Saga - 2018, Page 76
upsins, kenniföður síns, og veraldlegra yfirvalda. Jón virðist gera
greinarmun á þeim breytingum sem urðu á kenningum kirkjunnar
annars vegar og hins vegar auknu valdi veraldlegra yfirvalda á
kostnað kirkjunnar. Líta má á þetta sem tilraun Jóns til að gera upp
sársaukafullt tímabil í sögu kirkjunnar og hans eigin fjölskyldu, við
„tvísýna tíma með spennu, átökum, ógnaratburðum, guðfræðilegri
og trúarlegri glímu, tilfinningalegu umróti og sálarangist sem [hafði]
áhrif … á næstu kynslóð á eftir“.42 Jafnframt hófst mótun hins menn -
ingarlega minnis um þessa tíma þar sem sporgöngumenn Jóns til-
einkuðu sér mikilvæga þætti í sögusýn hans.
Víða má sjá viðleitni hjá Jóni Egilssyni að slétta yfir andstæður
sem voru á milli kaþólsks siðar og hins lúterska og láta sem að í
raun og veru hafi ekki verið mikill munur á þessu tvennu. Þar þarf
ekki að vera um meðvitaða viðleitni að ræða heldur er þetta frekar
til marks um að Jón hafi haft samúð með kirkjunnar mönnum bæði
fyrir og eftir siðaskiptin. Jón heldur því til dæmis fram að Stefán
Jónsson, frændi hans, hafi amast við starfsemi aflátssala sem kom til
Íslands um 1513.43 Þegar litið er til annarra samtímaheimilda sést að
Jóni skjátlaðist ekki einungis um hvenær aflátssalinn var á Íslandi
(1503, frekar en 1513) heldur hitt, sem skiptir meira máli, að Stefán
biskup virðist hafa stutt hann með ráðum og dáð og að aflátssalar
komu einnig til Íslands á dögum Ögmundar og nutu stuðnings
hans.44 Hér er erfitt að fullyrða hvort Jón var meðvitaður um að
hann fór hér með rangt mál en svo þarf þó ekki að vera þar sem
skrif hans eru ekki byggð á rannsóknum á ritheimildum heldur
endur varpa þau því viðhorfi til sögunnar sem var ríkjandi í um hverfi
Jóns. Að mati hans og annarra sem deildu hans sýn á fortíðina þá
hlutu hinir íslensku kaþólsku biskupar að hafa verið andvígir afláts-
sölu því að þeir voru í grundvallaratriðum svipaðir hinum lútersku
eftirmönnum sínum.
Lýsing Jóns á biskupstíð Ögmundar Pálssonar bendir til þess að
þessi tilgáta eigi við rök að styðjast. Jón lýsir viðureign Ögmundar
við fylgismenn Lúters innan íslensku kirkjunnar ítarlega og er
samúð hans greinilega með hinum ungu mönnum sem risu gegn
kennivaldi biskupsins. Hann rekur upphaf þessarar hugmynda á
sverrir jakobsson74
42 Hjalti Hugason, „Siðbót og sálarangist“, bls. 80.
43 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 50.
44 Sjá Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi I. Jón Arason
(Reykjavík: Bókaverzlun Guðm. Gamalíelssonar 1919), bls. 191–196.
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 74