Strandapósturinn - 01.06.1979, Qupperneq 37
Valur og mun hann tæpast hafa verið stærri en 2 tonn, ágætis
bátur miðað við stærð, smíðaður af Guðmundi í Bæ hálfbróður
Jóns Atla.
Aðfaranótt 14. desember lögðum við af stað í róður kl. 4,
byrjað var að leggja línuna fram með svokölluðum Sporði og
lagt yfir álinn og út með Þorpabrún, að því búnu var farið í land
og gefin lega á meðan, ákveðið var að halda af stað aftur til að
draga línuna kl. 9.
Þennan morgun var norðvestan andvari og dimm él niður í
dalina í Tungusveit. Þegar við vorum að leggja af stað til að
draga línuna var Jón Atli beðinn að taka gamla konu sem hét
Ingibjörg Helgadóttir og flytja hana út að Drangsnesi. Jón Atli
sagði það velkomið en gamla konan tafðist eitthvað, svo klukkan
mun hafa verið orðin 10 þegar að Drangsnesi kom. Héldum við
þvínæst til miða til að draga línuna. Þegar við vorum nýbyrjaðir
að draga línuna gekk yfir dimmt él svo hvergi sá til lands og
þegar við höfðum dregið 4 til 5 lóðir skall á með norðaustan ofsa
byl með stórsjó og hörku frosti. Ég var að draga línuna en Einar
að gogga, þá kallaði Jón Atli til okkar að skera á linuna en þurfti
ekki, því hún slitnaði í sundur í veðurofsanum. Jón Atli ætlaði að
keyra uppí veðrið á meðan við Einar værum að laga til í bátnum
en það tókst ekki, stormurinn kastaði bátnum á hliðina svo hann
tók inn sjó og var þá ekki annað að gera en snúa undan veðrinu
og reyna að ná landi. Jón Atli bað mig að ausa og Einar að taka
við stjórn, sjálfur var hann við vélina og dældi með handdælu.
Enn versnaði veðrið svo varla sást út fyrir borðstokkinn fyrir
snjókomu og frostið eftir því, reynt var að beita uppí og ná
Reykjanesi en það vár útilokað, ágjöfin var svo mikil að við
höfðum ekki við að ausa og dæla og var þó ekki dregið af sér, þá
var slegið meira undan veðrinu og við það varð ágjöfin nokkuð
minni.
Eins og áður var sagt var Jón Atli við vélina og varð hann til
skiptis að auka eða minnka hraðann til að forðast brotsjóa. Við
héldum okkur vita af þegar við vorum út af Reykjanesinu, því þá
stóð vindurinn meira út fjörðinn, en við sáum ekki nema rétt út
fyrir borðstokkinn, svona héldum við áfram nokkurn tíma, þá
35