Rit Mógilsár - 2021, Side 21
Rit Mógilsár 21
allan ræktunarkostnað, þar með girðingar á mörk-
um leigulandsins og kostnað við nauðsynlega vegi
og slóða. Hann getur ekki notað landið til annars en
skóg ræktar eða annarrar landnýtingar sem samn-
ingur inn tilgreinir sem gæti t.d. verið uppgræðsla
lands og bleyting mýra.
Leigusamningar hækka nýtingarvirði landsins og
staðar virðið vex því það verður eftirsóknarverðara
að eiga landið og búa á jörðinni. Landverð myndi því
trúlega hækka. Skógarleigan yrði í samkeppni við nú-
verandi landnýtingu sem oftast hefur nánast ekkert
nýtingarvirði. Hærra landverð vegna skógar leigunnar
myndi því tæplega þrýsta upp skógarleigunni.
Leiga úthagans skapar eigandanum nýjar tekjur sem
hann þarf litlu eða engu til að kosta og oftast án þess
að hann tapi miklum tekjum af fyrri nýtingu lands-
ins. Það getur verið hagkvæmt fyrir leigjandann að
semja við þann sem býr á jörðinni um daglegt eftir-
lit með ræktuninni og önnur viðvik. Þannig gæti
skógar leigan skapað eigandanum eða landseta hans
nokkrar launatekjur.
Landleiga til skógræktar gæti hentað garðyrkju- og
kúabændum sem hafa lítil not af úthaga. Hún gæti
jafnvel hentað sauðfjárbændum sem nýta ein göngu
afrétt til sumarbeitar. Skógarleiga eins og hér er lýst
er án kostnaðar eða vinnu landeigandans. Viðbótar-
tekjurnar af skógarleigu gætu skipt máli fyrir afkomu
bænda og byggð í sveitum. Skógarleigan myndi
henta mörgum eigendum frístundajarða og jafn-
vel tæla þá til búsetu í sveitinni. Þeir sem geta sinnt
starfi sínu og hugðarefnum óháð stað kynnu að kjósa
sveita lífið. Skógarleiga sem takmarkast við afmarkað-
an hluta jarðar er hlutlaus um eignarhald á landi.
Henni fylgja ekki þau félagslegu vandamál sem leiða
af uppkaupum á landi og hún getur verið hluti betri
lausnar á félagslegri stöðu sveitafólks.
Skógræktarsamningar
Frá tíunda áratug síðustu aldar hefur eigendum lög-
býla boðist að gera skógræktarsamning um afmark-
aðan hluta jarðar sinnar. Í upphafi voru samn ingar-
nir gerðir við landshlutabundin skógræktar verkefni
en nú við Skógræktina. Í eðli sínu eru skógræktar-
samningar leigusamningar um land til 40 ára ásamt
verktakasamningi. Leigugjaldið er að landeigandinn
eignast skóginn við samningslok og á allar tekjur
umfram tilkostnað af nýtingu skógarins á samnings-
tímanum78. Skógræktin skipuleggur rækt un ina, út-
vegar og kostar skógarplöntur til rækt unar og hefur
yfir umsjón með landinu á samnings tímanum. Land-
eigandinn hefur tillögurétt um skipu lagið en verður
að lúta því skipulagi sem Skógræktin gerir og hlíta
fyrirmælum stofnunarinnar um úr bætur ef út af er
brugðið. Landeigandinn er verk taki Skógræktarinnar
við undirbúning ræktunar, gróðursetningu og umhirðu
plantnanna. Ræktunin er ákvæðisvinna samkvæmt
taxta Skógræktarinnar fyrir hvert ræktunarverk.
Skógræktarsamningar á lögbýlum eru landleiga rík-
is ins en hvorki einkaskógrækt né styrkur við skóg rækt
á einkalandi. Í öðrum löndum er sjaldgæft að ríkið
leigi land til skógræktar en algengt að það greiði
styrk til skógræktar á jörðum í einkaeign. Fyrir komu-
lag skógræktarsamninga á lögbýlum hentaði vel
þegar megin markmiðið var að skapa atvinnu í dreif-
býli og tryggja þannig búsetu á jörðum þrátt fyrir
samdrátt í búvöruframleiðslu. Þetta hlutverk hefur
trosnað eftir því sem jarðir hafa færst úr bændaeign
og gagnsemin fyrir sveitafólk gæti verið meiri.
Byggðamarkmiðið er horfið úr skógræktarlögum og
áherslan er þar á kolefnisbindingu og umhverfis-
vernd. Einkaaðilar sýna áhuga á kolefnisbindingu
og bæði innlendir og erlendir fjárfestar og fyrirtæki
hafa nú þegar gert samninga við Skógræktina og
Kolvið um kolefnisbindingu með skógrækt. Skóg-
rækt til viðar framleiðslu ásamt kolefnisbindingu er í
sjónmáli og kann að verða mikilvæg atvinnugrein á
næstunni. Tímar arðsamrar skógræktar á íslenskum
úthaga virð ast á næsta leiti. Hér er margs að gæta
og óvíst að nú verandi fyrirkomulag skógræktarmála
henti fyllilega í nýjum heimi. Þessi greining er inn-
legg í umræðu um land, ræktun, samfélag og tæki-
færi á Íslandi.
78 Tilgangur skógræktarsamninga á lögbýlum var að skapa atvinnu
í dreifbýli og mynda framtíðarauðlind sem gæti staðið undir
atvinnurekstri í skógrækt. Þessi tilgangur var skýr í lögum um
Landshlutabundin skógræktarverkefni en er ekki ljós í núgildandi
skógræktarlögum sem tóku við af þeim lögum.