Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.01.2021, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.01.2021, Blaðsíða 13
24.1. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13 brast eitthvað í bakinu á mér,“ segir Reynir sem bað krakkana, sem horfðu upp á slysið, að hreyfa ekki við sér. „Ég bað fólk að taka hurð af fjárhúsinu og mér var lyft varlega upp á hana og svoleiðis var ég borinn inn í hús. Læknirinn kom og ég var sendur suður með sjúkrabíl og það reyndust þrír hryggjarliðir vera brákaðir. Ég lá svo á spítala og svo heima í mánuð. Ég slapp bara virkilega vel. Ég hefði getað lamast,“ segir Reynir sem reyndi þó að laga flugdrekann og prófaði aðeins aftur annan dreka. „Síðan hef ég ekkert snert á þessu, nema sem farþegi. Í vængflugi. Það var gaman.“ Strand í roki og rigningu Reynir var öflugur björgunarsveitarmaður og lenti í því í þrígang að bjarga mönnum úr skips- ströndum. „Þetta gekk vel þó það munaði ekki miklu í eitt sinn. Þá hafði strandað breskur togari fyrir austan Hjörleifshöfða. Nokkrir höfðu stokkið í björgunarbát sem rak þá frá skipinu og hægt var að bjarga þeim í land, en hinum björguðum við úr skipinu með björgunarstól,“ segir hann. „Svo var það löngu fyrr, þegar faðir minn var formaður björgunarsveitarinnar, að það strand- aði bátur fyrir austan Hjörleifshöfða við mjög erfiðar aðstæður. Það var búið að snjóa óhemju- mikið á því svæði og gerði svo asahláku og rok og rigningu og hann strandar einmitt í þessu veðri. Við urðum að bera björgunarbúnaðinn langa leið og vaða yfir tvö útföll á tveimur ám. Það var mið nótt og hafði verið skemmtun hér í Vík og við erum kallaðir út af skemmtuninni. Það voru nokkrir sem komu með sem voru kannski ekki nógu vel búnir. Þegar við vorum búnir að vaða þetta, gegnblautir, þá komum við að bátnum sem var í flæðarmálinu. Faðir minn opnar málmkassann sem innihélt línubyssuna en ég hafði gripið með brauðsneiðar í bréfpoka og stungið í kassann. Svo þegar hann opnar kassann er hann útataður í mauki og byssan með, því brauðið hafði allt blotnað. Við sáum að það yrði ómögulegt að hreinsa byssuna til að skjóta línu. Ég sting upp á að kasta línunni um borð,“ segir Reynir, en þarna er hann 22 ára. „Það var bundið um mig band og ég hljóp út með útsoginu með blökkina og hringdráttarlín- una og kasta henni um borð í fyrsta kasti. Og var svo dreginn í land aftur,“ segir hann og hlær. Í vök upp undir hendur Reynir segir að vel hafi svo gengið að ná fimm skipverjum í land, en þá átti eftir að ferja allan hópinn til baka, yfir vöðin í rigningu og roki. „Það var ausandi rigning og mikið í ánum, en það var ís á þeim. Vatnið flæddi yfir þannig að maður sá ekki í raun hvort maður gæti gengið á ís eða myndi lenda í vök. Við pabbi fórum fyrstir yfir og ég svo yfir til að leiðbeina hinum rétta leið yfir. Ég fór ekki akkúrat sömu leið til baka og lenti þá í vök. Upp undir hendur. Þá varð ég svolítið smeykur. En ég vildi ekki kalla eftir hjálp því það var ekkert betra að fá þá ofan í vökina líka. Ég klöngraðist upp á ísinn aftur og gat lóðsað mennina yfir og við sluppum ótrúlega vel því það var kominn áll með annarri strönd- inni og ís þar og við þurftum að stökkva milli ís- jaka og í land.“ Varstu ekki að frjósa? „Nei, það var frostlaust. Ég var bara gegn- blautur,“ segir Reynir og kallar greinilega ekki allt ömmu sína. Þrátt fyrir að björgunin hafi gengið vel var ekki allt búið. Einn björgunarsveitamannanna örmagnaðist við fyrstu ána vegna ofkælingar. „Hann lognaðist út af; gat ekki meir. Hann var aðeins með meðvitund yfir ána og við gátum stutt hann og hálfborið yfir en svo þegar við komum yfir varð hann meðvitundarlaus. Það varð úr að ég og tveir aðrir urðum eftir til að bera hann en hinir héldu áfram með skipbrots- mennina í átt að bílunum, tveggja, þriggja kíló- metra leið. Við vorum langt á eftir því við þurft- um að bera hann en við höfðum engar börur. Þannig bárum við hann og yfir hitt útfallið en við sluppum yfir það. Þaðan var ekið með hóp- inn í skipbrotsmannaskýli sem þá var í Hjör- leifshöfða, en þar var búið að hita súpu og hægt var að fara í önnur föt. Þarna lifnaði hann við. Þetta var svaðilför og björgunarsveitin fékk verðlaun á sjómannadaginn fyrir þessa björgun og faðir minn heiðraður.