Strandapósturinn - 01.06.2020, Page 16
15
hann „grána gamla“ því úr honum garminum lá beislistaumur eða slanga
svipuð og er í rúðupissi nema hún lá niður í plastbrúsa sem hékk við
borðstokkinn. Líka var kominn heljarins mikill stálleggur framan á fót-
inn, skrúfaður með þremur boltum í lærlegginn og öðrum þremur í sköfl-
unginn og nú var kall bara með eitt hné. Já, bara nokkuð vel sloppið samt!
Fljótlega var svo bætt öðrum eins stállegg utanvert á fótinn. Með þessa
stálleggi var ég þar til í október að þeir voru skrúfaðir úr beininu aftur.
Þá var ég kallaður suður og eftir stutta skoðun hjá Brynjólfi Mogensen
lækni fékk hann mér skiptilykil til að skrúfa þessa tólf bolta úr fætinum.
Það gekk nú svona þokkalega með helminginn en seinni sex boltarnir voru
verri. Þegar ég var loksins langt kominn með verkið þá kemur „hjúkka“ og
varð heldur ókvæða við. Hún tók af mér lykilinn náði í Brynjólf og sagði
honum að á þessum spítala ynni starfsfólkið verkin, ekki sjúklingarnir og
meira yrði ekki gert fyrr en búið væri að svæfa mig. Það var gert og járnið
fjarlægt. Líklega var ég orðinn eitthvað sveittur við að basla í þessu þegar
hún kom, enda hafði ég ekki beitt skiptilykli í marga mánuði.
Á Borgarspítalanum var ég svo heppinn að lengst af var ég á sex
manna stofu með afar skemmtilegum og þægilegum félögum og var mikið
spjallað. Þar var lengst með mér Þórhallur Halldórsson frá Arngerðareyri.
Flesta daga sat konan hans hún Sigrún Sturludóttir við rúmstokkinn hans
og prjónaði. Þórhallur var að fá nýjan mjaðmalið og átti svolítið erfitt.
Við spjölluðum mikið. Hann mundi að þegar hann var ungur heima á
Arngerðareyri hefði oft komið og gist þar maður úr Steingrímsfirði, sem
var þá á leið vestur á Ísafjörð á fundi Búnaðarsambands Vestfjarða. Þessi
maður var afi minn og nafni Guðbrandur Björnsson á Heydalsá, en afi var
jarðaður daginn sem ég fæddist. Þá man ég líka eftir Ríkharði Jónssyni
knattspyrnukappa á Akranesi en verið var að endurnýja gervilið í hné á
honum. Hann átti ósköp erfitt með að vera rólegur í rúminu og þráttaði
talsvert við Brynjólf Mogensen lækni um hvenær hann mætti fara heim og
svo fór að hann strauk nokkrum dögum áður en brottfararleyfi átti að taka
gildi. En dætur hans höfðu þó reynt það sem þær gátu til að halda aftur af
kempunni og sú þeirra sem kom að tómu bólinu hans hristi bara höfuðið
þegar ég fræddi hana á því að hann hefði hringt eitthvað um morguninn
og fljótlega hefði komið maður til að sækja hann. Öðrum man ég eftir sem
lá eftir stóra aðgerð með næringu í æð og voru þrjár slöngur tengdar við