Strandapósturinn - 01.06.2020, Blaðsíða 58
57
menn skoða hann, margir hverjir, næstum góðkunningja sinn og hálf kvíða
fyrir, þegar hann drepst út. Móri sýnir sjaldan af sér ótuktarskap, svo sem
að leggjast á fé. En það mislíkar honum mjög, ef bornar eru brigður á,
að hann sé ekki til. Þá má búast við, að hann sanni hinum vantrúuðu til-
veru sína með því að gera honum einhverja grillu. Aftur á móti hefir Móri
drjúgum skemmt mönnum með hrekkjum sínum og fyndni. Hann hefir
t.d. leikið það hvað eftir annað, að láta fullorðna menn villast í albjörtu
veðri, þar sem þeir voru gagnkunnugir. Hefir þessi svartfuglsvilla verið
höfð að háði um sveitina. Oft hefir hann og gert aldrað fólk andvaka með
undarlegum skarkala, rennt sér t.d. á rassinum alla guðslanga nóttina niður
baðstofuþekjuna. Eða þá dumpað við og við tvö högg á bæjarþilið. Gamla
fólkið veit þá, hver er á ferðinni. Þegar ég var strákur, sást Móri oft, og var
honum kennt um flest það, sem fór aflaga með óeðlilegum eða óvenju-
legum hætti.
Sögukorn þetta hefi ég mest skráð eftir sögu móðurföður míns, Guð-
mundar Ólsonar Ólasonar, sem draugurinn var sendur. Nam hann söguna
um viðureign Óla og Móra af Jóni Helgasyni, sem getið er hér að framan.
En Óli sjálfur sagði Jóni. Heimild: Rauðskinna III, 1935
Ljósmyndin af Móra
Ekki geta allir draugar státað af því að hafa verið festir á ljósmynd. Það
getur Seljaness-Móri líklega einn drauga gert. Í tímaritinu ‚„Dagrenningu“
árið 1956 er grein eftir ritstjórann, Jónas Guðmundsson, sem helguð er
tilvist Seljaness-Móra, og myndinni, sem hér um ræðir og saga hennar
sögð. Kaflinn um ljósmyndina er langur og verður hér endursagður og
styttur. Þar kemur fram að myndina hafi tekið Halldór nokkur Guðmunds-
son trésmiður frá Keflavík. Hann vann við síldaverksmiðjuna í Djúpuvík
um miðjan fjórða áratug tuttugustu aldar. Það var einn daginn um sumarið
að Halldór ásamt fleira fólki, fór í skemmtiferð um sveitina. Hafði hann
myndavél sína meðferðis og tók margar myndir, m.a. tók hann mynd í
lendingunni á bænum Munaðarnesi. Ekki var hægt að framkalla mynd-
irnar þá um sumarið og beið það þar til komið var til Reykjavíkur um
haustið.
Þegar Halldór tók myndina voru þrír bátar í vörinni og tveir menn,
sem gerðu að veiðarfærum. Sagt er að þeir séu, Guðmundur Gísli Jónsson