Saga - 2018, Page 138
stuðning lista- og menntamanna við hugsjónir Sovétríkjanna víðsvegar um
heiminn, sem eflaust höfðu víðtækari áhrif en íslenskir menntamenn, til
dæmis í Suður-Ameríku og víðar. En doktorsefni beinir sjónum að starfinu
á Íslandi og kemst að þeirri niðurstöðu að „samskipti íslenskra kommúnista
og sósíalista við sovéska skoðanabræður sína á sviði menningar og lista á
tímum kalda stríðsins skiluðu takmörkuðum árangri“ (bls. 253) þar sem
framganga Sovétmanna í erlendum ríkjum, einkum Ungverjalandi og Tékkó -
slóvakíu olli verulegu tjóni.
Líkt og flestir aðrir fræðimenn leggur doktorsefni áherslu á að útskýra
stefnubreytingu íslenskra kommúnista á eftirstríðsárunum út frá veruleika
kalda stríðsins og því vega þessir þættir þungt hér. Niðurstaða mín er þó sú
að enn vanti töluvert upp á að íslensk (og alþjóðleg) kommúnistahreyfing
sé sett í nánara samhengi við sovétsögu og litið sé til annarra áhrifaþátta á
þróun hennar en t.d. innrásarinnar í Ungverjaland árið 1956 eða atburðanna
í Tékkóslóvakíu árið 1968. En það er einmitt sovétsagan og þær áherslur
sem þar eru uppi sem geta kastað nýju ljósi á kommúnistafræðin; beint sjón-
um okkar að öðru orsakarsamhengi en 1956 og 1968, svo dæmi séu tekin.
Alþjóðatengsl eru ekki það sama og gott þverþjóðlegt rannsóknarsamhengi
og kommúnistafræðin geta lært ýmislegt af sovétfræðunum (og öfugt).
Í ritgerðinni er nokkuð oft talað um framtíðarlandið Sovétríkin (t.d. bls.
131 og víðar). Með öðrum orðum að í Sovétríkjunum væri framtíðarríki
sovéts skipulagsins í mótun, þar væri „að skapast ný menning og nýtt fólk,“
(bls. 239) og það er alkunna að þessi framtíðarhugsjón var drifkraftur ís -
lenskra kommúnista og áróður um „yfirburði“ sovéska kerfisins skipti
gríðar legu máli alla tuttugustu öldina. Sú spurning vaknar af hverju hug-
myndin um framtíðarlandið (sem kemur víða fram í ritgerðinni) er þó að
mestu notuð sem skýringarþáttur í áhrifum menningar- og hliðarfélaga en
ekki nema óbeint í pólitíkinni? Er það af því að doktorsefni finnst þessi
grundvallarhugmynd um framtíðarlandið tengjast um of alþjóðatengslum
íslenskra kommúnista og sósíalista, þ.e. spurningum um sovéthollustu, eða
liggja aðrar ástæður þarna að baki? Þetta kemur til dæmis fram í greiningu
á áhrifum bókmenntafélagsins Máls og menningar, þar sem doktorsefni
kemst að þeirri niðurstöðu að samfélagsgerð Sovétríkjanna hafi þar verið
sett fram sem „raunhæfur kostur á móti vestrænum kapítalisma“ (bls. 242)
en hugmyndir um framtíðarlandið Sovétríkin eru ekki settar í beint sam-
hengi við pólitísk markmið kommúnista og sósíalista, nema síður sé. Þar
skiptir afkoma verkalýðsins frá degi til dags meira máli. Hér er kannski vert
að staldra við og skoða þessa notkun á hugmyndinni um framtíðarlandið.
Þessu er svo oft kastað fram, í hinum ljóðræna búningi hugsjónaskáldsins
Jóhannesar úr kötlum, „Sovét-Ísland, óskalandið,“ en hvernig sjáum við
þess merki í daglegu starfi og skipulagi íslensku kommúnistahreyfingarinn-
ar? Hvernig nota flokkarnir hugmyndina um framtíðarlandið í stefnumótun
og daglegu pólitísku starfi sínu?
andmæli136
NÝ_Saga haust 2018 .qxp_Saga haust 2004 - NOTA 19.10.2018 18:45 Page 136