Morgunblaðið - 09.09.2021, Qupperneq 26
Fjölskyldan Fjölskylda Ástu Eggertsdóttur hefur snyrt gröf ókunns manns í tæpa öld. Frá vinstri eru Sigurveig,
Ásta, Aðalheiður, Eggert, Hannes, Guðmundur, Sindri, Júlíus, Kristófer, Gabríela, Viktoría, Alexandra og Þorgils.
VIÐTAL
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Foreldrar mínir misstu elsta
barnið sitt í vöggudauða og
mamma var töluvert mikið uppi í
kirkjugarði í kjölfarið,“ segir Ásta
Eggertsdóttir, fyrrverandi lækna-
ritari frá Akureyri, við upphaf frá-
sagnar sinnar af forvitnilegri at-
burðarás þar nyrðra, en barnið,
sem lést árið 1935, var systir
Ástu, hún varð aðeins sex vikna
gömul og fjölskyldu sinni harm-
dauði.
Var systirin lögð til hinstu hvílu
við hlið ömmu sinnar, Ingibjargar
Jónasdóttur, í Akureyrarkirkju-
garði á Naustahöfða og heimsótti
móðir Ástu grafir þeirra mikið og
oft auk þess að snyrta þar og
dytta að eins og þurfti. Líður svo
að jólum 1935.
„Ekki löngu eftir að systir mín
deyr er svo tekin gröf í aðeins
nokkurra metra fjarlægð og settur
á hana steinn,“ rifjar Ásta upp af
þessum atburðum fyrir hartnær
90 árum, sem hún upplifði þó ekki,
enda ekki fædd fyrr en 20 árum
síðar. Var steinninn nýkomni
merktur ungum Norðmanni,
Trygve Evanger Eggesbønes, sem
fæðst hafði 10. desember 1909 og
því ekki náð nema miðjum þrí-
tugsaldri, en hann hafði verið lát-
inn í nokkra mánuði er þessir at-
burðir gerðust, eða frá því í ágúst
1935.
Skilaboð í draumi
„Svo dreymir mömmu þennan
Norðmann, sem segir henni í
draumnum að hann sé ekki sátt-
ur við þennan hvílustað sinn.
Mamma trúði mjög á drauma og
fór og heimsótti umsjónarmann
garðsins á þessum tíma og spurði
hann hvort þarna gæti hugsan-
lega hafa orðið einhver rugl-
ingur. Svo þegar farið er að
skoða pappíra kirkjugarðsins
kemur í ljós að steinninn hafði
verið settur á rangt leiði,“ segir
Ásta af för móður sinnar.
Fóru leikar því svo að steinninn
var fluttur á réttan stað þar sem
ungi maðurinn norski hafði í raun
verið lagður til hinstu hvílu. Hann
vitjaði móður Ástu ekki frekar eft-
ir það og taldi hún hann sáttan við
málalok. Hún taldi það hins vegar
ekki eftir sér, í kjölfar þess að
Eggesbønes vitjaði hennar í
draumnum, að halda gröf hans við
með skreytingum og almennri
snyrtingu meðan henni entist ald-
ur til.
Maður gerði þetta bara
„Móðir mín hafði í tæp 60 ár
stóran garð sem hún hugsaði um
af mikilli natni og lagði mikla al-
úð í að sinna blómum og plöntum
sem þar voru. Það sama gilti um
leiði ættingja okkar í kirkjugarð-
inum og var mikil áhersla lögð á
góða umhirðu þeirra. Svo þegar
hún var hætt að geta farið í garð-
inn tók ég við og Trygve fékk
bara sínar skreytingar áfram,
hvort sem var um sumar eða jól
eða páska,“ segir Ásta og hefur
fjölskyldan því annast gröf
manns, sem hún þekkir engin
deili á, í hartnær öld. „Einhvern
veginn gerði maður þetta bara án
þess að velta því sérstaklega fyr-
ir sér, þetta fylgdi bara. Auðvitað
fór það oft í gegnum kollinn á
manni hver þessi maður eiginlega
væri,“ heldur hún áfram, en um
Eggesbønes og örlög hans, hver
svo sem þau voru, hefur fjöl-
skyldan aldrei haft minnstu hug-
mynd. Öll börn Ástu hafa komið
að umhirðu leiðis hans með ein-
um eða öðrum hætti.
Sindri Már Hannesson, sonur
Ástu, er henni til fulltingis í sam-
talinu og greinir nú frá því að
kærasti hans, sem er norskur, hafi
starfað í norska sendiráðinu í
Reykjavík í sumar, í hléi frá námi
í Hollandi, sem hann hefur nú
horfið aftur til. „Þessa sögu bar á
góma í sumar og úr varð að það
gæti verið áhugavert að koma
henni á framfæri á norsku til að
jafnvel sjá hvort einhver þekkti
einhver deili á Trygve í hans
heimalandi, öllum þessum árum
síðar,“ segir Sindri.
Orðinn einn af okkur
„Við gerum okkur þó grein fyr-
ir að mögulegt er að við fáum
aldrei að vita neitt um hann
Trygve,“ tekur móðir hans við,
„enda var hann ungur við ævilok
og langt um liðið síðan hann lést.
Líklega hefur hann starfað sem
verkamaður eða sjómaður, enda
skráður þannig í kirkjugarðs-
skrána, og af einhverjum ástæð-
um verið jarðsettur hér. Þó þykir
okkur gott að geta hugsað um
hann, enda hálfeinmanaleg til-
hugsun að vera jarðsettur langt
frá heimalandi sínu, án nokkurs
ættingja til að líta eftir með þér,“
segir hún.
Þau mæðginin kveðast hins
vegar sammála um að burtséð frá
því hvort nokkur botn fáist ein-
hvern daginn í raunverulegan
bakgrunn og ævi Norðmannsins
Trygves Evangers Eggesbønes
muni fjölskyldan halda áfram að
annast leiði hans um ókomna tíð.
„Hann er orðinn einn af okkur á
þessum 90 árum, það er einfald-
lega svoleiðis,“ segir Ásta Egg-
ertsdóttir að lokum.
Í friðargarðinum Ásta Eggertsdóttir við leiði Trygves Evangers Eggesbø-
nes í Akureyrarkirkjugarði sem birtist móður hennar í draumi.
Í blíðu Hjónin og Akureyringarnir Hannes Ragnar Óskarsson og Ásta Egg-
ertsdóttir á leið til Grímseyjar í einmuna veðurblíðu við ægifagra náttúru.
Gröf hins óþekkta Norðmanns
- Fjölskylda á Akureyri hefur snyrt leiði bláókunnugs manns í tæpa öld - Birtist í draumi með
erindi um ranga gröf - Orðinn einn af þeim - „Mögulegt að við fáum aldrei að vita neitt um hann“
26 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. SEPTEMBER 2021
Stærðir: 18–24
Verð 10.995
Margir litir
Biomecanics-skórnir auðvelda börnum að taka fyrstu skrefin.
Aukinn stuðningur frá hliðunum bætir jafnvægi og eykur
stöðugleika. Börnin komast auðveldar áfram og af meira
öryggi þökk sé sveigjanlegum sóla og sérstyrktri tá.
í fyrstu skónum frá Biomecanics
SKOÐAÐU ÚRVALIÐ Á VEFSÍÐUNNI OKKAR
www.skornirthinir.is
ÖRUGG SKREF
ÚT Í LÍFIÐ
SMÁRALIND
www.skornir.is