Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.01.2021, Blaðsíða 4
FRÉTTIR VIKUNNAR
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.1. 2021
Í upphafi vikunnar fóru skráð dán-artilvik af völdum kórónuveir-unnar yfir tvær milljónir manna
á heimsvísu. Hlutfallslega hafa Belg-
ar farið verst út úr heimsfaraldr-
inum, en þar hafa 1.756 af hverri
milljón íbúa látist eða 3% af þeim
sem veikjast. Á Íslandi er það hlut-
fall 0,5%.
Kórónuveirusmit á Íslandi hafa orð-
ið fátíðari og fyrstu smitlausu dag-
arnir frá því í september voru í lið-
inni viku. Sjúkrahúsinnlögnum
hefur aftur fjölgað nokkuð.
Alþingi kom saman á ný eftir jóla-
leyfi. Þar er búist við líflegu þingi í
aðdraganda alþingiskosninga. Þar
er útlit fyrir líflegasta umræðu um
stjórnarskrárfrumvarp Katrínar
Jakobsdóttur og fyrirhugaða sölu
á eignarhlut ríkisins í Íslands-
banka. Eftir því sem nær dregur
kosningum má svo búast við að ör-
læti þingmanna verði æ meira
áberandi, enda stjórnmál sú list að
múta kjósendum með þeirra eigin
peningum.
Mannauðs- og starfsumhverfissvið
Reykjavíkurborgar, sem hlýtur að
vera að leita sér að lengra nafni,
reiknaði út að stytting vinnuvik-
unnar hjá Reykjavíkurborg myndi
kosta 520 milljónir króna, sem er þó
nær örugglega hressilega vanmetið.
Í upphafi var forsenda þessarar til-
raunar sú að kostnaður myndi ekki
aukast og þjónusta ekki versna.
Fregnir bárust af loðnu á stóru
svæði austur af landinu, svo vonir
um loðnuveiði glæddust mjög.
Til þessa hafa verið fáar góðar
fréttir af fjárhag Sorpu, sem óhætt
er að segja að hafi verið í rusli. Í
vikunni bárust hins vegar fregnir af
því að til stæði að reyna að vinna ol-
íu úr plasti í fórum Sorpu, sem al-
menningur hefur flokkað fyrir
hana, en fyrirtækið svo urðað eða
brennt.
Slys varð í Skötufirði þegar bíll fór
út af veginum og út í sjó. Í bílnum
voru hjón og ungur sonur þeirra frá
Flateyri. Vegfarendur náðu með
harðfylgi að koma fólkinu í land, en
konan og litli drengurinn létust á
sjúkrahúsi síðar.
Íslenska landsliðið í handbolta hafði
sigur á Marokkó í hörðum leik í
milliriðlakeppni heimsmeist-
aramótsins í Egyptalandi.
Símasamband í Skötufirði verður
styrkt með vorinu, en gagnrýni kom
fram um að ekki hefði verið unnt að
ná símasambandi á slysstað þar á
laugardag. Póst- og fjarskiptastofn-
un segir markmiðið að samfellt fjar-
skiptasamband verði á þjóðvegum
og opið reiki milli símfélaga á þeim.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn vilja
stöðva fyrirtækjaflótta úr borginni
og lögðu til að nýtt atvinnuhverfi
yrði skipulagt á Keldnalandi, sem
væri þá til þess fallið að koma á
betra jafnvægi atvinnusvæða og
íbúahverfa í borginni. Það var vita-
skuld fellt.
Ógnvænleg fjölgun hefur orðið með-
al atvinnulausra til langframa, sem
hafa leitað vinnu í hálft ár eða meira.
Um áramótin voru þeir um 11 þús-
und talsins, þar af liðlega fjögur þús-
und í meira en ár.
Svavar Gestsson, fyrrverandi rit-
stjóri Þjóðviljans, þingmaður, ráð-
herra og sendiherra, lést eftir ströng
veikindi, 76 ára að aldri.
Forystumenn í ferðaþjónustu verða
æ svartsýnni á að erlendir ferða-
menn komi í nokkrum mæli í sumar,
sem yrði greininni afar þungbært
högg ofan á hin fyrri. Flestir búa sig
undir annað „Íslendingasumar“ en
það kalli á lægra verð og minni af-
rakstur.
Píratinn og borgarfulltrúinn Dóra
Björt Guðjónsdóttir, formaður
Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýð-
ræðisráðs Reykjavíkurborgar (sem
líka hlýtur að vera að leita sér að
lengra nafni), greindi frá því að ráðið
vildi að öllum Reykvíkingum liði vel
og því hefði verið ákveðið að ráðast í
jafnréttisúttekt á íþróttafélögunum
ÍR, Fram og Víkingi.
Sama dag kom fram að æ fleiri
Reykvíkingar þyrftu á fjárhags-
aðstoð að halda og er búist við 35%
fjölgun umsókna milli ára, aðallega
vegna atvinnuleysis fólks án bóta-
réttar. Tæplega 2.500 manns þáðu
slíka aðstoð í fyrra.
Heilbrigðisráðuneytið kynnti áform
um lagabreytingar, sem geri fólki
refsilaust að hafa í fórum sínum lít-
ilræði af dópi til einkanota. Það er
liður í breyttri stefnu yfirvalda til
skaðaminnkunar varðandi fíkniefni.
