Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - okt 2020, Qupperneq 15
Siglfirðingablaðið 15
ég var orðinn svo æstur að ég stökk fram í fremstu
víglínu, með prik í hendi. Við fyrsta högg fékk ég
kylfu andstæðings á fingurgómana. Litla hetjan
hljóp grenjandi heim.
Brekkuguttar báru sigur af hólmi í þessum slag
því Gústi keila, sem bjó á Háveginum, var í okkar
hópi. Hann var stór og sterkur og vopnaður löngu
járnröri. Þegar hann steig fram á vígvöllinn þorði
enginn í hann. Hann ruddi Eyrarguttunum til baka
með rörinu og þeir voru fljótir að forða sér.
Fikt með eldfima vökva
Í húsi við Lindargötu 18 bjuggu tveir skólabræður
mínir. Á neðri hæðinni var Addi, Arnþór Þórsson,
en Brói, Guðjón Magnússon á þeirri efri. Við
Addi vorum eitt sinn að fikta með eld við húsið og
höfðum sett bensín í vatnskönnu. Faðir Bróa kom
að okkur og var ekki kátur, reyndi að slökkva eldinn
en hellti óvart úr könnunni, sem hann hélt að væri
vatn í, og var nærri búinn að kveikja í sér. Hann
náði að stökkva frá eldtungunum ómeiddur en var
sótsvartur í framan, aðallega af reiði!
Syðri hluti Lindargötunnar lifir ekki sterkt í
minningunni. Þó verð ég að geta tveggja merkra
manna sem bjuggu þar og settu svip sinn á bæinn.
Annar var hinn listhagi Bragi Magnússon, Bragi
lögga, en hinn var Tommi Hallgríms formaður KS
og mikill félagi okkar strákanna.
Breytt gatnakerfi, litli hringur og stóri hringur
Þá er komið að efri hluta Brekkunnar. Rétt við Hóla
gengur Kirkjugarðsvegur upp frá Lindargötunni að
Hávegi. Miðja vegu til suðurs hefst Hverfisgatan.
Gatnakerfið á Brekkunni í dag er nokkuð breytt
frá því ég bjó þar. Hverfisgatan var á þeim tíma
blindgata en frá Skriðustíg (nafnlausa gatan í gamla
daga) var hægt að aka upp á Háveg. Nú hefur
tenging Skriðustígs við Háveg verið rofin og syðri
hluti Hverfisgötunnar verið sveigður upp á Háveg.
Vegslóði eða stígur sem gengur upp milli Lindargötu
24 og 26, að bakhúsum við Lindargötu náði í gamla
daga upp að Hverfisgötu þótt hann væri ekki akfær
alla leið. Þá er efri hluti Kirkjugarðsvegar nú að
hverfa undir gras.
Einn leikur okkar strákanna var að fara í kapphlaup,
stóra hringinn eða litla hringinn. Hlaupið hófst
á Lindargötunni við Holuna. Stóri hringurinn
afmarkaðist af Lindargötu, Skriðustíg, Hávegi
og Kirkjugaðsvegi. Litli hringurinn afmarkaðist
af stígnum frá Lindargötu, Hverfisgötu og
Kirkjugarðsvegi.
Skíðakóngur og bakari
Hverfisgatan var afar þéttbýl. Á Hverfisgötu 3 bjó
Jón Þorsteins, einn af þekktustu skíðamönnum
landsins og bar hann hróður Siglufjarðar víða.
Hann varð margfaldur Íslandsmeistari á skíðum og
hlaut nafnbótina skíðakóngur Íslands oftar en einu
sinni. Árið 1947 tók Jón þátt í skíðastökkkeppni
á Holmenkollen í Noregi. Jón var af þekktri ætt á
Siglufirði, Gosunum, en sú ætt státaði af mörgu
frábæru skíðafólki. Ari sonur Jóns, yngri en ég, var
Lilja Guðmunds og Sigrún Steins prúðbúnar á Brekkunni.
Þær standa neðarlega á Kirkjugarðsvegi. Húsið til vinstri er
Hverfisgata 2. Til hægri er girðingin við hús Jónasar rakara
og fyrir ofan kirkjugarðurinn. Fjallið gnæfir yfir. Myndina
tók Ragna Hannesdóttir vorið 1965, þ.e. vorið sem 1951
árgangurinn fermdist.
Aftari röð frá vinstri: Jóhann Skarphéðinsson, Einar Pálsson,
Jónas Valtýsson og Arnþór Þórsson. Fyrir framan eru Gunnar
Trausti Guðbjörnsson, sem bjó í næsta nágrenni Brekkunnar, og
Dóra Lísa, frænka Einars. Myndin tekin í barnaafmæli haustið
1959.