Strandapósturinn - 01.06.2020, Page 43
42
og Lenu. Við fljótin eru sögunarmyllur og þar var viðurinn stoppaður af,
lesinn sundur og sagaður. Á leið niður fljótin verða alltaf einhver afföll og í
flóðum sópast úr bökkum og þar jafnvel tré með rótum. Þessi viður berst til
sjávar fyrir ströndum Síberíu. Þaðan flyst viðurinn með íshellunni á fjórum
til fimm árum vestur og síðan suður með austurströnd Grænlands þar sem
ísinn bráðnar, viðurinn losnar úr honum og síðan sjá hafstraumar og norð-
austanáttin um að koma honum á fjörur Strandamanna.
Um höfin aldan rauðavið rekur,
rúllar í fjörur og aftur tekur.
Sorfinn brimi, saltur, marinn
sólþurrkaður, fúavarinn
liggur hann í sandi síðast,
sandstormar á honum níðast.
Hann er alveg eins að strjúka
og öldufaldinn silkimjúka.
Fía á Sandi (Hólmfríður Bjartmarsdóttir Sandi Aðaldal)
Af volkinu í sjónum verður viðurinn gegnsýrður af salti sjávar og fær
þannig náttúrulega vörn gegn fúa. Einhvers staðar á þessari leið tekur
sér bólfestu í viðnum trjámaðkur sem ber latneska heitið Teredo. Þessi
maðkur er með harða skel sem hann notar til að bora sér leið í gegnum
tréð og myndar þannig hið náttúrulega listaverk sem ormétinn rekaviður
er. Maðksmoginn viður var talinn lélegur og jafnvel ónýtur. Á rekanum
var því farið með fjöðurstaf í götin eftir maðkinn og athugað með því hve
djúpt viðurinn væri smoginn og þannig metin gæði hans.
Í Geirmundarsögu Heljarskinns segir:
Úr því lýsi (rostungslýsi) búa men seltjöru. Þat er nauðzin skipa, þat
segja men at skelmakurinn smjúgi ekki þat tré er seltjöru er brætt.
Við bryggjusmíðar reyndu menn ýmislegt til að verjast trjámaðki. Staurar
voru tjargaðir, klæddir með blikki úr olíutunnum eða þéttreknir með saum
á því svæði sem stóð í sjó. Þessar varnir dugðu skammt, oftast innan við
tuttugu ár.