Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2014, Side 3

Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2014, Side 3
Kæru þátttakendur í Hinsegin dögum Ég á minningu um að hafa verið á gangi í Lækjargötunni og verið litið upp þegar nokkur „jibbí“ bárust ofan úr Bernhöftstorfubrekkunni handan götunnar. Þessi fagnaðarhljóð áttu sér upptök í fámennri samkomu þar á brekkubrúninni, litlum hópi fólks sem hélt á sjö blöðrum, einum regnbogalitum fána og tauborðum sem mig minnir að á hafi verið letrað: „Gay Pride“ og „Samtökin 78“. Þetta voru, sem sagt, nokkrir hommar og lesbíur að halda upp á alþjóðlegan baráttudag samkynhneigðra um leið og þau minntu á að í þeirra eigin landi vantaði mikið upp á að þau nytu sömu réttinda og aðrir borgarar. Og það gerðu þau með því að gleðjast saman fyrir allra augum. Ég man að ég hugsaði með mér: „Gott hjá þeim!“ Svo hélt ég áfram göngu minni ... En saga baráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks er náttúrlega ekki ein samfelld gleðistund, það er langt í frá. Sjálfur er ég er nógu gamall til að hafa lifað þá tíma að sjálfsagt þótti að sýna þeim algjöra fyrirlitningu sem ekki fæddust með þá einu kynhneigð sem samfélagið kallaði eðlilega. Óréttlætið var bundið í landslög, andúðin var landlæg og þeir sem þjáðust fyrir útskúfunina gerðu það einir og afskiptir eða flúðu land og stundum lífið sjálft. Þetta voru vondir tímar fyrir íslenska þjóð; hún vaknaði ekki heil til verka, lagðist ekki sátt til hvílu ... Þegar litið er til þess hversu hlutskipti hinna forsmáðu var ömurlegt er sú baráttuaðferð að stíga stolt fram í dagsljósið og bjóða meðborgurum sínum til gleðistundar yfir því „að vera það sem maður er“ þeim mun merkilegri. Það er hin hugrakka leið þess sáttfúsa, glaðbeitt ákall um að við játum að ekkert okkar á val um það hvernig við fæðumst í þennan heim, að öll eigum við skilið að fá tækifæri til að lifa til fulls þá stuttu stund sem jarðvistin er, með hverjum þeim gáfum og skavönkum sem við fáum í vöggugjöf. Það er hin milda leið mennskunnar í allri sinni „hinsegin“ fjölbreytni andspænis einstrengingshætti grimmdarinnar. Barátta hinsegin fólks á Íslandi fyrir rétti sínum hefur verið mikil gjöf fyrir okkar litla samfélag. Okkur var öllum boðið að taka þátt í því að láta af rótgrónum fordómum, að breyta rétt og af sanngirni, að standa saman um velferð hvers annars. Við lærðum merkingu orðsins „mannréttindi“. Og í þakkarskyni fyrir þann góða lærdóm eigum við að gera þá kröfu til þeirra íslensku ráðamanna sem fara með mál okkar á alþjóðavettvangi að þeir beiti sér fyrir því að hin fjölmörgu lönd sem enn misbjóða samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki meðal þegna sinna taki sér Ísland til fyrirmyndar. Við vitum að það mun færa þeim gleði. Sem ungt skáld leitaði ég víða að áhrifum og innblæstri. Ég var svo heppinn að meðal þeirra sem voru til staðar í bókahillum verslana og safna voru hinsegin rithöfundar og bækur um hinsegin listamenn. Og þá eru ónefndir allir tónlistarmennirnir sem heilluðu. Þau voru ögrandi í því sem þau sögðu frá og sýndu – veruleiki líkama og huga stækkaði í óvæntri fegurð – og þetta varð mér mikilvægt veganesti sem höfundur og manneskja. Já, það var orðhagur maður sem smíðaði orðið „gleðiganga“ upp úr enska gönguslagorðinu „Gay Pride“. Því fátt er fallegra en að vera glaður, fátt eftirsóknarverðara en að hafa yfir einhverju að gleðjast og ekkert yndislegra en að hrífast með í gleði og upplifa gleðistund með öðrum. „Jibbíin“ fáeinu sem sytruðu eins og klingjandi lækjarspræna niður Bernhöftstorfubrekkuna fyrir öllum þessum árum hafa aukist að vöxtum og eru nú orðin að miklum fagnaðarlátum og hinsegin menningarhátíð, að máttugu fljóti, nærandi og frjósömu. Gleðilega Hinsegin daga ... Hin ögrandi gleði Sjón Lj ós m yn d: D ag ur G un na rs so n F plús fjölskyldutrygging nær til allra fjölskyldugerða og er hreint ótrúlega víðtæk. Í F plús er meðal annars heimilistrygging, slysatrygging í frítíma, farangurstrygging og ferðarofstrygging. Kynntu þér kosti F plús og tryggðu öryggi fjölskyldu þinnar. Gleðjumst saman örugg og áhyggjulaus. VÍS – þar sem tryggingar snúast um fólk. Knús á ykkur öll! VÍS | ÁRMÚLA 3 | 108 REYKJAVÍK | SÍMI 560 5000 | VIS.IS VÍS ÓSKAR HINSEGIN FÓLKI TIL HAMINGJU MEÐ HINSEGIN DAGA 4

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.