Morgunblaðið - 21.01.2022, Side 19

Morgunblaðið - 21.01.2022, Side 19
MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 21. JANÚAR 2022 Vinurinn beið með lífið í lúkunum. Frúin kom með morgunfluginu. Eftirmiðdagssýning. – Feddi, ég er alveg að koma, er ekki örugg- lega hægt að geyma ferðatöskuna í Þjóðleikhúsi Lundúna? – Arna mín … ekki viss… það er ströng hryðjuverkalöggjöf á Bretlands- eyjum. Fimm mínútur í sýningu og álfkonan sveif inn á hæstu hæl- um Íslandsögunnar. Flott og eleg- ant. Á hæglátan hátt var starfs- fólkið sjarmerað upp úr skónum. Hryðjuverkalöggjöf Bretlands bráðnaði. Í röð fyrir allar aldir til að njóta snilldar Maggie Smith. Chekhov var vinur okkar. Grísku harmleik- irnir unaður þeirra sem harmur heillar. Heimsmálin krufin, gátur leystar í lautarferðum Regents Park. Eldklár, víðlesin og næm á menn og heiminn. Hún sá við mér. Ég ætlaði sko ekki að mæta með vinnunni í tveggjahæða strætó í gleðigöngu Lundúna. Allt vaðandi í fordóm- um og fölskum afsökunum. Arna mætti. – Auðvitað kem ég með þér elsku vinur. Guðdómlegur dagur sátta, réttlætis og gleðitára. Aust- ur-Lundúnir bugtuðu sig og beygðu fyrir drottningunni ís- lensku. Arna og Birna komu við á leið sinni til Baskalands og barnið Birna þurfti að læra meistara Snorra Hjartarson og framsögn eins og gerist og gengur. Þetta þurfa börn að kunna. Perlur ís- lenskrar tungu. Nýtast alls stað- ar. Kenn oss að telja daga vora, að við megum öðlast viturt hjarta. Sterk vinátta mótast á erfiðum tímum. Arna veiktist skömmu eft- ir að ég flutti út. Þau veikindi þekkti ég vel. Þau voru þungbær en leystust og hetjan Arna talaði í Kastljósi af visku, auðmýkt og einlægni. Slíkt ekki daglegt brauð. Arna ruddi veginn. Mikið var ég innilega stoltur af vinkonu minni. Seinasta eina og hálfa árið var Örnu erfitt. Krabbameinsmeðferð var tekin af krafti og seiglu. Flutt inn í skjólið til elsku Ásdísar syst- ur. Gafst aldrei upp fyrir veikind- unum vegna Birnu og Mörtu og síns fólks. Þeirra sem stóðu hjart- anu nærri. Fá að verða gömul. Njóta þess smáa. Ferð farin af einlægni og djörfung með dygg- um stuðningi. Ákveðin að reyna að gera allt vel, líka að deyja ef að því kæmi. Þakklátur fyrir yndislegan vin. Þakklátur fyrir að hún fór sínar erfiðu ferðir vel. Mikill er missir Birnu, Mörtu, foreldra hennar, systkina og vina. Ég þakka Örnu. Hún mun lifa áfram með okkur öllum sem elsk- uðum hana. Kenn oss að telja daga vora, að við megum öðlast viturt hjarta. Ferdinand Jónsson. Arna Schram lést 53 ára göm- ul, ekki einu sinni miðaldra á 21. aldar mælikvarða. Umkringd sín- um nánustu, fyrirvarinn nánast enginn. Hún hafði fengið þær gleðifregnir 14. desember sl. að allt krabbamein væri horfið. Sams konar gleðifregnir hafði hún líka fengið í febrúar 2021, að krabba- meinið sem hún hefði greinst með um hálfu ári fyrr væri á bak og burt. Þetta fer eins og það á að fara, kvað hún við eftir að þriðja rothöggið dundi á henni í byrjun ársins. Ársins 2022 sem átti að hafa alla burði til að verða ár rósa- kampavíns og gleði, á nýja og fal- lega heimilinu hennar í eina borg- arhlutanum sem henni þótti, innst inni, vel til ábúðar fallinn, Vest- urbænum. Við Arna kynntumst árið 1995, þegar hún