Strandapósturinn - 01.06.1979, Page 24
eftir sem reyndu að komast undir Malarhorn, annar þeirra hafði
uppi dálítið segl en hinn fór á árum. Þessir litlu bátar hurfu
stundum alveg í stóru öldudalina og þó sérstaklega sá sem var
bara með árar hinn sem sigldi sást betur.
Nú var allt heimilisfólkið komið út og fylgdist með öndina í
hálsinum með því sem var að gerast, ég man að Anna föðursystir
mín sagði, þessi sem siglir honum virðist ætla að ganga vel en
hún hafði varla sleppt orðinu þegar þetta hræðilega skeði, seglið
virtist rifna og á sama augnabliki hvolfdi bátnum. Eftir stund-
arkorn sást kjölurinn og á honum tveir menn en um örstutta
stund, fljótlega hvarf allt í öldurótið.
Ég ætla ekki að reyna að lýsa viðbrögðum okkar sem horfðum
á þetta, ég man það bara að pabbi og hinir sjómennirnir hlupu
að Víkingi, bátnum hans pabba og hugðust setja hann á flot og
freista þess að reyna að bjarga mönnunum sem héngu á bátnum,
en veðrið og brimið var svo óskaplegt að þeir komust ekki út úr
lendingunni, það voru beygðir menn sem snéru heim í þetta
sinn.
Hinir bátarnir náðu allir landi eftir mikla hrakninga þennan
eftirminnilega dag. Sjórinn hafði tekið sína fórn, fimm vaskir
menn á besta aldri og skilaði engu aftur utan einu stígvéli með
einhverju i sem rak á fjörurnar löngu seinna.
22