Morgunblaðið - 13.05.2021, Side 58
58 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 13. MAÍ 2021
Kíktu við!
Gott úrval
af gæðakjöti
á grillið
Sími 557 8866 | www.kjotsmidjan.is | Fossháls 27, 110 Reykjavík
Opnunartími
8:00-16:30
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Ef lýsa ætti myrkva er heiti sýn-
ingar sem verður opin í Ásmundar-
safni við Sigtún frá og með deginum
í dag. Með sýningunni verður safnið
vinsæla, sem reist var í kringum
verk, heimili og vinnustofu Ásmund-
ar Sveinssonar (1893-1982), opnað
að nýju eftir talsverðar breytingar.
Á sýningunni nýtir Sirra Sigrún um-
fangsmesta skúlptúr Ásmundar,
kúluhúsið og skeifulaga skemmuna
að baki þess, og notar speglaða
geisla sólarinnar til að búa til risa-
vaxna teikningu í formi sólúrs. Ný
verk Sirru eiga í samtali við valin
verk eftir Ásmund og, eins og segir í
lýsingu á sýningunni, kinka þau
„kolli til hugmyndaheims hans og
einlægs áhuga á tækni og vísindum“.
Verk Sirru, sem er fædd 1977, eru
sögð kosmísk í eðli sínu og tengjast
gjarnan vangaveltum um stöðu okk-
ar í gangverki náttúrunnar, eðlis-
fræðinnar og þeirra afla sem halda
heiminum gangandi. Sýningarstjóri
er Ingibjörg Sigurjónsdóttir.
Ótrúlega skemmtileg áskorun
„Ég byrjaði á að fara í skjalasafn
safnsins, þar sem eru til dæmis
geymdar ljósmyndir, bréf og ann-
að,“ segir Sirra þegar spurt er
hvernig hún hafi ákveðið að tengja
verk þeirra Ásmundar saman. „Svo
las ég aftur bækur og ýmislegt sem
tengist Ásmundi og list hans, sem
var mjög skemmtilegt. Í þessu
grúski rakst ég til dæmis á kort sem
hann hefur gert í skissubók á ferða-
lagi um Grikkland, og póstkort sem
hann hefur eignast á því ferðalagi,
og það urðu kveikjur fyrir mig og í
framhaldinu tengingar að bygging-
unni hér. Það er talað um að við
hönnun þessa sérstaka húss hafi
hann notað hugmyndir frá Grikk-
landsferðinni. Ég hafði verið að
þvælast þar á svipuðum slóðum – 90
árum á eftir Ásmundi. Ég fann ýmsa
þræði á milli okkar.“
Sirra kaus að skoða byggingar
Ásmundar sérstaklega sem skúlptúr
og fara í sínum verkum í samtal við
það rými. „Ég kaus að nota bogann
sem bogaskemman myndar hér og
breyta því í sólúr,“ segir hún.
Hvernig fer hún að því?
„Þarna uppi á þakinu er hringlaga
spegill sem er tölvustýrður; hann
fylgir sólinni eftir á hverjum tíma og
þegar sólin skín þá beinir spegillinn
sólargeislanum á langvegginn í
bogasalnum.“ Og þá ferðast sólar-
blettur rangsælis eftir veggnum.
Þar inni í salnum, rétt eins og í
tengibyggingunni, eru sýnd verk
eftir Ásmund sem Sirra og sýning-
arstjórinn Ingibjörg hafa valið inn í
það samtal en sum verka hans sitja
nú á litríkum stöplum.
Á hina stóru glugga í skeifulaga
sýningarsalnum hefur Sirra líka
dregið upp litríkar teikningar, með
sólarformum og línum. „Teikningin
er í raun gagnvirk með sólinni sem
er varpað gegnum hana frá morgni
til kvölds,“ segir hún. En er í teikn-
ingunni einhvers konar formrænt
samtal Sirru við verk Ásmundar?
„Ekki beinlínis en ég hef verið að
skoða alls kyns útgáfur af sólúrum,
þau geta verið mjög fjölbreytileg þó
að í þeim sé verið að kortleggja
hreyfingu skuggans. Þessi stóra
teikning er abstrakt sólúr, sem vísar
í hugmyndir um sólúr.“
Var ekki skemmtileg áskorun að
takast á við þetta sögulega rými?
