Strandapósturinn - 01.06.2020, Síða 12
11
Guðbrandur Sverrisson
bóndi á Bassastöðum
Aðeins að kíkja
upp á Háls
Við vorum að ljúka snjómokstri undir hádegi þann 8. mars 1999 ég og
Siggi Villa (Sigurður Vilhjálmsson vörubifreiðastjóri á Hólmavík). Hann
var eitthvað svartsýnn á framtíðina, dálítið eldri og farinn að lýjast. Hann
var með tönn á vörubílnum og búinn að skarka á grjótinu á malarveginum
í Bjarnarfirði og Selströnd en ég var á dráttarvél með snjóblásara. Þegar við
kveðjumst í Bekkjunum á Bassastöðum segir Siggi, „maður fer nú að hætta
þessu og drepast bara“, en ég svara hughreystandi „það veit nú enginn hver
annan grefur“ um leið og ég vinka honum í kveðjuskyni og keyri heim
að Bassastöðum. Á þetta minnti hann mig þegar við hittumst næst fimm
mánuðum seinna, litlu hefði mátt muna að það rættist og ég yrði á undan.
Ég stoppa stutt heima, segi Lilju, konu minni, að ég ætli að skreppa
aðeins á sleðanum upp á Háls og kíkja hvort ég sjái tófu, þær gætu legið
úti á einhverju grenstæðinu í svona góðu veðri, ég verði ekkert svo lengi.
Mig grunaði ekki að næst þegar ég kæmi heim yrði komið vor og sauð-
burður langt kominn og þá yrði bara stoppað í nokkra daga.
Ég byrjaði að fara út á Grenfell stoppaði fyrir norðan fellið og læddist
fram á brúnina að norðan, ofan við grenið, kannski lægi lágfóta úti eða
kíkti ef kallað væri lágt, en ekkert að sjá ekki einu sinni far. Þá var tekinn
sveigur fram að Valaborg, ekkert þar heldur, hvergi far og ég hugsa mitt
ráð. Logn, heiðskírt, þetta gengur ekki, kannski best að skreppa yfir á Hóls-
fjall og Hallardal tekur ekki svo langan tíma og án þess að hugsa mig
um eitt andartak, beint af stað niður með Skarðsfelli yfir Bjarnarfjarðará
rétt fyrir neðan Þverá og þar upp á Hólsfjall og laumast að Grenstæðinu
í Hallardal, aðeins far en enginn heima. Stoppa næst á brúninni ofan við