Saga - 2018, Side 77
Íslandi til prests í Skálholti sem hét Jón Einarsson og talaði gegn
dýrkun á dýrlingum og banni við giftingum presta. Ögmundur
reiddist og greindi skoðanir Jóns sem „villu Lutheri“. Þó tekur Jón
Egilsson fram að Ögmundur „dáðist þó mjög að þessum síra Jóni,
og sagðist þó ekki vilja hafa hann hér í Skálholti, svo að þessi villa
hún kæmi ekki héðan, en sökum vináttu þá veitti hann honum
Odda“.45 Hér ýjar Jón að því að Ögmundur hafi verið umburðar-
lyndur gagnvart þeim sem höfðu aðrir skoðanir en hann; honum
finnst andstæður meðal kennimanna fyrir siðaskiptin ekki hafa rist
djúpt.
Síðan segir Jón frá því hvernig Gísli Jónsson, Oddur Eyjólfsson
og Oddur Gottskálksson urðu sammála um hinn nýja skilning á
meðan þeir voru í þjónustu Ögmundar biskups, sem amaðist við
öllu slíku en virðist þó hafa látið makk þeirra óátalið. Frásögn Jóns
styður þann skilning að siðbótarhreyfingin hafi ollið úlfúð á milli
kynslóða þar sem ungir menn gengu henni á hönd en hinir eldri
voru tregari til. Eins og Hjalti Hugason bendir á þá hefur „(í) sum -
um tilvikum … sálarangist siðbótartímans … birst sem vonbrigði
eldri kynslóðar yfir villu hinnar yngri“.46
Um afstöðu Gissurar Einarssonar segir Jón hins vegar ekki ann -
að en að hann hafi verið valinn af Ögmundi biskupi, tekið vígslu í
kaupmannahöfn en tekið við Skálholti 1540:
En þó hann væri þar kominn, en hinn í Skálholti, þá fóru allir til fundar
við biskup Ögmund, hafði hann svosem öll ráð, en öktuðu hinn lítið
eða ekki, allra mest af því hann kom með siðskiptin, og sá herra Gizur
það, að svo lengi sem biskup Ögmundur væri í landi eða á lífi, mundi
aldri guðs orð fara fram, eður þeir siðir …47
Hér kemur sem sagt fram að tvennt veldur andstöðu Gissurar við
Ögmund, áhyggjur af eigin kennivaldi sem biskup og mismunandi
afstaða til siðaskiptanna. Þegar Jón segir frá handtöku Ögmundar er
hin sársaukafullu siðaskipti 75
45 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 75. Frásögn Jóns Egilssonar er ekki
traust hvað þetta varðar þar sem Jón Einarsson virðist þegar hafa verið orðinn
prestur í Odda þegar hann flutti „kyndilmessuræðuna“, sjá Tryggvi Þórhalls -
son, Gissur biskup Einarsson og siðaskiptin (Reykjavík: Börn höfundar 1989), bls.
5–25. Helgi Þorláksson telur frásögnina ónákvæma og jafnvel seinni tíma til-
raun til að skýra ágreining Jóns Einarssonar við Ögmund biskup, sjá Saga
Íslands VI, bls. 46.
46 Hjalti Hugason, „Siðbót og sálarangist“, bls. 77.
47 „Biskupa-annálar Jóns Egilssonar“, bls. 68.
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 75