“ Forsjónin greip í taumana Eftir að Reynir hætti hjá lögreglunni og fór á eftirlaun hefur hann sinnt ýmsum störfum og áhugamálum. „Ég var í fluginu. Það kom hlaup í Jökulsá á Sólheimasandi og þá var ég að fljúga yfir jökul og skoða, en hafði oft flogið þarna útsýnisflug með ferðamenn. En þarna bað Veðurstofan mig um að mæla í ánum, leiðnimælingu, og að fljúga upp á jökul og skoða sigdældir. Ég flaug þá fyr- ir Raunvísindastofnun einu sinni, tvisvar í mán- uði og alla tíð síðan hef ég verið að fljúga þarna yfir, auk þess að vera með mælingar í Múlakvísl og Jökulsá. En nú er ég hættur að fljúga og bú- inn að leggja inn skírteinið mitt. Það var bara í fyrravetur, í kófinu. Ég flaug því þar til ég var 86 ára og þá hafði ég flogið síðan ég var tvítug- ur. Sextíu og sex ár á flugi og búinn að reka þessa sömu litlu vél í yfir fjörutíu ár,“ segir hann. „Ég veit ekki hvort ég á að segja þér frá því, hvernig minn flugrekstur endaði,“ segir hann og hlær. Blaðamaður verður auðvitað forvitinn og hvetur hann til að leysa frá skjóðunni. „Í fyrravetur ætlaði ég upp á jökul í góðu veðri. Það hafði snjóað og það var skafl fyrir utan flugskýlið. Vélin hafði verið treg í gang; köld. Ég hafði gert það áður að setja hana í gang inni í skýlinu til að þurfa ekki að draga hana inn aftur ef hún færi ekki í gang. Ég var búinn að binda band í stélið og í bílinn og dró hana aftur á bak út úr skýlinu í hægaganginum. Ég gat ekki dregið hana nema rétt út fyrir dyr vegna skaflsins og ætlaði svo að beygja vélinni fyrir skaflinn. Ég leysi bandið og keyri bílinn handan við hornið og hringi til Eyja til að plana flugið og gefa þeim upplýsingar. Mér verður svo litið fyrir hornið og þá er þar engin flugvél,“ segir hann og skellihlær. „Þá var hún komin inn aftur. Hún hafði lullað sjálf inn í hægagangi, keyrði á tjaldvagn og skrúfan kengbeygðist. Ég var alltaf vanur að setja hana í handbremsu, en hafði gleymt því þarna. Ég var búinn að kvíða fyrir því lengi að hætta að fljúga en þarna sá ég bara að forsjónin var að segja mér að þarna væri nóg komið. Ég hef svo oft lent í því í gegnum lífstíðina að eitt- hvað hafi gripið inn í og forðað mér frá ýmsu eða leiðbeint mér, það sem ég kalla forsjónina. Þannig að ég gat ekki annað en tekið mark á þessu og hætti alveg sáttur. Engin eftirsjá,“ segir Reynir og segir vélina núna komna á safn í Skógum, enda er hún orðin yfir hálfrar aldar gömul þó að hún hafi verið í góðu flughæfu standi. „Þar fer vel um hana.“ Vill sigla með ferðamenn Fyrir mörgum árum keyptu Reynir og sonur hans hjólabáta og notuðu þá í byrjun til fisk- veiða og síðar til að fara með ferðamenn í útsýn- istúra. „Þá voru engir útlendingar eins og núna, þetta voru bara Íslendingar. Þetta varð mjög vinsælt en það var siglt út að dröngum eða að Dyrhólaey og í gegnum gatið,“ segir Reynir sem enn á ný hyggst snúa sér að siglingum með ferðamenn sem koma vonandi í sumar. „Yngri sonur minn var að þrýsta á mig að byrja aftur í þessu og ég fór í Samgöngustofu til að athuga hvort eitthvað stæði í vegi fyrir þessu og fékk nú engin svör. En við urðum að hrökkva eða stökkva því við þurftum að kaupa báta frá Hollandi sem hefðu annars farið í bræðslu. Svo fluttum við inn tvo báta en þeir hafa ekki fengist skráðir enn og eru því ekki komnir í gagnið. Við sjáum að það er margfaldur grundvöllur fyrir þessu. Það er kjörið að hafa hér einhverja af- þreyingu,“ segir hinn 87 ára gamli Reynir sem er til í slaginn í sumar ef leyfi fæst. Tíminn líður hratt í stofunni hjá Reyni, enda er hann afburðaskemmtilegur sögumaður og hefur lent í bæði lífsháska og fjölmörgum ævin- týrum á langri ævi. Sögurnar eru efni í heila bók, en sú bók verður að bíða betri tíma. Eftir að hafa hlustað agndofa á Reyni er ekki laust við að maður telji víst að hann eigi sér níu líf, svo oft hefði getað farið verr. „Já, sumir segja það. Mér finnst svo oft að einhver hafi verið í handleiðslu með mér.“ Nýlega keyptu Reynir og sonur hans tvo hjólabáta frá Hollandi. Reynir vill sigla með ferðamenn næsta sumar. „Ég var búinn að kvíða fyrir því lengi að hætta að fljúga en þarna sá ég bara að for- sjónin var að segja mér að þarna væri nóg komið. Ég hef svo oft lent í því í gegnum lífs- tíðina að eitthvað hafi gripið inn í og forðað mér frá ýmsu eða leiðbeint mér, það sem ég kalla forsjónina. Þannig að ég gat ekki annað en tekið mark á þessu og hætti alveg sáttur,“ segir Reynir sem flaug í 66 ár. Morgunblaðið/Ásdís

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.