Strandapósturinn - 01.06.2020, Síða 87
86
Bergsveinn Birgisson
frá Bakkagerði
Nokkur orð
um elskulegan
frænda
Elsku stóri, sterki frændi er farinn frá okkur. Og ég sem hélt að ekkert
nema Elli kerling gæti grandað stórum frændum sem geta allt. Ásbjörn
Magnússon var einstakur maður, fyndinn og léttlyndur að eðlisfari, með
stórt og hlýtt hjarta. Og sterka raustin hans, sem skar í gegnum norðanátt
og fuglagarg, og sem maður heyrði óminn af löngu áður en maður hitti
manninn. Hvar er hún nú? Ég veit það eru margir sem sakna þessarar
raddar. Og handanna sterku, sem voru boðnar og búnar til að hjálpa. Hann
frændi minn var alveg eins og menn eiga að vera, hann var stóri frændi
sem ég leit upp til og mun gera svo lengi sem ég lifi.
Minningar streyma frá því þegar ég var unglingur á sjó á Sundhana.
Það eru þau björtustu sumur sem ég á í minningunni þegar ég bjó hjá
þeim Ásbirni og Valgerði á Drangsnesi, og réri með honum og Magnúsi,
syni hans. Þessi stóri Strandamaður bjó yfir sköpunargleði sem braust út í
þrotlausri uppfinningasemi í orði og verki. Sérhver róður á Sundhana var
eins og ævintýri. Einn þeirra byrjaði á Halanum, þaðan var siglt á kantinn
vestur af Patró þar til Ásbjörn tilkynnti að við myndum gerast ferðamenn
og fara í leiðangur suður til Reykjavíkur. Í annað sinn var tekin lystisigling
undir Hornbjarg. Ásbjörn var afar sjókaldur maður eins og hann átti kyn
til, og sigldi upp þar til bjargið líkt og hvelfdist yfir okkur. Þá glumdi í
röddu Strandamanns svo fuglinn flaug í þúsundatali úr bjarginu, það var
eins og svart ský hefði verið dregið fyrir sólu. Minningin er stórbrotin eins
og maðurinn sjálfur.
Allt lék í höndunum á Ásbirni, hvort sem hann var að smíða blý-
teinavél eða hótel. Þegar Ásbjörn og Valgerður höfðu ráðist í að byggja