„Það er jú ótrúlega skemmtileg
áskorun. Þetta er mjög óvenjulegt
og fallega úthugsað af Ásmundi,“
svarar hún. Meðan við spjöllum eru
aðstoðarmenn Sirru að draga litrík-
ar lóðréttar línur á langvegg salarins
og segir hún þær marka hverjar
fimm mínútur á ferð sólargeislans
eftir veggnum. „Þetta er allt sama
verkið sem teygir sig um rýmið,“
segir hún og bendir á gluggateikn-
inguna, litríka fletina sem hún varp-
ar um salinn og línurnar sem mynda
sólúrið á langveggnum. Hvað varðar
verk Ásmundar á sýningunni segir
hún þær Ingibjörgu hafa valið verk
sem þeim finnst tengjast til að
mynda þessum hugmyndum um
sólarganginn. „Mörg eru frá sjötta
og sjöunda áratugnum, þegar
Ásmundur fór alveg yfir í abstrakt,
þótt önnur eldri séu líka með.
Ásmundur var svo forvitinn um
heiminn og um vísindi og það spegl-
ast fallega í verkunum hans.“
Í tengibyggingunni hafa verið
settar upp geómetrískar teikningar
eftir Ásmund sem Sirra segir ekki
hafa verið sýndar áður. Þar er líka
röð teikninga Sirru sem hún gerði í
Kína fyrir tveimur árum en hún seg-
ir þær hafa „smellpassað inn í allar
hugmyndirnar um þessa sýningu“. Á
þeim má sjá kleinuhring með bleik-
um glassúr breytast í kosmísk form.
„Við að skera hlut upp með þessum
hætti birtist eitthvað sem er falið í
forminu,“ segir Sirra um verkin.
„Ég nota mikið lit en í verkum
Ásmundar sést varla litur. Mér
fannst áhugavert að sjá um litinn í
samtali okkar. Ég mála með sólinni,“
segir hún að lokum.
„Ég mála með sólinni“
- Ásmundarsafn opnað að nýju eftir breytingar með sýningunni „Ef lýsa ætti myrkva“ þar sem Sirra
Sigrún Sigurðardóttir á í sjónrænu samtali við verk og byggingar Ásmundar - Litríkt sólúr í salinn
Morgunblaðið/Einar Falur
Skaparinn „Þetta er allt sama verkið sem teygir sig um rýmið,“ segir Sirra Sigrún um marglaga samtalið í salnum.
Í tilefni af 90 ára afmæli Sólheima
og leikfélags Sólheima verður
afmælissýning Leikfélags Sól-
heima, Árar, álfar og tröll, sýnd á
Stóra sviði Þjóðleikhússins mánu-
daginn 24. maí kl. 18.
„Leikritið Árar, álfar og tröll var
frumsýnt í Sólheimaleikhúsinu á
sumardaginn fyrsta, 22. apríl sl.
Sýningin sló rækilega í gegn og
uppselt varð á allar sýningarnar
fimm. Verkið er skrifað af Hannesi
Blandon og Guðmundi Lúðvík
Þorvaldssyni en Lárus Sigurðsson
gerði tónlistina. Verkið er skrifað
sérstaklega í tilefni 90 ára afmælis
Sólheima og er byggt á sögu Sess-
elju Hreindísar Sigmundsdóttur,
stofnanda Sólheima. Sagan er sett í
ævintýralegan búning. Guðmundur
Lúðvík leikstýrir verkinu en hann
er leikfélaginu að góðu kunnur þar
sem þetta er í fimmta sinn sem
hann leikstýrir á Sólheimum. Fjöldi
íbúa Sólheima kemur að verkinu,
bæði í leikhlutverkum og bak við
tjöldin,“ segir í tilkynningu frá
Þjóðleikhúsinu.
Þar kemur fram að verkið sé
ævintýri sem fjalli um „baráttukon-
una Sesselju sem á sér þann draum
að opna barnaheimili þar sem allir
geta lifað í sátt og samlyndi. Til
þess að láta draum sinn rætast þarf
hún að takast á við konungsríki og
alls kyns verur, svo sem álfa og
tröll. Leikfélag Sólheima var stofn-
að árið 1931 og á því 90 ára afmæli í
ár. Löng hefð er fyrir því að frum-
sýna á sumardaginn fyrsta og var
engin undantekning á því í ár. Leik-
hópurinn er sérstaklega spenntur
fyrir hátíðarsýningu í Þjóðleikhús-
inu þann 24. maí nk. á 90 ára
afmæli sínu.“
Í tilkynningunni kemur fram að
Þjóðleikhúsið, sem er leikhús allra
landsmanna, „fagnar komu hins
kraftmikla leikfélags Sólheima,
sem hefur unnið mikilvægt starf í
gegnum tíðina, og árnar félaginu
heilla á stórafmælinu“.
Árar, álfar og tröll
sýnd í Þjóðleikhúsinu
Ævintýri Í sýningunni er sögð saga
Sesselju Hreindísar Sigmunds-
dóttur, stofnanda Sólheima.