Strandapósturinn - 01.06.1979, Síða 118
vakna, barnið myndi vera dáið, en þá kom henni í hug draum-
urinn og gaf það henni ótrúlega mikinn styrk og eins og hún
orðar það sjálf, „þá kom mín elskulega Jensina ljósmóðir og
sagði, það er strákur, stór og myndarlegur, en dálítið bólginn og
særður eftir fæðingartengurnar.“
Hin unga móðir var mikið veik eftir þetta allt er yfir hana
hafði gengið. Fyrstu vikuna mundi hún lítið hvað gerðist, það
kom engin mjólk í brjóstin, svo barnið varð að fá pela. Jensína
ljósmóðir var hjá henni í hálfan mánuð og var það óvenjulegt, að
ljósmóðir þyrfti að vera svo lengi hjá sængurkonu.
Þegar hún fór var fengin kona til að annast hana. Þessi kona
var Guðbjörg Kristmundsdóttir frá Goðdal, hún var mjög góð,
umhyggjusöm og nærfærin, hún var þar í þrjár vikur, en móðirin
unga lá rúmföst í 9 vikur.
Best mun fara á því, að enda þessa frásögn á orðum hinnar
ungu móður, en hún segir svo. „Ég og barnið mitt áttum líf okkar
að launa lækninum Ólafi Thorarensen, ljósmóðurinni Jensínu
Óladóttur og öllum öðrum, er beint og óbeint stóðu að því að svo
vel tókst til. Eg vil færa þeim öllum hjartans þakkir fyrir mig og
son minn og bið góðan guð að launa það allt.“
Þess má geta að lokum, að drengurinn, sem fæddist þarna
heitir Hilmar og er pípulagningameistari, búsettur í Garðabæ,
giftur og á 3 börn.
116