byrjaði að vinna á rit- stjórn Moggans. Í fyrstu ein- skorðaðist kunningsskapur okkar við endurtekin ritstjórnarkvenna- partí á Brávallagötunni, þar sem hún bjó á þeim tíma með Katli og Birnu sinni. Smám saman, alveg áreynslulaust, bundumst við svo vináttuböndum sem aldrei trosn- uðu. Ég minnist þess varla að okkur hafi orðið sundurorða þennan aldarfjórðung. Nema, ef vera kynni í eitt skipti þarna um árið þegar nákvæmt inntak þess að vera „boðinn í mat á gamlárs- kvöld“ varð skyndilega að eldfimu álitaefni. Já, eða í hitt skiptið þarna um hitt árið, þegar ágrein- ingur blossaði upp án fyrirvara um lið nr. 04.10 í fjárlögum ís- lenska ríkisins. Það var nú allt og sumt. Hún flíkaði tilfinningum sínum ekki svo glatt en var týpan sem „lækaði“ mann í frumeindir í orði og verki, löngu áður en sýndar- þumallinn og lyndistáknin urðu til. Við vorum stofnfélagi nr. 1 og 2 í huldufélaginu HLB, sem í fyrstu sinnti starfsemi með ófjár- hagslegan tilgang á borð við sam- talsþerapíur og líknarverk. Hin síðari ár einskorðaðist sýslan fé- lagsins fremur við ýmsar jarð- neskar lystisemdir, jafnvel mál- verk og hlutabréf, í bland við trúnaðarsamtölin, fréttirnar, dægurmálin – naglalakk sem bar heitið Gold Digger. Arna var viðkvæm og stolt, hlý og mild, stundum brothætt. Stundum stífari en læstur stein- bítskjálki. Kankvís og hláturmild. Góð manneskja. Hún efldist jafnt og þétt og teygði sig langt út fyrir það sem maður hélt að væri þæg- indaramminn hennar, með tíman- um. Lengi vel eftir að hún veiktist síðsumars 2020 stóð hún síðan æðrulaus og keik, sjálf háhæla- og tískudrottningin, pels- eða kápu- klædd, prýdd silkiklútum, túrbön- um, hárkollum. Loðhúfumeistar- inn. Hún umvafði sig líka sínum nánustu, sem og fólki sem hún valdi að hafa í kringum sig á þar til gerðum vettvangi. Þar var hægt að styðja hana og hvetja, og „læka“ og „hjarta“, upp í himin- hæðir. En það var hún sjálf sem var kletturinn í gegnum öll þessi ósköp, skerið sem krabbameinið steytti á og átti að halda áfram að steyta á þar til það yrði að engu. Allt þar til hún gat ekki meira. Og nú er hún farin, sú sem var „brú yfir boðaföllin“. Eftir situr stofnfélagi nr. 2 í HLB-félaginu, „hugstola, svo ömurlega ein- mana“. Æðri máttur sé með ykkur, elsku Birna, ljósið hennar Örnu, Anna, Ásdís, Höski, Aldís, aðrir nákomnir. Helga Kristín Einarsdóttir. Þrátt fyrir að hafa fylgst með alvarlegum veikindum Örnu gerði ég engan veginn ráð fyrir að hún myndi kveðja svona fljótt. Það segir mikið um hana sjálfa, þessa einstöku konu sem gekk í gegnum erfið veikindi með óbilandi bjart- sýni að vopni í bland við æðru- leysi. Á laugardagskvöldinu áður en Arna lést fékk ég skilaboð frá henni með spurningum um nýjan veitingastað sem ég hafði nýverið sótt. Hún vildi vita hvernig mat- urinn og staðurinn væri. Það hvarflaði því ekki annað að mér en að við myndum fljótlega sitja þar saman, enda var Arna farin að skipuleggja endurkomu í starf sitt hjá Reykjavíkurborg. Við Arna kynntumst á vormán- uðum 2017, þá báðar nýráðnar sem sviðsstjórar hjá Reykjavíkur- borg. Atvikin höguðu því þannig að við urðum herbergisfélagar á ferðalagi, án þess að þekkjast. Ég vissi hver hún var og rifjaði upp blaðaviðtal sem hún