Strandapósturinn - 01.06.2019, Blaðsíða 73
72
halda svo og svo mörg leigukúgildi og greiða leigu af þeim og í
flestum tilfellum að annast endurnýjun þeirra á eigin kostnað ef
þau misfórust með einhverjum hætti. Miðað við aðstæður til bú-
skapar á strönd Steingrímsfjarðar og Húnaflóa voru kvaðirnar
slíkur baggi að leiguliðum tókst aldrei að rétta almennilega úr
baki og koma undir sig fótunum.
Leiguliðinn var þannig fastur í fátækragildru frá fyrsta til síð-
asta andvarps, eins og segir í ljóðinu: „Fátækt höfðu þeir vaknað
við,/er vissu þeir fyrst af þessu lífi“6.
Til að komast af reyndi leiguliðinn ásetning langt umfram það
sem jörðin gat framfleytt, sem olli því að ef harðnaði í ári þá
hrundi bústofninn og allar bjargir þrutu, sveitarfélagið þurfti að
hlaupa undir bagga með fjölskyldunni og bóndinn lenti á skrá
yfir „þurfabændur“, kominn í skuld við sveitarfélagið.
Dæmi finnast um undantekningar frá fátæktarreglunni þar
sem menn efnuðust jafnvel svo vel að sögum fór af. Til þess að svo
mætti verða urðu nokkur skilyrði að fara saman: i) bóndinn varð
að vera sjálfseignarbóndi, eiga sjálfur sína jörð og þar af leiðandi
laus undan leigum og kvöðum; ii) jörðin þurfti að liggja vel við
landi og/eða sjó, vera landkostajörð eða hlunnindajörð sem gæfi
möguleika á myndarlegum búskap og/eða sjómennsku; iii) við-
komandi bóndi þurfti að búa yfir kunnáttu til að nýta sér gæði
lands og sjávar; og í seinasta lagi iv) að vera áræðinn, útsjónar-
samur, heilsuhraustur og fylginn sér.
Þar sem þessi skilyrði voru öll til staðar var góður möguleiki á
að efnast og lifa gjöfulu og góðu lífi, en öll þessi skilyrði voru
aldrei í boði fyrir leiguliðann, þar vantaði alltaf nokkuð upp á.
Eins og áður segir lögðust stofnanir samfélagsins, ríkisvald og
kirkja, saman á eitt að viðhalda ríkjandi ástandi og meðan það
ástand varði og fólk átti ekki að neinu öðru að hverfa en kotbú-
skap, var engin von á varanlegum breytingum.
Saga Gísla ríka í Bæ á Selströnd er undantekning, hún er saga
manns sem hafði bæði kunnáttu og þrek til að nýta möguleikana
sér og sínum til framdráttar, öll skilyrðin fjögur voru til staðar og
honum í hag og hann kunni að vinna úr möguleikunum.
Hefst nú að segja frá Gísla ríka Sigurðssyni.
6 Í Hákarlalegum eftir Jakob Thorarensen, 14. erindi.