Strandapósturinn - 01.06.2020, Page 92
91
ráðskonu til halds og trausts ef á þyrfti að halda og kom fljótlega að því að
við vorum kallaðir til að leysa nokkurn vanda. Vandamálið var að á heimil-
inu var allur matur og bakstur framleiddur á sóló eldavél sem brenndi
olíu. Svoleiðis eldavélar voru þá á flestum bæjum. Hér ætlaði ráðskonan
að steikja kleinur og var búin að raða þeim tilbúnum á öll borð, trúlega
nokkur hundruð stykki. En þegar kom að því að steikja neitaði eldavélin
að hitna, sem sagt trekkti ekki nógu vel. Ráðskonan kallaði því á aðstoðar-
menn sína og vildi vita hvort þeir vissu hvað væri eiginlega að. Þeir töldu
að líklega væri skorsteinninn stíflaður af sóti, minnsta kosti hálfstíflaður.
Enda gerðist það stundum á bæjum að hreinsa þurfti þá annað slagið. Við
sögðum ráðskonunni að hafa ekki áhyggjur af þessu, við skyldum laga
þetta og það yrði nú ekki mikið mál.
Við fengum okkur poka og fórum niður í fjöru og settum góðan slatta
af möl og sandi í hann og urðum okkur úti um nógu langan kaðalspotta
og náðum svo í stiga og klifruðum upp á þak. Við höfðum sett svo mikið
í pokann að það gekk ekki vel að troða honum ofan í strompinn. Loksins
þegar það tókst létum við pokann fara í einni bunu niður á botn og drógum
hann svo upp aftur og töldum þá að ekki væri neitt sót eftir í strompinum.
Vorum við vissir um að þetta hafi í alla staði tekist vel en annað kom á
daginn.
Okkur brá illilega þegar við komum inn í húsið þar sem mætti okkur
kolsvart ský og út úr sortanum kom ráðskonan. Það fór ekki á milli mála að
hún var ekki par hrifin enda var hún næstum óþekkjanleg, svört frá toppi
til táar. Ekki var ástandið betra inni í húsinu. Þar voru allar kleinurnar á
borðum svartar og eldhúsið, gólf, veggir og loft, allt kolsvart. Ráðskonan
spurði hvern andskotann við hefðum gert, það hafi nánast verið eins og
sprenging í eldavélinni. Allar hurðir á eldavélinni opnuðust og allt fylltist
af sóti. Hún hafði staðið fyrir framan eldavélina og fengið sótið fram í sig.
Við Óli vorum ekki borubrattir eftir þessi ósköp enda vissum við ekki
hvernig þetta gat skeð. Við töldum þó ekki ólíklegt að við hefðum látið
pokahelvítið fara af of miklum hraða niður. En það var nokkuð ljóst að
kleinurnar yrðu hvorki steiktar né étnar. Til að reyna að bæta fyrir þessa
uppákomu þá hófumst við handa við að hreinsa allt húsið þar sem sótið
hafði fallið á. Það var mikil vinna að þrífa húsið og var því ekki lokið fyrr
en komið var fram á nótt. Ráðskonunni þótti sem von var miður að allar