hafði tekið við mig tuttugu árum fyrr þegar hún var ungur blaðamaður og ég að stíga mín fyrstu skref í Mið- garði. Þetta kvöld í Hrísey möl- uðum við saman langt fram á nótt og lögðum grunn að trúnaðarsam- bandi sem dýpkaði bara með ár- unum. Vináttan styrktist ekki síst í gegnum hóp dásamlegra sam- starfskvenna sem hittist reglu- lega. Það trausta bakland hefur fleytt okkur öllum í gegnum á tíð- um róstusama tilveru í krefjandi stjórnunarstarfi. Eftirminnilegust er borgar- ferðin til að halda upp á að fyrri lyfjameðferð Örnu var lokið. Að sjálfsögðu var ferðin innanlands þar sem við bjuggum við ferða- höft vegna faraldursins. Á ísköld- um vetrardegi tókum við okkur frídag, þræddum verslanir og veitingahús, skelltum okkur í dek- ur og enduðum í gistingu á hóteli í miðborginni. Arna var einstök. Hún var skarpgreind, tíguleg í fasi, létt og skemmtileg með þetta glettnis- lega blik í augum. Hún klæddist gjarnan litríkum fötum sem hún bar mjög vel. Arna var fagmann- eskja fram í fingurgóma og vílaði ekki fyrir sér að taka erfiðar ákvarðanir ef þær þjónuðu hags- munum borgarbúa að hennar mati. Það sem hún hafði umfram svo marga aðra var einlægur áhugi hennar á fólki. Hún var svo góður hlustandi. Bakgrunnur hennar hjálpaði mér mikið þegar kom að fjölmiðlasamskiptum. Arna fylgd- ist með á hliðarlínunni og stappaði ávallt í mig stálinu. Við áttum frábæra kvöldstund hjá samstarfskonu okkar núna í byrjun desember og Arna lagði grunninn að bataferlinu, enda út- skrifuð úr síðari lyfjameðferð. Hún var búin að búa sér til nýtt fallegt heimili í sama húsi sem hún sýndi okkur stolt. Lífið sjálft var fram undan með alls konar skemmtilegheitum. Við hittumst síðan aftur rétt fyrir jól í fjölmennara boði og Arna sagði spennt frá því að hún væri að skoða ferðalag á suðræn- ar slóðir áður en hún kæmi til vinnu, til að ná upp orkunni. Sú ferð verður ekki farin þar sem Arna fór í annað og lengra ferðalag. Ég mun sakna þess að geta ekki speglað vinnutengd mál við Örnu en líka að vera saman og spjalla um lífið og tilveruna. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til elsku Birnu og annarra ástvina. Megi minningin um þessa ein- stöku konu lifa í hjörtum okkar allra. Regína Ásvaldsdóttir. Það var óumræðanlega sorg- legt að fá fréttir af andláti Örnu Schram og óvænt. Arna geislaði af lífsvilja, sínum meðfædda metnaði og krafti, líka í harðri baráttu sinni við erfitt krabba- mein undanfarin misseri. Hún var bjartsýn um jólin og lagði drög að því að koma til baka að stýra menningar- og ferðamálasviði borgarinnar allt fram á fyrstu daga þessa árs. Meðferðin hafði sannarlega tekið á hana en við deildum öll með henni þeirri bjargföstu trú að þetta gengi vel og hlökkuðum til að fá hana til baka. Þegar við hittumst fyrir jól var hún ekki síður með blik í auga og eftirvæntingu í svipnum, eins og þegar hún gekk til liðs við borgina fyrir fimm árum til að leiða menningar- og ferðamálin, uppfull af nýjum hugmyndum, framtíðarsýn og krafti. Arna fæddist 15. mars árið 1968 í Reykjavík, dóttir Ellerts B. Schram, fv. ritstjóra og þing- manns, og Önnu Guðlaugar Ás- geirsdóttur tölvuritara. Hún ólst upp í Vesturbænum. Arna lauk stúdentsprófi frá MR, og BA- gráðu