Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - May 2019, Page 13
Siglfirðingablaðið 13
sem var mjög sérstakt. Þetta yrði
skrýtin helgi og við yrðum bara
að nýta okkur ástandið. Grenivík!
Ekki var það óskastaðurinn en ég
hringdi nú samt þangað en fékk
þá að vita að húsvörðurinn var
einhvers staðar suður í Reykjavík
og það var enginn sem gat sagt
neitt hvað þá tekið ákvarðanir
í fjarveru hans. Ég var alveg í
öngum mínum, þetta var allt að
fara úr böndunum og mér fannst
ég vera í svipaðri aðstöðu og
asninn sem eltir gulrótina alveg
endalaust en mun aldrei ná henni.
Ég sagði strákunum frá tilraunum
mínum á þriðjudagskvöldi með
hálfgerðum uppgjafartón. En
Dynheimar? Einhver varpaði fram
þessari óvæntu hugmynd. Jú það
er til staður sem heitir Dynheimar
og er rekinn sem félagsmiðstöð
en ég hef aldrei heyrt að það
væru böll þar. Það mátti svo sem
hringja í Dynheima og það var
gert strax morguninn eftir. Ég
talaði við þann sem veitti húsinu
forstöðu en hann taldi fráleitt að
halda unglingaball þar, það hafði
verið reynt nokkrum sinnum en
mæting var sáralítil í hvert einasta
skipti. Ég sagði honum þá að það
væri hvergi dansleikur á gjörvöllu
Eyjafjarðarsvæðinu og krakkarnir
hefðu ekki í nein hús að venda og
nálægasti dansleikur við Sjallann
væri á Ketilási í Fljótum. Honum
þótti þetta svolítið merkilegt en
leist samt ekki vel á hugmyndina.
Ég hélt samt áfram að reyna
að sannfæra hann um að þetta
gæti alveg gengið og að lokum
gaf hann sig og ég sendi honum
auglýsingaplaköt síðar þennan
sama dag með flóabátnum Drang.
Á laugardeginum vorum við
mættir inn við Dynheima um
áttaleytið. Við stilltum upp og
spjölluðum við manninn sem
sagði okkur að hann hefði þrátt
fyrir að hafa gefið eftir, ekki hafa
nokkra trú á kvöldinu. Þetta
hefði bara einfaldlega aldrei
virkað og hann sæi ekkert í
spilunum sem segði að það myndi
eitthvað frekar gerast núna.
Unglingadansleikurinn hófst
stundvíslega klukkan tíu og það
var eitthvað af krökkum sem biðu
við dyrnar og borguðu sig strax
inn á þrjúhundruðkall og svo
komu fleiri. Þegar aðeins var farið
að líða á kvöldið sáum við að
það var engu líkara en krakkarnir
hreinlega flæddu inn um dyrnar
og um miðnættið var nánast
orðið ólíft í húsinu. Þar var svo
troðfullt sem það gat frekast
orðið og jafnvel rúmlega það.
Að dansleik loknum þegar allir
voru farnir og við búnir að pakka
saman fór ég og hitti húsvörðinn.
“Jæja, var þetta ekki bara í góðu
lagi?” Hann horfði á mig og hristi
höfuðið og sagðist ekki skilja
neitt í þessu. Þá mundi ég að
það hafði alveg gleymst að ræða
kaup okkar og kjör. Ég spurði
vandræðalega hvernig uppgjör
færi fram á þessum bæ, en hann
leit á mig aftur og endurtók að
hann skildi ekki neitt í þessu
öllu saman. Svo rétti hann mér
þykkasta búnt af hundraðköllum
sem ég hef nokkru sinni séð
og sagði að þetta hefði komið
inn. “Bærinn borgar alla
reikninga hér svo það eru engir
kostnaðarliðir, en þið hefðuð
alveg mátt koma með einhvern til
að selja miðana.” Svo hristi hann
höfuðið aftur og ítrekaði það sem
hann hafði þá þegar nokkrum
sinnum sagt. Við talningu á
hundraðkallabunkanum kom í
ljós að þetta gæti alveg verið það
ball sumarsins sem gæfi hvað mest
í aðra hönd. Þegar við yfirgáfum
svo staðinn, stóð hann í dyrunum
og veifaði en horfði í leiðinni
á okkur eins og við værum
einhverjar geimverur. Svo hristi
hann höfuðið einu sinni enn og
gekk inn.
Endurnýjunin og kúvendingin.
Um haustið varð algjör kúvending
hjá okkur því við hreinlega
hentum hverju einasta lagi út af
efnisskrá okkar og æfðum upp
nýja frá grunni. Ástæðan var sú
að við fórum á ball með gleði
sveitinni Haukum með penna
og blað að vopni og hreinlega
skrifuðum niður hvert einasta
lag sem þeir fluttu þarna um
kvöldið og daginn eftir héldum
við fund um málið þar sem var
ákveðið að taka upp þessa nýju
gleði og singalong poppstefnu.
Þessi nýja lína þrælvirkaði og var
salurinn í litla Sjallanum heima á
Sigló stundum í svo miklu stuði
að loftið og veggirnir hreinlega
grétu sveittum tárum yfir öllu
saman. Þessi sveifla var í gangi
um land allt og við vildum taka
þátt í henni og höfða í leiðinni
til breiðari aldurshóps. Við
steinhættum því að spila Jethro
Tull, Deep Purple og þess háttar
eðalrokk en þess í stað átti Anna
í Hlíð upp á pallborðið hjá okkur
ásamt Stínu sem var lítil stúlka
í sveit, og í beinu framhaldi af
öllu saman var svo sungið um
hina rauðu sokka rabbarbarans.
Ekki fannst okkur öllum þessi
breyting vera til bóta en það
gekk óneitanlega betur að selja
sig. Þegar þarna var komið sögu
segir Guðni Sveins okkur að hann
muni hætta í bandinu fljótlega
því hann og kærastan eigi von
á erfingja, þau taki sambandið
mjög alvarlega og það fari bara
ekki saman að spila í hljómsveit
og byggja upp fjölskyldu. Þetta
þóttu okkur slæm tíðindi því
Guðni var og er fyrirtaksdrengur
í alla staði, þægilegur í umgengni,
hreint ótrúlega metnaðarfullur
og hörkuduglegur ef eitthvað
þurfti að gera. Það kemur samt
yfirleitt maður í manns stað og
annar prýðispiltur fyllti skarðið.
Það var Guðmundur Ragnarsson
sem hafði verið að spila í ýmsum
hljómsveitum undanfarin ár. Um
vorið 1973 gerðum við aftur sams
konar samning við Ragnheiði á
Allanum og spiluðum á Akureyri