Strandapósturinn - 01.06.2020, Page 143
142
Síðastliðið haust var kynnt spennandi og skemmtilegt verkefni sem Rann-
sóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa og Sauðfjársetur á Ströndum
vinna nú saman að. Það hefur yfirskriftina Menningararfur í myndum og
snýst um söfnun, skráningu og varðveislu gamalla ljósmynda sem teknar
eru á Ströndum. Verkefnið fékk byr undir báða vængi nýverið, þegar þriggja
ára öndvegisstyrkur fékkst úr Safnasjóði til að koma því í framkvæmd.
Ekki er til mikið af gömlum myndum af Ströndum á söfnum, en þó eru
nokkur mögnuð myndasöfn varðveitt á Þjóðminjasafninu og í Ljósmynda-
safni Reykjavíkur. Auk þess á Sauðfjársetrið dálítið safn af gömlum ljós-
myndum og einnig Minjasafnið Kört í Árneshreppi. Eins hefur myndum
verið safnað í Kaldrananeshreppi. Langmest af ljósmyndaefni frá Ströndum
er þó enn í einkaeigu og liggur að mestu leyti í albúmum á heimilum fólks.
Gamlar ljósmyndir eru mikilvægur menningararfur og geyma menn-
ingarsöguna, hvort heldur sem horft er á hversdaginn, tísku og skemmt-
anir, þróun og breytingar eða stórviðburði. Þær vekja gjarnan gleði og
kalla fram góðar minningar. Því er mikilvægt að gera þær aðgengilegar og
að sem flestir fái að njóta þeirra. Áhugi á gömlum myndum af Ströndum
sést reyndar mjög vel á því hversu mjög fólk gleðst yfir þeim myndum sem
settar eru inn á hópinn Gamlar Strandamyndir á Facebook. Sauðfjársetrið
og Rannsóknasetrið settu einmitt þann hóp upp og stýra honum.
Ætlunin er að safna allskonar myndum af Ströndum frá allri 20. öld-
inni, mannamyndum jafnt og myndum af viðburðum, mannlífi, mann-
virkjum og landslagi. Myndirnar verða skannaðar í hágæðaskanna og að
auki varðveittar rafrænt. Eftir það er auðvelt að prenta út vinnueintök
Menningararfur
í myndum
Jón Jónsson þjóðfræðingur
Kirkjubóli