í stjórnmálafræði og heim- speki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla, auk MBA-gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík. Arna hóf störf í blaðamennsku ung að árum og starfaði á DV og Morgunblaðinu um árabil og var einnig aðstoðarritstjóri Krónik- unnar og fréttastjóri Viðskipta- blaðsins. Hún gegndi stöðum sem varaformaður og formaður Blaðamannafélags Íslands fyrst kvenna. Arna varð upplýsinga- fulltrúi Kópavogsbæjar árið 2010 og síðar forstöðumaður menning- armála í Kópavogi. Frá 2017 var hún sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur- borgar. Reykjavíkurborg hefur borið einstaka gæfu til að laða að sér sterkar konur í stjórnendahóp borgarinnar og Arna Schram var sannarlega ein af þeim. Alltaf vakandi yfir verkefnum dagsins, einbeitt og áræðin og náði ótrú- legum árangri í verkefnum sín- um. Borgin, menningarlífið og framtíð hennar fyllti án efa stór- an hluta af vökutíma Örnu – og mér kæmi ekki á óvart að menn- ingin og borgin hafi líka komið við sögu í draumum hennar, slík var ástríðan og metnaðurinn. Það var aðeins Birna dóttir hennar og fólkið hennar og fjölskylda og nánir vinir sem skipaði æðra sæti. Þar var ekki um að villast. Missir borgarinnar er mikill en missir Birnu og fjölskyldu Örnu er bæði djúpur, sár og ósann- gjarn. Það er þyngra en tárum taki að við fáum ekki notið krafta, samveru, visku og vináttu Örnu lengur. Ég votta þeim mína dýpstu samúð. Blessuð sé minn- ing Örnu Schram. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. Kveðja frá Blaðamanna- félagi Íslands Mér finnst það gerast æ oftar að ég skrifi um samferðafólk sem fellur frá í blóma lífsins. Þannig er það með Örnu Schram, sam- starfsmann á Morgunblaðinu í á annan áratug og formann Blaða- mannafélags Íslands um árabil, sem fallin er frá allt of snemma. Við vorum nánir samstarfsmenn hjá Blaðamannafélaginu, einkum árin sem hún var formaður og ég framkvæmdastjóri. Ég var líka sá sem nefndi það við hana fyrst hvort hún væri tilbúin til þess að gefa kost sér í stjórn Blaða- mannafélagsins. Hún tók sér um- hugsunarfrest, eins og hennar var von og vísa, en samþykkti svo og kom inn í stjórnina árið 1999, varð varaformaður árið 2003, formaður 2005 og var það til ársins 2009. Allan þennan tíma starfaði hún jafnframt sem blaðamaður, fyrst á Morgunblaðinu, síðan á Krónik- unni um tíma og loks sem frétta- stjóri á Viðskiptablaðinu eftir að hún var hætt sem formaður fé- lagsins. Það er styrkur að því fyr- ir formann í stéttarfélagi að vinna á gólfinu við hliðina á félagsmönn- um sínum. Þannig finnur hann best hvar eldurinn brennur heit- ast. Arna var öflugur formaður fé- lagsins á umbrotatímum í fjöl- miðlum og í samfélaginu öllu. Hún var gegnheil og samviskusöm í öllum störfum sínum og mátti ekki vamm sitt vita, en jafnframt sveigjanleg og lausnamiðuð þegar þess þurfti. Hún hafði mikinn metnað fyrir hönd góðrar blaða- mennsku og var mjög meðvituð um mikilvægi starfsins fyrir sam- félagið í heild. Hún bar hag fé- lagsins og fagsins mjög fyrir brjósti og vildi veg þess sem mest- an. Hún var formaður félagsins í hruninu, haustið 2008, þegar virkilega reyndi á félagið og hlut- verk fjölmiðla. Arna sat í starfs- hópi