19. júní - 19.06.2018, Blaðsíða 67
Ársrit Kvenréttindafélags Íslands | 65
Þegar allt fylltist af #MeToo-
yfirlýsingum kvenna á samfélagsmiðlum
lýstu sumir karlar furðu sinni á því
hve algengt það væri að konur hefðu
orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða
ofbeldi. Það virtist eins og hreinlega
allar konur hefðu lent í einhverju og
það kom mörgum körlum á óvart.
Mörgum konum þótti hins vegar ekki
síður furðulegt að þetta kæmi körlunum
í opna skjöldu. Það að verða fyrir
kynferðislegri eða kynbundinni áreitni,
ef ekki hreinlega ofbeldi, er nokkuð
sem konur lenda svo oft í að þær fara
beinlínis að eiga von á því við sumar
aðstæður. Það verður sjálfsagður hluti
af lífi okkar bæði að búast við áreitni og
reyna að finna leiðir til að forðast bæði
hana og svo auðvitað kynferðisofbeldið
sem við lærum snemma að sé ógn
sem alltaf vomi yfir okkur. Áreitni á
sér oft stað fyrir opnum tjöldum, sett
fram eins og ekkert sé sjálfsagðara, og
ofbeldið, áreitnin og ógnin eru algengt
umfjöllunarefni kvenna, ekki bara þegar
þær ræða saman óformlega heldur líka
til dæmis í bókmenntum og öðrum
listgreinum. Frá því sjónarhorni hljóta
spurningar að vakna um það hvernig
það gæti mögulega hafa farið fram hjá
einhverjum að kynferðisleg áreitni og í
það minnsta ógnin um kynferðisofbeldi,
ef ekki bein reynsla af því, væri eitthvað
sem setti mark sitt á reynsluheim
bókstaflega allra kvenna.
Sú ályktun sem hægt er að draga
af þessu er að margir karlar hafi ekki
tekið mark á frásögnum kvenna af kyn-
ferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni
eða þá ekki fundist þær nógu áhuga-
verðar til að veita þeim athygli. Eins
hafa margir ekki litið á áreitni sem
hefur átt sér stað í viðurvist þeirra sem
slíka. Það hefur einmitt verið eitt af
helstu markmiðunum með átökum eins
og #MeToo að safna nógu mörgum
frásögnum saman til að hávaðinn yrði
nógu mikill til að það yrði bara ekki hægt
að hunsa hann. Konur sýna samstöðu og
taka undir hver með annarri; þegar á
að fara að draga úr eða hunsa frásögn
einnar, þá tekur önnur við og segir
„þetta hefur líka komið fyrir mig“, svo
kemur næsta og segir „mig líka“ og svo
framvegis.
Hunsunin sem hefur viðgengist
í gegnum tíðina á frásögnum kvenna
er dæmi um svokallað þekkingarlegt
ranglæti. Það hefur verið kallað
svo þegar meðlimir jaðarhópa eða
undirskipaðra hópa njóta ekki fulls
trúverðugleika og virðingar og búa
við þöggun á einhverju formi, ekki
er tekið mark á þeirri þekkingu sem
þeir búa yfir og þeir fá ekki sömu
tækifæri og aðrir til að skapa þekkingu.
Þekkingarlegt ranglæti er hugtak sem
hefur komið fram innan félagslegrar
þekkingarfræði og sem hefur hlotið
aukna athygli á síðari árum. Það má
rekja til greinarinnar „Can the Subaltern
Speak?“ eða „Geta hin undirskipuðu
talað?“ frá árinu 1988 eftir indversku
fræðikonuna Gayatri Chakravorty
Spivak. Umfjöllun Spivak er sett fram
frá sjónarhorni eftirlendufræða en
hún kemur þar inn á hvernig hin
undirskipuðu eru hindruð í að gera
tilkall til þekkingar á málum sem varða
þeirra eigin hagsmuni og þar notar
hún hugtakið „þekkingarlegt ofbeldi“.
Árið 2007 kom svo út bókin Epistemic
Injustice: Power and the Ethics of
Knowing eftir breska heimspekinginn
Miröndu Fricker, sem hefur hlotið mikla
athygli. Fricker fjallar um ákveðnar
myndir þekkingarlegs ranglætis sem
eiga einna best við um þau dæmi
sem ég minntist á hér í byrjun. Fleiri
heimspekingar hafa svo fengist við
skylda hluti, til dæmis bandaríski
heimspekingurinn Kristie Dotson, sem
hefur meðal annars fjallað um það
sem hún kallar þekkingarlega kúgun,