Ríkissjóður veitir Landsbjörg 450
milljónir króna til kaupa á þremur
björgunarskipum næstu þrjú árin.
Jafnframt var veitt viljayfirlýsing til
frekari styrks til kaupa á sjö skipum
til viðbótar næstu tíu ár.
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur
óskað eftir deiliskipulagi á reit
stjórnarráðsins við Lækjargötu,
þannig að lóðinni yrði skipt upp. Er
óttast að við það gæti komið rof í
menningarsögu borgarinnar, ef ekki
tíma- og rúmssamfelluna, þar sem
þá yrði Núllið, Bankastræti 0 líkt og
gárungarnir nefndu það, óvænt
Bankastræti 1.
Joe Biden sór embættiseið í Wash-
ington, höfuðborg Bandaríkjanna,
að viðstöddu fjölmenni, um 25.000
þjóðvarðliðum gráum fyrir járnum.
Ótíndri alþýðunni var hins vegar
haldið í hæfilegri fjarlægð.
Kaupfélag Skagfirðinga og dóttur-
fyrirtæki þess greindu frá því að
matvælaaðstoð þeirra til fólks í
vanda vegna atvinnumissis og ann-
arra þrenginga, sem hrundið var af
stað fyrir jól, hefði verið framlengd
fram yfir páska. Hér ræðir um lang-
mestu matargjafir Íslandssög-
unnar.
Bílaleigubílum á skrá hefur fækkað
um fjórðung á einu ári og bílaleigur
flýta sér hægt í endurnýjun flota
sinna. Jafnframt hefur leigum fækk-
að um meira en þriðjung frá upphafi
árs 2019.
Þingmaður Samfylkingarinnar í
Reykjavík, Ágúst Ólafur Ágústs-
son, verður ekki í framboði fyrir
flokkinn í næstu kosningum, en
uppstillingarnefnd í Reykjavík lagð-
ist gegn því að hann væri ofar en í
þriðja sæti, eftir því sem næst verð-
ur komist. Rósa Björk Brynjólfs-
dóttir virðist ekki hafa fengið miklu
betra tilboð, en hún ákvað að sækj-
ast eftir efsta sæti flokksins í Suð-
vesturkjördæmi, þar sem Guð-
mundur Andri Thorsson er á fleti
fyrir.
Snjóflóð féll á skíðasvæði Siglfirð-
inga og voru hús í bænum rýmd
vegna yfirvofandi snjóflóðahættu.
Mikil úrkoma og vonskuveður var á
Tröllaskaga og tepptust leiðir þang-
að norður. Til vonar og vara var
varðskipið Týr sent á vettvang.
Þrátt fyrir að fá kórónuveirusmit
hafi greinst að undanförnu telur
Þórólfur Guðnason sóttvarnalækn-
ir ekki tímabært að slaka á sótt-
varnaaðgerðum. Hann greindi einnig
frá því að samkvæmt samningi um
Evrópusamstarf við öflun bóluefna,
sem ekki hefur vakið aðdáun fyrir
skilvirkni, væri Íslendingum bannað
að afla sér bóluefna á eigin spýtur.
Sem sætir nokkurri furðu, en er þó
meira en heilbrigðisráðherra hefur
fengist til að játa þó spurt hafi verið
og þráspurt.
Vatnsæð sprakk við Suðurgötu svo
meira en 2.000 tonn af köldu vatni
fossuðu um Háskólasvæðið og inn í
flestar byggingar þar. Tjónið er
gríðarlegt og ljóst að truflun verður
á starfsemi Háskóla Íslands um
margra mánaða skeið.
Tveir utanríkisráðherrar, þeir Guð-
laugur Þór Þórðarson núverandi
og Össur Skarphéðinsson fyrrver-
andi, kynntu Grænlandsskýrslu um
samskipti landanna. Þar komu fram
nær hundrað tillögur um hvernig
dýpka mætti þau á ýmsum sviðum,
þar á meðal með tvíhliða viðskipta-
samningi, og tóku grænlensk stjórn-
völd vel í það allt.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráð-
herra lagði fram þingmanna-
frumvarp um breytingar á stjórnar-
skrá, þar sem meðal annars má
finna ákvæði um auðlindir, um-
hverfi, breytingar á kjöri, kjör-
tímabili og valdsviði forseta Íslands.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
greindi frá því að nú væri bóluefnið
frá Pfizer fimmtungi drýgra en fyrr
eftir að mönnum hugkvæmdist að
nota réttar sprautur við bólusetn-
inguna. Þeim framförum í læknavís-
indum fagna allir góðir menn.
Mengun af völdum ferðamanna
reyndist meiri en margur hugði þeg-
ar fréttir bárust af því að vinsælt
væri að strá ösku af látnu fólki við
náttúruundur eins og Geysi. Það
hljóta að vera hugstæðar minning-
arathafnir með brennisteinsfnykinn
alltumlykjandi.
Erfiðir tímar og
atvinnuþref
Við blasir að styrkja þarf undirstöður Háskóla Íslands eftir vatnsflóðið þar í vikunni. Eða a.m.k. skipta um gólfefni.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
17.1.-22.1.
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Góð þjónusta í tæpa öld
10%afslátturfyrir 67 ára
og eldri