Skessuhorn


Skessuhorn - 09.03.2022, Blaðsíða 27

Skessuhorn - 09.03.2022, Blaðsíða 27
MIÐVIKUDAGUR 9. MARS 2022 27 Vísnahorn Í leiðindaveðrum að undanförnu hefur manni stundum orðið hugs­ að til þeirra sem þurftu virkilega að ferðast milli landshluta fyrir daga vélknúinna farartækja og nánast nokkurra vegabóta og þá ekki síst til landpóstanna gömlu sem áttu víst ekki alltaf sjö dagana sæla enda hefur máltækið „Þetta mega póstar hafa“ ekki orðið til án tilefnis. Um Guðmund Skagapóst kvað Lúðvík Kemp: Fé í haga hamrammur hríðar bagar gjóstur, um götur slagar gunnreifur Gvendur Skagapóstur. Og um þann sama ágætismann sem greinilega hefur komið „úr ýmsum áttum“ orti sá hinn sami: Pósturinn er svifinn að sunnan séð hef ég hann aldrei eins þunnan. Belgdur upp af bindindisræð- um. Bölvandi öllum veraldar gæðum. Pósturinn er enn kominn austan í illviðrum og djöfulskap braust’ann. Út á Skaga í andskotans hríðum ófullur á margspengdum skíðum. Pósturinn er nýkominn norðan nægan hefur skemmtana forðann. Áður fyrr hann átti á Skaga yndislega hérvistar daga. Pósturinn er vikinn að vestan viðurkennir Táradal beztan, sem er bráðum allur í eyði orðinn fyrir skaparans reiði. Jóhannnes Þórðarson Vestur­ landspóstur þótti röskur í ferðalög­ um og átti oft afburða röska hesta. Krummi hét einn sem þótti bera af fyrir röskleik og ratvísi. Helgi Val­ týsson tók saman Söguþætti Land­ póstanna og um það leyti sem því verki var að verða lokið frétti hann lát Jóhannesar pósts. Urðu þá til nokkrar vísur og koma hér þrjár þeirra: Bjart er yfir öldnum hal, enduð jarðlífsreisa, fákar hans um Fagradal Furðustranda þeysa. Himinvöllur hlær við reið, hófasköllin duna, undrasnjöllum söngvaseið sólarfjöllin una. Rekur Krummi um regingeim reiðarslóðir greiðar. Pósturinn til himna heim hefir þrjá til reiðar. Það er ekki lítils virði að geta hugsað með fögnuði til vorsins þegar kuldinn dynur á okkur. Mér er sagt að Sigurður Jónsson í Kata­ dal hafi verið í hríðarveðri uppi á Vatnsnesfjalli þegar félagar hans báðu hann að yrkja nú fallega vorvísu til að létta þeim lundina. Af­ raksturinn varð þessi: Fjöllin hæru fella traf fitlar blær í runni, jörðin grær og grænkar af geislanæringunni. Þeim er bjart í huga sem yrkja svona við þær aðstæður. Eftirfar­ andi vorvísur eru eftir sama mann en trúlega ekki ortar í sama sinn: Þegar faðmar fjöllin há fyrsti sólarbjarminn breiðu krónublöðin smá byrgja næturharminn. Sólin bæði landi og lá ljósa slæðu gefur. Lækir flæða lindum frá líkt og æðavefur. Hins vegar veit ég ekkert um höf­ und næstu vísu en hún er jafngóð fyrir því: Vetrarþilju hjaðnar hem, hljóðnar bylja strengur. Sér í iljar öllu sem andstætt vilja gengur. Það fer nú yfirleitt þannig að við sjáum í iljarnar á öllu fyrr eða síð­ ar og gildir þá einu hvort það er af hinu góða eða lakara. Aldraður vist­ maður á elliheimili orti þegar ein starfsstúlkan færði honum matar­ bakka: Matarást ég mæta finn mitt það gleður sinni, þangað strjálast eflaust inn eitthvað með af hinni. Þannig yrkja Íslendingar jafnt um mat sem ást og/eða matarást eftir þörfum og tilfallandi andagift enda sagði Aðalsteinn Svanur Sigfússon: Að yrkja „rétt“ um ekki neitt mun Íslendingum tamt. Hjá andleysi fær enginn sneitt – við yrkjum bara samt. Eitt sem angrar marga á efri árum er andvakan og pirrar hún ýmsa ekki síður en veðurfarið sem alltaf er einhvern veginn öðruvísi en við viljum hafa það. Um hana yrkir Rósberg Snædal: Eirð mig brestur, i mér fjand- inn vill festa rætur. Þó er verst að vera and- vaka flestar nætur. Öll þessi blessuð tölvutækni sem öllu á að bjarga gerir okkur gamal­ mennin