félagsins sem settur var á laggirnar til þess að bregðast við ábendingum í skýrslu rannsókn- arnefndar Alþings um það sem betur mætti fara á sviði fjölmiðl- unar. Þannig sýndi hún í verki hug sinn til blaðamennskunnar og enn frekar þegar hún gerðist fyrsti fulltrúi félagsins í fjölmiðla- nefnd, þótt hún væri horfin til annarra starfa. Þessum störfum og öðrum sem hún tók að sér fyrir félagið sinnti hún af mikilli trú- mennsku. Arna var einstaklega heill og góður samstarfsmaður. Því miður minnkaði samband okkar síðustu árin, eins og oft vill verða, en milli okkar var alltaf strengur sem aldrei slitnaði. Hennar er sárt saknað. Dóttur og öðrum aðstand- endum er vottuð innileg samúð. Guð blessi minningu Örnu Schram. Hjálmar Jónsson Í dag kveðjum við með sorg í hjarta kæra samstarfskonu, Örnu Schram, sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur, sem lést langt fyrir aldur fram. Minning um geislandi hlátur og bjarta nærveru Örnu fylgir okkur sem störfuðum með henni og yljar okkur þessa dimmu sorgardaga í janúar. Arna var vakin og sofin í starfi sínu sem sviðsstjóri menn- ingar- og ferðamálasviðs, jafnvel líka þegar hún þurfti að stíga til hliðar vegna erfiðra veikinda. Áhugi hennar og ástríða fyrir menningarlífi borgarinnar hélst allt fram á síðasta dag. Arna kom til starfa á menning- arsviði borgarinnar fyrir fimm ár- um með glæsibrag, full eldmóðs og með nýja sýn sem hún brann fyrir að láta verða að veruleika. Hún studdi við góðar og oft óhefð- bundnar hugmyndir og var líka alltaf tilbúin að skoða nýjar leiðir, hafði reyndar gjarnan á orði að það mætti gera hlutina öðruvísi en áður og það væri hollt að stokka upp og breyta til. Sjálf var hún óhrædd við að gera það, enda töff- ari sem gat staðið fast á sínu. Arna var orkumikil og alltaf að. Við eigum ótal minningar af henni á hlaupum milli staða og verkefna, stundum grípandi með sér súkku- laðimola sem henni fannst nú ekki vont, en hún var líka oft kyrrlát og íhugul og vildi halda sínu út af fyr- ir sig. Við vorum farin að hlakka til að fá Örnu aftur til vinnu með vorinu, ætluðum svo sannarlega að eiga góðar stundir saman í og utan vinnu og vorum vongóð yfir því hvað hún var bjartsýn þrátt fyrir erfið veikindi, síðast í símtali við Huld staðgengil sinn aðeins nokkrum dögum áður en hún kvaddi. Þegar við fylgjum Örnu síðasta spölinn minnumst við bjarts hlát- urs, glæsileika og kviks hugar og þökkum fyrir vináttu og samfylgd þau ár sem við fengum að njóta samvista við hana. Kærleikur Með kvöldinu birti stöðugt Um miðnætti voru létt ský á himni geislandi glaðvær Ský sem heita örugglega eitthvað við heitum líka örugglega eitthvað Hvaðan kemur þessi birta sem stöðugt vex með kvöldinu? Hvaðan kemur þessi geislandi glaðværð? Öll þessi heilaga gleði! Vatn í geislandi skál Geislandi vatn í skál (Sigurður Pálsson) Við sendum Birnu, einkadóttur Örnu, foreldrum hennar og öðr- um ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin lifir. F.h. samstarfsfólks á menning- ar- og ferðamálasviði Reykjavík- urborgar. Huld Ingimarsdóttir. ✝ Guðríður Eygló Þórðardóttir fæddist í Hamrahól í Ásahreppi 12. júlí 1943. Hún lést á Landakotsspítala 13. janúar 2022. Foreldrar henn- ar voru Salóme