Strandapósturinn - 01.06.1979, Síða 106
I húsi Björns Björnssonar, eða Björnshúsinu eins og það var
kallað í daglegu tali, bjó hann í einu kjallaraherbergi, þar hýsti
hann gesti sem um veginn fóru, venjulega voru það bændur úr
nágrenninu er voru í verslunarerindum og þurftu að gista.
Kvenfólk vildi hann alls ekki hýsa það var af og frá. Aldrei tók
hann greiðslu fyrir þessa gistingu svo vitað væri, en efalaust hafa
einhverjir borgað fyrir sig. Honum þótti afar vænt um suma er
gistu hjá honum og margir munu hafa rétt honum haustmat í
sláturtíðinni. Dúnsængur átti hann til að breiða yfir þessa menn
er hjá honum gistu. Seinna eignaðist hann sitt eigið hús, hann
keypti trésmíðaverkstæðishús af Tryggva Samúelssyni og lét
innrétta þar stofu og eldhús, hjálp fékk hann einhverja frá fólki á
staðnum. I þessu húsi bjó hann í mörg ár. Þarna gat hann hýst
fleiri gesti og það var nú einhver munur sagði hann. Margir
fengu kaffi og brauð með og mig grunar að sumir hafi borðað þar
marga máltíðina líka.
Ein var sú kona á staðnum er hann bar mikla virðingu fyrir og
gekk hún fyrir með þvottadaga, það var frúin eins og hann
kallaði hana, en frúin var Elín Jónsdóttir kona Karls Magnús-
sonar héraðslæknis. Þau hjón munu hafa verið honum ákaflega
góð og fékk hann þess notið á síðustu árum ævi sinnar. Eg man
að hann kom stundum til að láta vita að hann gæti ekki þvegið
að morgni því þá yrði hann að þvo fyrir frúna. Hann var einn af
þeim er voru svo ánægðir yfir litlu. Þegar þvottavélar komu til
sögunnar varð hann óánægður og hélt að nú myndi enginn þurfa
sín með, en samt hélt hann áfram að þvo, og í kringum 1954 vissi
ég að hann var enn að þvo þvotta fyrir fólk, en nú var aldurinn
farinn að færast yfir og síðustu ár ævinnar dvaldi hann á Elli-
heimilinu Grund.
Enn er mér í fersku minni er hann kom á skemmtikvöld
aldraðra hjá Átthagafélagi Strandamanna, það var vorið 1962.
Þá margkvaddi hann með þessum orðum „Mikið lifandi ósköp
er búið að vera gaman, verið þið blessuð og sæl og þakka ykkur
fyrir“, og þetta endurtók hann þar til fylgdarmaður hans tók
undir arm hans og fór með hann heim að Grund.
104