Fréttablaðið - 23.10.2021, Blaðsíða 69
Heilsueflandi samfélag
Landsþing hvetur stjórnvöld til að stuðla að
heilsueflandi samfélagi með öllum tiltækum
ráðum. Hæfileg hreyfing, nægur svefn, hvíld, hollt
mataræði og jákvæð félagsleg gildi eru lykill að
velferð allra landsmanna.
Einnig skorar Landsþing á skólayfirvöld að setja
skýr mörk um notkun snjallsíma í grunnskólum.
Endurhæfing
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands
hefur í áratugi vakið athygli á heildrænni
meðferð í endurhæfingu og það hefur sýnt
sig að starfsemi hennar er mikilvægur hlekkur
í heilbrigðisþjónustu landsins. Hún byggir á
hreyfingu við hæfi, hvíld og heilsusamlegu
mataræði í umvefjandi umhverfi. Lögð er
áhersla á að einstaklingurinn beri ábyrgð á eigin
heilsu. Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð eru
hornsteinar Heilsustofnunar. Landsþing hvetur
stjórnvöld til þess að huga betur að endurhæfingu
og forvarnagildum á Íslandi.
Nikótínpúðar og orkudrykkir
Landsþing NLFÍ hvetur til átaks í fræðslu um
skaðsemi munntóbaks, sérstaklega í formi
tilbúinna nikótínpúða. Aukin notkun nikótínpúða
meðal barna og unglinga er áhyggjuefni en fæst
þeirra hafa neytt nikótíns í öðru formi.
Neysla koffín- og orkudrykkja getur valdið
svefnleysi og ýmsum kvillum hjá börnum og
fullorðnum en efla þarf fræðslu um þessa tegund
drykkja.
Umhverfis- og loftlagsmál
Landsþing NLFÍ skorar á íslensk stjórnvöld að
grípa tafarlaust til afdráttarlausra og öflugra
aðgerða til að snúa við þeirri ógnvænlegu þróun
sem nú blasir við í loftslagsmálum og ógnar öllu
lífríki. Einnig verður að standa vörð um ósnortin
víðerni í náttúru Íslands og fyrirbyggja að mikill
ágangur ferðamanna skaði viðkvæma náttúru
Íslands.
Varðandi endurvinnslu er nauðsynlegt að
samræma reglur um flokkun og endurvinnslu á
landsvísu.
Lífrænn landbúnaður á Íslandi
Landsþing NLFÍ krefst þess að stjórnvöld hefji
þegar í stað vinnu við aðgerðaáætlun um eflingu
lífrænnar framleiðslu. Ísland stendur öðrum
Evrópulöndum langt að baki á því sviði. Nú
stefna lönd Evrópusambandsins að því að innan
tíu ára (árið 2030) verði 25% nytjalands vottað
lífrænt og er þar unnið eftir fjölþættri áætlun
um þróunarstarf á sviði lífræns landbúnaðar,
vöruþróunar og neytendamála. Í grannlöndum
okkar er markvisst unnið að stigvaxandi
notkun lífrænna matvæla í stóreldhúsum
mennta-, öldrunar- og heilbrigðisstofnana.
Lífrænar ræktunar- og eldisaðferðir draga
úr gróðurhúsaáhrifum með aukinni bindingu
kolefnis í landbúnaði og rannsóknir staðfesta
að þær skila hreinni matvælum með fjölþættari
næringarsamsetningu.
Landsþing bendir á að tryggja þarf að ákvæðum
reglugerðar um merkingar á matvælum sem
framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum og
afurðum þeirra sé framfylgt. Tryggja þarf að
upprunamerkingar matvæla séu réttar og
greinilegar.
Ályktanir 38. landsþings
Náttúrulækningafélags Íslands
Náttúrulækningafélag Íslands
Laugavegi 7 - 101 Reykjavík - Sími: 552 8191 - www.nlfi.is
Berum ábyrgð á eigin heilsu