Morgunblaðið - 10.06.2021, Síða 74
74 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. JÚNÍ 2021
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Hljóðbókaveitan Storytel gefur
þann 15. júní næstkomandi út nýja
bók eftir sænska metsölurithöfund-
inn Camillu Läckberg og landa
hennar og leikara Alexander Karim
sem nefnist Glaciär eða Jökull á ís-
lensku. Í íslensku útgáfunni flytja
leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir
og leikarinn Hjörtur Jóhann Jóns-
son söguna en í þeirri sænsku Kar-
im og hin þekkta leikkona Lena
Endre. Þau leika einnig í kvik-
myndinni Glaciär sem sýnd er á
streymisveitunni Viaplay og leik-
stýrt var eftir handriti Läckberg.
Svo óvenjulega vill nefnilega til að
kvikmyndin kom á undan bókinni
en oftast er það öfugt.
Í Jökli segir af karli og konu sem
dvelja á fínu hóteli í miðjum heims-
faraldri sem dregið hefur hálft
mannkynið til dauða. Faraldurinn
er svo skæður að fólk má alls ekki
snertast. Falli það í freistni er
dauðinn á næsta leiti. Dvöl á hót-
elinu kostar fúlgur fjár og konan
vel stæður læknir en karlinn pre-
dikari. Fyrir slysni liggja leiðir
þessa fólks saman í eldhúsi hótels-
ins og verður þá uppi fótur og fit.
Eftir frekari samskipti í gegnum
talstöðvar og farsíma verður þess-
um tveimur manneskjum ljóst að
ást hefur kviknað milli þeirra og
von í brjóstum þeirra um leið. En
eiga þau sér einhverja von þegar
mannkynið virðist dauðadæmt?
Fyrsta kvikmyndahandritið
Läckberg er hin vinalegasta þeg-
ar fundum hennar og blaðamanns
ber saman að morgni mánudags í
myndspjalli á netinu. Läckberg er
einn vinsælasti krimmahöfundur
Norðurlanda og með þekktari rit-
höfundum heimalands síns og öðl-
aðist upphaflega frægð fyrir Fjäll-
backa-syrpuna sem segir af
manndrápum í þorpinu Fjällbacka,
hennar æskuslóðum. Hafa bæk-
urnar verið gefnar út í yfir 60 lönd-
um og gerðar eftir þeim kvikmynd-
ir og sjónvarpsþættir. Läckberg
hefur einnig skrifað barna- og
matreiðslubækur og er með nýjan
bókaþríleik í pípunum. En kvik-
myndahandrit hafði hún aldrei
skrifað þegar hún hófst handa við
Jökul. Leikstjóri myndarinnar,
Baker Karim, var henni innan
handar við skrifin en Alexander
bróðir hans er þekktur leikari í Sví-
þjóð og hefur einnig skrifað skáld-
sögu og barnabók.
Läckberg er spurð að því hvers
vegna kvikmyndin og bókin heiti
þessu nafni, Glaciär. „Það er reynd-
ar mjög táknrænt fyrir persónu-
leika Önnu, hún er eins og jökull
þegar hún hittir Erik í fyrsta sinn
og hann bræðir hana hægt og ró-
lega. Þaðan kom titillinn og ég
kann vel að meta íslenska titilinn,
Jökul. Ég á ættingja á Íslandi en
þeir hafa ekki kennt mér íslensku
svo ég ætla ekki að reyna að bera
orðið fram,“ segir Läckberg glett-
in.
Bókin veitir meira frelsi
– Þú skrifaðir handritið fyrst og
síðan bókina en oftast er þetta nú
öfugt?
„Já, en mér finnst gaman að
byrja á öfugum enda og prófa eitt-
hvað nýtt. Hugmyndin að bókinni
kom ekki fyrr en við vorum byrjuð
að taka myndina. Við vorum með
svo mikið efni að ég áttaði mig á því
að það kæmist aldrei allt í myndina.
Ef persónur eru vel skapaðar og
vandaðar veit maður mikið um þær
og þeirra forsögur en það er erfitt
að koma því öllu fyrir í kvikmynd.
Því stakk ég upp á því við Alexand-
er og Baker að við myndum líka
gera hljóðbók sem tengdist mynd-
inni,“ svarar Läckberg.
– Hvernig var fyrir þig að skrifa
þitt fyrsta kvikmyndahandrit? Ég
hef heyrt þig segja í viðtölum að
skrif þín séu mjög sjónræn, að þú
sjáir fyrir þér það sem þú skrifar.
Var þér eðlilegt að skrifa handrit
að kvikmynd?
„Já og nei. Eins og þú segir eru
skrif mín mjög sjónræn, ég á auð-
velt með að sjá atriði fyrir mér en
að því sögðu er ég vanari mun
meira frelsi. Ég bar atriði undir
Baker sem honum fannst frábært
en sagði að myndi kosta 500 þúsund
krónur að taka,“ segir Läckberg
kímin og skal tekið fram að hér er
átt við sænskar krónur. Í bókum
geti hún látið hvað sem er gerast,
skrifað um ógnarsprengingar og
geimverur til dæmis en ekki í kvik-
myndahandriti. „Það var áhugavert
að læra þetta,“ segir Läckberg og
að þeir Karim-bræður hafi að-
stoðað hana við skrifin. Hún hafi
því verið á hálfgerðu námskeiði í
handritaskrifum og auk þess fengið
að spreyta sig á starfi skriftu við
tökur kvikmyndarinnar.
