Strandapósturinn - 01.06.1979, Blaðsíða 13
láta í minni pokann.“ Annars náðu krakkar og kvenfólk honum
oft, en þá máttu þau ekki vera með beisli eða bönd, þá varð hann
tortrygginn og styggur. Eitt sinn að haustlagi var Neisti heima
við, ég þurfti eitthvað að nota hann, og bað konu mína að reyna
að ná honum. Hún var dálítið treg til en gerði það nú samt. Hún
gekk ofan túnið til hans og hafði hvorki með sér band eða beisli.
Hún talaði til hans og rétti að honum hönd og þá stóð hann kyrr
og teymdi hún hann síðan heim á hökuskegginu. En þegar ég
kom með beislið skipti hann heldur betur um svip, reisti sig og
leit til mín með reiði í augum, en ekki reyndi hann að rífa sig
lausann sem hefði þó verið auðvelt þar sem hún hafði ekki tak á
honum nema á hökuskegginu, en þegar ég teymdi hann burt leit
hann til konu minnar raunarlegur eins og hann vildi segja: „Nú
sveikstu mig“. Hún tók þetta nærri sér og sagði við mig: „Þetta
geri ég aldrei aftur að bregðast trausti Neista.“ Og ég held hún
hafi staðið við það.
Neisti var mjög sólginn í brauð og kom oft að eldhúsglugg-
anum til þess að sníkja sér bita, hann hnussaði í rúðuna til að
vekja á sér athygli, en braut hana aldrei. Ef það dugði ekki
stappaði hann eða krafsaði í jörðina og brást þá aldrei að til hans
heyrðist.
Eitt sinn reyndi ég að ná honum á þann hátt að hafa með mér
brauð til að hæna hann að mér. Hann fann lyktina af brauðinu
en ekki lét hann mig ná sér. Ég rétti nú fram brauðið í trausti þess
að hann stæðist þetta ekki og hann kæmi svo nærri mér að ég
næði í faxið á honum, þá mundi björninn unninn. Allt í einu
kemur klárinn á harða stökki, glefsaði í brauðið um leið og hann
hljóp fram hjá mér, án þess að linna á sprettinum. Þrjár ferðir fór
hann á sömu ferð en þá var brauðið búið, en svo liðlega fór hann
að þessu að ég vissi naumast af því að hann kæmi við hendina á
mér þó var ég berhentur.
Eins og áður er komið fram var Neisti mjög viljugur og röskur
fyrir drætti, það var oft lagt á hann mikið erfiði. Gamla túnið á
Kjörseyri er töluvert bratt sums staðar og því heyflutningur að
hlöðu erfiður. Þetta var nú áður en dráttarvélarnar komu til
sögunnar. Neisti var oft með þungan drátt í þessum flutningum,
11