABÁSINN
Hjörtur L. Jónsson
liklegur@internet.is
rafmagnshjólin
Hlaupahjólið var ekki í vandræðum að taka fram úr heflinum. Myndir / HLJ
Hef farið kvartmíluna á betri tíma og meiri hraða en 35.
Tíkin var eins og drottning í vagni, henni virtist alla vega líka vel þessi ferðamáti.
Komin heim óþreyttur úr Bónus.
Þessi þrjú valdi ég úr miklu úrvali til að prófa.
MATE-hjólið var fínt á malarvegum.
Hlaupahjólið var of kraftmikið fyrir
blautt grasið.