stundum hálf eða heil rugl­ uð og var þó tæpast á bætandi enda netsambandið ekki alltaf fullkom­ ið frekar en greindarvísitala stjórn­ málamanna. Einhver ágætur maður kvartaði undan því að sá stjórnmála­ maður sem hann hafði lengi mesta trú á hefði reynst gallaður og færi heldur versnandi. Um þessi tíðindi orti Frímann Hilmarsson: Leyndir gallar sáust seint sem að breyttu vonum. Fjandinn hefur farið beint í forritið á honum. Ekki er nú alltaf gott að tímasetja vorkomuna svona mjög nákvæm­ lega en það hlýtur nú samt að koma eitthvert haustið (eða fyrr). Eftir­ farandi vorvísa er eftir Hallmund Kristinsson: Fannir bráðna fjöllum í. Fallega glampar sólin. Lóan syngur dírrindí og drullar á bæjarhólinn. Í Bessatungu í Saurbæ bjó Hólm­ göngu Bersi á sinni tíð. Á sínum efstu árum lá hann sjúkur í fleti sínu en fóstursonur hans í vöggu en ann­ að fólk var að heyverkum. Datt þá vaggan og drengurinn á gólfið en Bersi of máttfarinn til að hjálpa. Varð honum þá helst að starfi að setja fram þessar braglínur um framgang lífsins: Liggjum báðir í lamasessi Halldórr ok ek, höfum engi þrek; veldr elli mér en æska þér þess batnar þér en þeygi mér. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Lóan syngur dírrindí - og drullar á bæjarhólinn! Pennagrein Ég vil í upphafi þakka fyrir svör og söguskýringar, ég verð þó að viður­ kenna að það er mörgum spurning­ um ósvarað og ýmislegt sem enn þarf að útskýra. Eins og fram kem­ ur í svarbréfi sveitarstjórnar varð­ andi ný Hvalfjarðargöng þarf að sjálfsögðu að liggja fyrir hvaða val­ möguleikar eru fyrir legu þjóðvegar 1 um sveitarfélagið. Þá er mjög slæmt að vera búið að útiloka veg fyrir Grunnafjörðinn. Ef þau verða samsíða núverandi göngum þá ligg­ ur þessi leið beinast við. Að mínu mati er það skynsamlegasta leiðin, þá liggur beint við að um einstefnu er að ræða í báðum göngunum, ör­ yggisgöng gætu verið á milli þeirra og því hámarksöryggi vegfaranda tryggt. Ég held það sé rétt mun­ að hjá mér að teikningar af þess­ um hugmyndum eru til, Vegagerðin hafi fengið þær í hendur frá Speli þegar Spölur afhenti Vegagerðinni göngin. Aðrar hugmyndir um stað­ setningu ganganna kalla á nýja nálg­ un og ýmsa óvissuþætti t.d. hvort um tvístefnuakstur verður að ræða í báð­ um göngunum, engin öryggisgöng á milli ganganna (mun minna öryggi vegfaranda) og ýmsar viðbótar vega­ lagningar þeim samfara. Það liggur ljóst fyrir í svarbréfi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar að þeir telja ekki heimilt að leggja veg fyrir mynni Grunnafjarðar. Það er sú skoðun sem haldið hefur verið á lofti af sveitarstjórninni all lengi, leið­ réttið mig ef það er rangt. Kannski af þeim sökum hafa nágrannasveitar­ félögin ekki verið nógu dugleg að hamra á sínum hagsmunum, eink­ um þar sem skipulagsvaldið er ekki í þeirra höndum. Ég vil taka það fram hér að það eru þau svör sem bæjar­ fulltrúar á Akranesi og væntanlega aðrir sveitarstjórnarmenn á Vest­ urlandi hafa gefið kjósendum sín­ um, að þeir gætu ekki skipt sér af því. Þetta er að mínu viti alveg út úr kortinu því þessir aðilar eiga að koma hagsmunum síns sveitarfé­ lags á framfæri við hvert tækifæri, mér finnst þau ekki hafa gert það nægjanlega. Hér má geta þess að þessi sömu sveitarfélög ásamt Hval­ fjarðarsveit hafa verið með áskoranir til Vegagerðarinnar og Reykjavíkur­ borgar um úrbætur á Kjalarnesinu og lagningar Sundabrautar. Helstu markmið friðunar Grunnafjarðar er verndun á hin­ um ýmsum tegundum lífríkis svo og votlendi. Við samþykkt síðasta aðal­ skipulags fyrir Hvalfjarðarsveit var, að mig minnir, þá inn á skipulagi Leirár­ og Melahrepps teiknuð veglína