Pet- rea Kristjánsdóttir, f. 1922, d. 2007, og Þórður Tómasson, f. 1914, d. 2001. Systkini Guðríðar eru Sigríð- ur, f. 1944, og Tómas Kristinn, f. 1945, d. 2020. Árið 1965 giftist Guðríður eft- irlifandi eiginmanni sínum, Guð- mundi Brynjari Guðnasyni, f. 1942. Börn þeirra eru: 1) Anna Lilja, f. 1965, gift Guð- mundi Jakobssyni og eiga þau tvö börn og eitt barna- barn. 2) Guðni Þór, f. 1966, sambýlis- kona hans er Anna Berglind Indr- iðadóttir og eiga þau fjögur börn og eitt barnabarn. Útför Guðríðar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 21. janúar 2022, klukkan 10, að viðstöddum nánustu aðstandendum. Hlekkur á streymi: https://www.mbl.is/andat Elsku amma Gurrý, nú hefur þú fengið hvíldina sem þú beiðst eftir síðast þegar við hittum þig. Minningar okkar um þig eru okk- ur ofarlega í huga þessa dagana. Þegar við minnumst þín standa klárlega bústaðarferðirn- ar til þín og afa upp úr. Við sögð- um aldrei nei við því þegar við vorum spurð hvort við ætluðum að fara með í morgunkaffi í bú- staðinn þegar við vorum yngri. Það var alltaf til nammi og kex í skúffunum, sem við höfum senni- lega borðað óhóflega mikið af í gegnum tíðina, og eplasvali frammi í búri. Það var fastur liður hjá ykkur afa að koma á laugardagsmorgn- um til okkar þegar þið voruð í bú- staðnum. Ykkar mikilvægasta er- indi var að koma með laugardagsnammi handa okkur til þess eins að gleðja okkar litlu hjörtu. Þegar Theodóra og Eygló voru yngri vorum við oft í bústaðnum hjá ömmu og afa og á sumrin og var Sandra oft með okkur. Við máttum gera allt sem okkur sýndist á meðan við vorum þar. Við lékum okkur úti í garði með plastarmbönd sem við skiptumst á að fela og leita síðan að. Oftar en ekki var amma komin út á ver- önd með smá nammi handa okkur svo að við þyrftum nú ekki að koma inn til þess að ná okkur í nammi. Ömmu fannst mikilvægt að fara með okkur í strætó og var það hún sem fór með okkur öll í okkar fyrstu strætóferð. Henni fannst að þessi sveitabörn yrðu nú að prufa að fara í strætó og var þetta mikil upplifun fyrir okkur öll. Þegar maður kom í heimsókn til ömmu og afa þeysti amma um að finna eitthvað til þess að bjóða manni upp á. Í bústaðnum bakaði hún oft örbylgjuköku og vöfflur sem við tróðum í okkur. Stundum þegar við vorum yngri fengum við að gista í bústaðnum. Það þótti okkur algjör draumur og það klikkaði ekki að þá fengum við Cocoa Puffs í morgunmat. Ömmu þótti afskaplega gaman þegar við komum ríðandi í bú- staðinn, með hrossin okkar og skildum þau eftir þar. Hún hafði gaman af því að fylgjast með þeim og ekki síst okkur á baki. Henni þótti afskaplega vænt um hann Prins sinn sem hún komst nokkrum sinnum á bak á og var svo ánægð með hann. Nú hafið þið Prins sennilega hist á nýjan leik og farið í útreiðatúr saman. Þú varst alltaf stolt af því hvað okkur gengi vel í lífinu og gaf það þér mikið að fylgjast með okkur og fá fréttir af því sem við vorum að fást við. Nú síðast þegar þú fékkst að sjá nýjasta langömmu- barnið þitt, það gladdi þig mikið. Takk fyrir allt elsku amma! Ömmubörnin þín í Þúfu, Theodóra Jóna, Eygló Arna, Guðmundur Brynjar og Steinunn Lilja. Guðríður Eygló Þórðardóttir

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.