Strandapósturinn - 01.06.1979, Síða 15
var nú alveg rammflæktur. Ég fór nú að reyna að greiða hann úr
þessu og var lengi að því. Ég þurfti að marg snúa honum og velta
um hrygg. Þá kom Neisti mér enn á óvart, hann gerði sig alveg
máttlausan, og var gersamlega hlutlaus um það hvernig ég fór
með hann og tók aldrei á móti, lagði allt sitt traust á manninn að
hjálpa sér úr þessu. Þegar því var lokið sagði ég honum að standa
upp, sem hann gerði strax. Ég skoðaði hann vandlega, en það
sást ekki á honum skurfa. Hann hafði gætt þess vel eins og áður
að rífa sig ekki.
Einu sinni var ég á heimleið frá Borðeyri og var með flutning á
vagni og gekk Neisti fyrir vagninum. Er ég var kominn hálfa leið
heim, snarstansar Neisti allt í einu og það á sléttri götunni, og var
ófáanlegur til þess að hreyfa sig úr sporunum hvernig sem ég
reyndi. Ég botnaði ekkert í þessu, þetta hafði hann aldrei gert
áður. Eg gekk í kringum vagninn til að athuga um hvort eitthvað
væri að, en ég sá ekki betur en að þar væri allt með kyrrum
kjörum, þá reyndi ég aftur, en Neisti var óbifanlegur. Allt í einu
mundi ég eftir því að ég hafði bundið skóflu ofan á vagnhlassið
en hafði ekki athugað hvort hún væri á sínum stað. Þá kom í ljós
að losnað hafði um skófluna og hékk hún á bandi sem dregið var
í gegnum hölduna en skóflublaðið hékk á milli afturfóta hestsins
og slóst í fætur hans þegar hann gekk. Nú skildi ég Neista, hann
var ófáanlegur til að halda áfram fyrr en ég hafði lagað þetta, en
þá stóð ekki á honum. Hræddur er ég um að flestir hestar hefðu
tekið ónotalegan kipp við svipaðar aðstæður.
Einhverju sinni pantaði ég í gegnum síma hjá Kaupfélagi á
Borðeyri 50 kg af hænsnakorni og bað um að pokinn yrði sendur
með bíl sem átti leið út sveitina þennan dag og mætti skilja hann
eftir við vegamótin heim að bænum. Um miðjan dag tek ég eftir
því að Neisti er að snúast þarna um vegamótin og skildi ekkert í
þvi hvað hann væri að gera þarna á melnum, þar sem enginn
hagi var. Er liðið var á daginn mundi ég eftir pokanum og kom
þá í hug minn hvað Neisti hefði verið að athuga þarna, og líklega
væri hann búinn að eyðileggja fyrir mér hænsnakornið. Er ég
kom ofan eftir varð þar fyrir mér hænsnakornið í snyrtilegri
strýtumyndaðri hrúgu, og lá pokinn tómur við hliðina á henni,
13