að Grunnafirði en ekki á móti hinum megin í Skilamanna­ hreppnum og að þetta hafi verið ein af ástæðunum fyrir því að ráð­ herra gat ekki samþykkt skipulag­ ið óbreytt. Bendi einnig á það að ráðherra hafði engar forsendur á þeim tíma til þess að meta hvort af vegalagningu gæti orðið. Það kem­ ur ekkert fram í samningnum um friðun fjarðarins að ekki megi leggja veg fyrir fjörðinn. Ef það hefur ver­ ið samþykkt einhvern tímann síð­ ar þá þarf sveitarfélagið að svara þeirri spurningu; hvenær, hvar og af hverjum, hvort gerðar hafa ver­ ið einhverjar rannsóknir þar að lút­ andi og þá af hverjum. Mér vitanlega hefur aðeins verið gerð ein skýrsla um hugsanlega veglagningu þarna yfir. Sú skýrsla var gerð af VSÓ fyr­ ir Vegagerðina árið 2009 eða um 15 árum eftir að fjörðurinn var friðað­ ur. Vegagerðin hefur því væntanlega á þeim tíma talið að þessi leið væri heimil. Niðurstöður þessarar skýr­ slu var eins og flestir vita á þann veg að þetta væri vel framkvæmanlegt án þess að það kæmi niður á friðun fjarðarins. Þegar verið er að vernda eitt svæði þá getur það varla orðið með þeim hætti að nærumhverfi friðaða svæðis ins verði fyrir stórfelldu tjóni af þeim sökum, þá er tilganginum með verndun svæða ekki náð. Ég vil benda á það sem stendur í svarbréfi sveitarstjórnar að þeim beri skylda að fylgja eftir umhverfisvernd, það hlýtur að gilda alls staðar. Ég tel að tjónið á umhverfinu með þeim hug­ myndum um vegarlagninguna sem kynntar hafa verið, verði margfalt á við það sem er verið að vernda og að það nái ekki nokkurri átt. Það má geta þess að gerðar hafa verið arðsemisútreikningar á Grunnafjarðarleiðinni, það var á þeim tíma er Sturla Böðvarsson var samgönguráðherra. Niðurstað­ an var að þetta væri arðsöm fram­ kvæmd. Það sem breyst hefur síð­ an er að umferð hefur stóraukist og arðsemin mun meiri en þá var. Þá má vitna í svör núverandi sam­ gönguráðherra við fyrirspurn á Al­ þingi frá Guðjóni Brjánssyni 2020, sem voru á sömu leið, Grunna­ fjarðarleiðin áhugaverð og arðbær framkvæmd sem vert væri að skoða áfram. Það kom reyndar einnig fram í svari ráðherra að einhver fyrirstaða væri hjá Hvalfjarðarsveit. Vega­ gerðin hafði óskað eftir að veglína yfir Grunnafjörð yrði sett inn en sveitarfélagið treysti sér ekki á þeim tíma að setja hana inn, bar fyrir sig tímaskorti. Síðan eru liðin 12­13 ár. Margt annað áhugavert kemur fram í svari ráðherra. Niðurstaða þessara hugleiðinga kallar á frekari skýringar og svör vegna uppbyggingar þjóðvegar eitt á þessu við­ kvæma og fal­ lega svæði. Það hljóta all­ ir kostir að þurfa að vera inni. Það verður að horfa á framkvæmdina án þess að einkahagsmunir ráði för, þar sem verið er að byggja upp til langr­ ar framtíðar. Mikil uppbygging er væntanlega framundan á öllu svæð­ inu, alveg frá Hvalfjarðargöngum og upp í Borgarfjörð og vestur á Snæfellsnes. Þá á umferðin norður í land einnig eftir að aukast verulega og því er stórmál að vel takist til. Þetta er m.a. öryggismál og skiptir alla vegfarendur máli. Ég velti fyrir mér; þetta eru stórar ákvarðanir sem þetta litla sveitarfélag þarf að taka. Ef það ræður ekki við verkefnið, skoðar ekki alla kosti til hlítar, hvar er þá málið statt? Gæti íbúakynn­ ing og kosning í framhaldinu, hjálp­ að til? Þarf Vegagerðin að koma að málinu? Skipulagsstofnun? Eða jafnvel ráðherra, spyr sá sem ekki veit? Svör óskast og einnig birt á sama vettvangi. Með kveðju. Ólafur Óskarsson, fyrir hönd eiganda sumarhúsasvæðis í landi Beitistaða Svarbréf til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar Björgum sveitinni

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.