Läckberg segist hafa farið með
leikurum myndarinnar, þeim Lenu
Endre og Alexander Karim, inn á
hótelherbergi fyrir tökur á hverju
atriði til að ræða við þau um það.
„Við kölluðum það öryggisherbergi,
það var fjarri tökuliðinu og við fór-
um þar yfir næsta atriði og bjugg-
um til samtöl. Eftir því sem leið á
tökurnar og Alexander og Lenu fór
að líða betur í hlutverkum Eriks og
Önnu fór þetta að verða auðveld-
ara,“ útskýrir Läckberg.
Komin í æfingu
– Þú hefur drepið mjög marga á
ferli þínum en núna ertu búin að
drepa hálft mannkynið!
„Já, ég meina af hverju ætti mað-
ur að drepa einn í einu þegar mað-
ur getur þurrkað svona marga út?“
svarar Läckberg kímin. En var
þörf á því í miðjum Covid 19-
faraldri? Läckberg svarar því til að
nú sé þörf fyrir von og ást, að
minna fólk á mikilvægi nándar-
innar og kærleikans. „Við vildum
að myndin snerist um það, hún er í
raun ekki um heimsfaraldur heldur
um ást og er ástarsaga tveggja
manneskja,“ útskýrir Läckberg.
Hún skrifaði hljóðbókina með
Alexander Karim, sem fyrr segir,
og er spurð að því hvernig reynsla
það hafi verið í ljósi þess að hún sé
vön því að starfa ein. „Ég hef
reyndar verið að æfa mig því ég er
að skrifa þríleik með kollega mín-
um, var búin að skrifa heila bók
með Henrik Fexeus. Ég var því
þegar búin að æfa mig,“ segir
Läckberg og bætir við að bækurnar
þrjár verði glæpasögur. Sú fyrsta
kemur út í september í Svíþjóð.
Jökull hefur hins vegar ekkert
með glæpi að gera og er Läckberg
spurð að því hvort hún hafi hug á
því að skrifa fleiri verk án glæpa.
Hún svarar því til að hún hafi þegar
skrifað nokkur verk á ferli sínum
sem ekki teljist til glæpasagna.
Nefnir hún sem dæmi sápuóperuna
Lyckoviken sem hún átti hugmynd-
ina að og tók líka þátt í handrits-
skrifunum. Blaðamaður kemur af
fjöllum enda illa að sér í sænskum
sápuóperum.
Spurði spurninga um sjálfa sig
Läckberg segist ástríðufull í eðli
sínu og hrinda þeim hugmyndum í
framkvæmd sem hún brenni fyrir
hverju sinni. „Ef þú spyrð mig að
því hvað ég verði að gera eftir fimm
ár þá hef ég ekki hugmynd um það.
Það fer allt eftir því hvert ástríðan
leiðir mig,“ segir hún. En fyrst og
fremst er hún þekkt sem norræna
glæpadrottningin og verður það ef-
laust enn um sinn og á æskuslóðum
hennar í Fjällbacka er gert út á
frægð hennar og þorpsins. Aðdáun-
in er slík að boðið er upp á sérstak-
ar Camillu Läckberg-skoðunar-
ferðir í þorpinu.
Blaðamaður nefnir þetta og
Läckberg hlær þegar hún rifjar
upp að hún hafi farið í slíka skoð-
unarferð. Enginn þekkti hana í
ferðinni enda höfundurinn frægur
fyrir bækurnar fremur en útlitið.
Undir lok ferðar greindi Läckberg
svo frá því hver hún væri, aðdáend-
um til mikillar furðu og gleði. „Ég
spurði margra heimskulegra
spurninga um Camillu Läckberg,“
segir hún kímin. Svörin voru sem
betur fer rétt hjá leiðsögumann-
inum sem hún segir hafa staðið sig
vel.
Läckberg hefur áður greint frá
því að vegna áhuga hennar á hinum
myrku hliðum mannskepnunnar
hafi aðeins tvennt verið í boði, að
gerast glæpasagnahöfundur eða
raðmorðingi. Hún valdi sem betur
fer hið fyrrnefnda. En væri hún
raðmorðingi, hvers konar raðmorð-
ingi væri hún þá? „Ég væri einn
hinna skipulögðu. Þú veist að það
eru tvær gerðir raðmorðingja, sú
skipulagða og sú óskipulagða. Ég
held að ég væri mjög skipulögð og
undirbyggi mig vel,“ segir Läck-
berg glettin.
Ljósmynd/Magnus Ragnvid
Samvinna Leikarinn Alexander Karim og rithöfundurinn og handritshöfundurinn Camilla Läckberg.
Tvíeyki Halldóra Geirharðsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson fara með hlut-
verk Önnu og Eriks í íslenskri útgáfu hljóðbókarinnar Jökuls.
Von og ást í miðjum faraldri
- Camilla Läckberg skrifaði handrit kvikmyndarinnar Glaciär og í kjölfarið hljóðbók um sama efni
fyrir Storytel - Segist hafa gaman af því að prófa eitthvað nýtt og láta ástríðuna ráða ferðinni
Sími 557 8866 | www.kjotsmidjan.is | Fossháls 27, 110 Reykjavík Opnunartími
8:00-16:30
Úrvals hamborgarar og grillkjöt
Krydd, sósur og ýmsar grillvörur