Skessuhorn - 27.01.2021, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 27. jANúAR 202118
Nemendum í Fjölbrautaskóla Vest-
urlands á Akranesi stendur nú til
boða að taka áfanga í floti og sjó-
sundi en skólinn er fyrsti fram-
haldsskóli landsins að bjóða upp á
slíkan áfanga. „Flot í þyngdarleysi í
heitri sundlaug er einstök leið til að
losa spennu úr líkama og sál. Flot
skapar aðstæður fyrir djúpslökun
og getur m.a. minnkað streitu, auk-
ið sköpun, bætt einbeitingu og auk-
ið svefngæði,“ segir í áfangalýsing-
unni. Áfanginn er hluti af íþrótta-
kennslu við skólann en þær Hildur
Karen Aðalsteinsdóttir og Helena
Ólafsdóttir eru nú að endurskipu-
leggja íþróttakennsluna við skól-
ann. Þær settust niður með blaða-
manni og sögðu frá þeim breyting-
um sem verða gerðar á íþróttastarfi
í skólanum á næstu vikum.
Slakasti áfanginn
Tímarnir í floti eru á fimmtudags-
kvöldum í Bjarnalaug og að sögn
Hildar Karenar er aðsókn í tím-
ana góð. „Við byrjum tímana á að
gera teygjur og öndunaræfing-
ar, róa hugann og ná góðri slökun.
Ég kveiki á kertum á bakkanum og
svo hlustum við á slökunartónlist á
meðan nemendurnir halla sér aftur
og fljóta um í lauginni, sem er um
35 gráður heit, í svona 50 mínútur.
Ég fer á milli þeirra og beiti ákveð-
inni vatnsmeðhöndlun til að hjálpa
þeim að ná djúpslökun,“ útskýr-
ir Hildur Karen. „Þetta er slakasti
áfangi sem hægt er að finna,“ bæt-
ir Helena við og hlær. Sjósund hef-
ur notið mikilla vinsælda síðustu ár
og í vor þegar hlýnar aðeins í veðri
mun Hildur Karen fara með nem-
endur niður á Langasand í sjósund.
„Það eru margir að finna sig í sjó-
sundi og áhrifum þess en áður en
farið er í sjóinn þarf maður að vera
meðvitaður um hætturnar þar. Við
munum fara yfir þær og helstu ör-
yggisatriði áður en við förum útí.
Svo eftir smá sjósund förum við í
Guðlaugu,“ segir Hildur Karen.
Breytt áhersla
Í anda heilsueflandi framhalds-
skóla er nú unnið að því að nem-
endur öðlist færni og áhuga á að
stunda hreyfingu almennt og hafi
um leið frelsi til að velja sína hreyf-
ingu „Við höfum verið með hefð-
bundna íþróttakennslu undanfar-
in ár en ákveðið var að breyta til
núna,“ segir Helena um nýtt fyr-
irkomulag á íþróttakennslu við
skólann. „Frekar en að vera alltaf
í íþróttasalnum að kenna á hefð-
bundinn hátt reynum við frekar að
gera nemendur sjálfstæðari í hreyf-
ingu almennt svo þau geti hald-
ið áfram að stunda hana eftir að
þau hætta hjá okkur,“ útskýrir hún.
„Við viljum líka ná til þeirra sem
ekki eru að finna sig í hefðbund-
um íþróttatímum og vekja áhuga
þeirra á hreyfingu sem þeim finnst
skemmtileg og geta stundað áfram
eftir að skólagöngu lýkur. Þau sem
vilja t.d. vera í ræktinni geta þá lært
undirstöðuatriðin hjá okkur, hvern-
ig tækin virka og hvernig beita eigi
líkamanum og hafa þá meiri þekk-
ingu og sjálfstraust þegar þau fara
sjálf í ræktina,“ bætir Hildur við.
Mataræði og svefn
Aðspurðar segjast þær einnig fræða
nemendur um heilsusamlegan lífs-
tíl. „Hugmyndin er að þegar þau
koma í íþróttakennslu þá fái þau
fræðslu um heilsu almennt. Vissu-
lega eru þau lítið að pæla í ýmsum
lífsstílssjúkdómum en það kem-
ur að því að þau þurfi að hugsa um
þannig hluti og við viljum vera búin
að kveikja aðeins á þeim. Við mun-
um fræða þau um næringu, svefn,
hreyfingu og bara heilbrigði al-
mennt,“ segir Helena. „Þetta er
þó allt í mótun ennþá. Við mynd-
um vilja geta kennt þeim enn meira
en við höfum þau bara í svo stutta
stund,“ bætir Hildur Karen við. Þær
ætla að taka þessa önn til að móta
íþróttakennsluna betur og vona að
næsta haust geti FVA boðið upp á
íþróttakennslu eftir þessum nýju
hugmyndum. „Við erum að prófa
okkur áfram núna og höfum meðal
annars óskað eftir hugmyndum frá
krökkunum, hvað þau vilji gera og
fá þau til að hugsa aðeins út fyrir
boxið með okkur,“ segja þær.
Vilja hreyfa sig
Þegar bókleg kennsla við FVA fór
í fjarnám vegna Covid-19 síðasta
haust var ákváðið að þær Hild-
ur Karen og Helena myndu halda
áfram að hitta krakkana utandyra,
innan þeirra sóttvarnatakmarkana
sem voru í gildi. „Við hittumst við
íþróttahúsið á Vesturgötu og gátu
nemendur ráðið hvort þeir færu að
ganga, hlaupa eða hjóla. Við fund-
um að þau voru rosalega ánægð að
geta komið saman, hreyft sig og
spjallað aðeins. Við fundum líka að
þegar við gátum ekki hitt þau voru
þau samt dugleg að fara út og hreyfa
sig, þau langar flest til að hreyfa sig
eitthvað,“ segja þær.
„Við þurftum að endurhugsa alla
íþróttakennsluna í haust og þá varð
enn ljósara mikilvægi þess að leyfa
krökkunum að velja sér hreyfingu.
Við erum að vinna að því í samráði
við ÍA og Akraneskaupstað að bjóða
upp á að nemendur fari í sjálf-
stæða þrektíma í ræktinni, komi í
stöðvaþjálfun með okkur, fari út að
hlaupa, hjóla, ganga eða bara eitt-
hvað sem þau langar að gera, jafnvel
að fara út að ganga með hundinn,“
segir Helena. „Þetta er viðkvæmur
hópur sem á það til að detta alveg
úr allri hreyfingu á þessum aldri og
svo koma þau ekki inn aftur fyrr en
kannski eftir 25 ára aldur. Við vil-
jum koma í veg fyrir það. Við vil-
jum fyrst og fremst að þau hreyfi
sig og finni að hreyfing geri þeim
gott, þá halda þau vonandi áfram að
hreyfa sig út lífið,“ segja þær.
arg/ Ljósm. aðsendar
Þær segja mikilvægt að nemendur finni hreyfingu sem þeim þykir skemmtileg og
geti séð fyrir sér að stunda áfram.
Vilja kveikja áhuga nemenda á hreyfingu
Helena Ólafsdóttir og Hildur Karen Aðalsteinsdóttir eru að endurskipuleggja
íþróttakennslu við FVA. Ljósm. arg.
FVA er fyrsti skólinn til að bjóða upp á áfanga í floti.
Helena og Hildur Karen vilja geta
boðið nemendum líka að nota ræktina
í íþróttakennslu.